Hoppa yfir valmynd
10. desember 2018 Utanríkisráðuneytið

Viðburðir í tilefni sjötíu ára afmælis mannréttindayfirlýsingarinnar

Handskrifuð frumdrög mannréttindayfirlýsingarinnar - myndUtanríkisráðuneytið

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna er sjötíu ára í dag. Af því tilefni var efnt til ráðstefnu í Veröld – húsi Vigdísar um mikilvægi yfirlýsingarinnar en segja má að allir seinni tíma mannréttindasamningar grundvallist á henni. Þar var meðal annars sýnt myndband með ávarpi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra en hann er staddur á Indlandi.  

Í ávarpinu lagði utanríkisráðherra meðal annars áherslu á að mannréttindi væru ekki afstæð heldur algild. „Með því að setja mannréttindi í forgang, frelsi og jafnrétti allra, erum við um leið að vinna friði og stöðugleika í heiminum gagn. Þann slag verðum við alltaf að vera tilbúin til að taka,“ sagði Guðlaugur Þór. 

Í þessu samhengi minnti ráðherra á að samkvæmt yfirlýsingunni væru allir menn bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. „Að vera borinn frjáls í þennan heim þýðir meðal annars að ríkisvald á ekki að setja of miklar skorður á hvað ég get tekið mér fyrir hendur. Þetta er grundvallaratriði og gleymist stundum í umræðu um mannréttindamál,“ sagði Guðlaugur Þór. Um leið áréttaði hann að það fælust grundvallarmannréttindi í því að menn og konur fengju að lifa eins og þeim hugnast og að „frelsi fólks til hugsana og athafna sé óskert, svo lengi sem það breytir bróðurlega gagnvart öðrum mönnum og konum og allir njóta sömu réttinda“.

Utanríkisráðherra lýsti ánægju með að Ísland skyldi eiga sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á þessum merku tímamótum enda væri staða mannréttindamála almennt góð hérlendis og kæmi vel út í öllum samanburði við aðrar þjóðir. 

Styttri útgáfa af ávarpi utanríkisráðherra hefur verið birt á Facebook-síðu hans. 

Auk Guðlaugs Þórs ávörpuðu bæði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ráðstefnuna. Þá fjallaði Björg Thorarensen lagaprófessor um mannréttindayfirlýsinguna í sögulegu samhengi og í framhaldinu var efnt til pallborðsumræðna.  Þá fékk Rúnar Snær Reynisson fréttamaður afhent verðlaun vegna smásagnasamkeppni vegna 70 ára afmælis mannréttindayfirlýsingarinnar og ritstjórn skuggaskýrslu barna til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna flutti ávarp.

Í tilefni dagsins undirrituðu þau Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu og Ellen Calmon, stjórnarformaður Mannréttindaskrifstofu Íslands samstarfssamning til næstu þriggja ára. Hann kveður á um að utanríkisráðuneytið styrki MRSÍ um fjórar milljónir króna á ári. Sérfræðingar MRSÍ veita í staðinn aðstoð og stuðning við málefnavinnu, meðal annars vegna reglubundinnar fyrirtöku Íslands á vettvangi mannréttindaráðsins (e. Universal Periodic Review). Þá er gert ráð fyrir að í tengslum við veru Íslands í mannréttindaráðinu skapi MRSÍ grundvöll fyrir samráði og samtali ráðuneytisins við það net félagasamtaka sem skrifstofan tengir saman.

 
  • Ellen Calmon, stjórnarformaður Mannréttindaskrifstofu Íslands, og Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta