Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2020 Forsætisráðuneytið

950/2020. Úrskurður frá 23. nóvember 2020

Úrskurður

Hinn 23. nóvember 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 950/2020 í máli ÚNU 20110001.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 2. nóvember 2020, kærði A töf yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis á afgreiðslu beiðni hans um aðgang að gerðabók yfirkjörstjórnar við síðustu forsetakosningar, sem fram fóru 27. júní 2020. Óskað er eftir bókunum sem varða undirbúning kosninganna, sem og bókunum á kjördag og einnig bókunum eftir að kjörfundi lauk, á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012.

Eins og þetta mál er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu. Þá þykir óþarft að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis á beiðni kæranda um aðgang að gögnum kjörstjórnarinnar í tengslum við forsetakosningar en yfirkjörstjórn hafði ekki svarað beiðni kæranda þegar kæra barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Samkvæmt upplýsingalögum tekur valdsvið úrskurðarnefndar um upplýsingamál til þeirra handhafa opinbers valds sem heyra undir framkvæmdarvaldið skv. 2. gr. stjórnarskrárinnar en ekki til löggjafarvalds eða dómsvalds.

Yfirkjörstjórn við forsetakosningar er kosin af Alþingi, sbr. 2. gr. laga um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36/1945, sbr. 13. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000. Því er ekki um að ræða stjórnvald í skilningi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Með lögum nr. 72/2019 sem tóku gildi þann 11. júní 2019 var gildissvið upplýsingalaga nr. 140/2012 víkkað á þann hátt að lögin taki einnig til stjórnsýslu Alþingis eins og nánar er afmarkað í lögum um þingsköp Alþingis og reglum forsætisnefndar sem settar eru á grundvelli þeirra. Ákvæði V.–VII. kafla upplýsingalaga taka þó ekki til Alþingis eða stofnana þess. Óháð því hvort starfsemi yfirkjörstjórna falli undir stjórnsýslu Alþingis eða ekki felst í þessu að afgreiðsla yfirkjörstjórnar á beiðni um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga er ekki kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Því verður að vísa kærunni frá.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 2. nóvember 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Símon Sigvaldason

Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta