Lilja Dögg Alfreðsdóttir tók við af Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur
Ráðherraskipti urðu í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þegar Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra tók við embætti af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um mikilvægi þess að efla íslenska menningu og ferðaþjónustu. Menning og ferðaþjónustan eru stór þáttur í íslensku atvinnu- og efnahagslífi og er mikilvægt að þær fái tækifæri til uppbyggingar eftir áföll heimsfaraldursins. Menning og listir eru uppspretta og birtingarmynd fjölbreytts og sterks samfélags, og þarf einnig að hlúa að uppbyggingu þeirra eftir heimsfaraldurinn. Það er að auki stór þáttur í aðdráttarafli Íslands sem ferðamannalands. Einnig er fjallað um verkefni sem snúa að viðskiptum, samkeppnismálum og neytendamálum.
„Þetta verkefni leggst mjög vel í mig. Ég er spennt og mjög áhugasöm um málaflokkana sem ég fæ í hendurnar. Menningarmálin þekki ég vel og það er nauðsynlegt að við leggjum aukna áherslu á málefni menningar sem og ferðaþjónustunnar til að búa svo um hnútana að þær komi sterkar til baka eftir áfall heimsfaraldursins.“
Búist er við að tilfærsla á málaflokkum ljúki endanlega eftir áramót, en verkefni munu færast til á næstu dögum og vikum. Við það verður til nýtt ráðuneyti, ráðuneyti ferðamála-, viðskipta og menningar.