Viðbrögð velferðarráðuneytisins við niðurstöðum óháðrar úttektar
Velferðarráðuneytið hefur móttekið skýrslu með niðurstöðum óháðrar úttektar á málsmeðferð og efnislegri athugun ráðuneytisins í kjölfar kvartana þriggja barnaverndarnefnda vegna Barnaverndarstofu og forstjóra hennar. Í úttektinni kemur fram að mörgu hafi verið ábótavant í meðferð málsins. Ljóst er að nýta verður niðurstöðurnar með markvissum hætti til að styrkja og bæta stjórnsýslu ráðuneytisins til framtíðar.
Bragi Guðbrandsson hefur óskað eftir endurupptöku á umræddu máli við velferðarráðuneytið. Hin óháða úttekt gefur fullt tilefni til þess og fyrir liggur að ráðuneytið mun verða við þeirri beiðni.
Velferðarráðuneytið mun á næstu dögum fara frekar yfir niðurstöður úttektarinnar, meðal annars til að greina hvaða þætti varðandi stjórnsýslu og verklag ráðuneytisins þurfi helst að bæta. Þá hefur ráðuneytið óskað eftir fundi með skýrsluhöfundum til að fara yfir viðbrögð ráðuneytisins. Þar kemur til álita endurskoðun á innra skipulagi ráðuneytisins, samskiptum og verkferlum. Yfirstjórn ráðuneytisins er meðvituð um að reglubundin skoðun á verklagi þess er mikilvægur liður í því að bæta stjórnun, greina veikleika og bæta úr annmörkum þegar þess er þörf.
Aukið eftirlit og bætt stjórnsýsla með nýrri stofnun
Þess má geta að þann 7. maí síðastliðinn tók formlega til starfa Gæða- og eftirlitstofnun félagsþjónustu og barnaverndar sem er sérstök ráðuneytisstofnun sett á fót til að sinna stjórnsýsluverkefnum og eftirliti á sviði félagsþjónustu sem veitt er af hálfu sveitarfélaga, opinberra stofnana eða á grundvelli samninga, auk afmarkaðs eftirlits á sviði barnaverndar.
Ákvörðunin um að setja á fót sérstaka gæða- og eftirlitsstofnun um þessi verkefni byggðist á tillögum nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði árið 2014. Markmiðið er að styrkja undirstöður heildstæðrar þjónustu ríkis og sveitarfélaga og skilja með skýrum hætti á milli stjórnsýslu- og eftirlitshlutans annars vegar og veitingu þjónustunnar hins vegar. Það er sambærilegt því fyrirkomulagi sem er á sviði heilbrigðisþjónustu þar sem Embætti landlæknis annast eftirlit og tiltekin stjórnsýsluverkefni. Með því hefur verið stigið mikilvægt skref í átt til bættrar stjórnsýslu á sviði félagsþjónustu og barnaverndamála.