Hoppa yfir valmynd
14. september 2017 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 501/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. september 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 501/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17060041

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 16. júní 2017 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar frá 18. maí 2017 um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar.

Kærandi hefur ekki lagt fram greinargerð en litið verður svo á að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. maí 2017, kom fram að kærandi hafi sótt um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar. Samkvæmt gögnum málsins gengu kærandi og maki hennar í hjúskap hér á landi þann 23. janúar 2017, en maki kæranda mun hafa dvalarleyfi hér á landi sem aðstandandi Íslendings. Með fyrrnefndri ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda synjað um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskaparins. Kærandi kærði ákvörðunina þann 16. júní 2017 til kærunefndar útlendingamála. Kærunefnd bárust athugasemdir frá kæranda þann 11. ágúst 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til skilyrða fyrir dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar, sbr. 69. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. gæti nánasti aðstandandi útlendings, sem dvelst hér á landi á grundvelli nánar tilgreindra ákvæða laga um útlendinga, fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Maki kæranda hefði hins vegar ekki dvalarleyfi hér á landi á grundvelli þeirra ákvæða sem tiltekin væru í 1. mgr. 69. gr. og ætti því ekki rétt á fjölskyldusameiningu skv. 69. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að maki hennar uppfylli öll skilyrði laga til að öðlast búsetuleyfi hér á landi og því verði sú fyrirstaða sem synjun Útlendingastofnunar byggi á ekki fyrir hendi þegar umsókn hans hefur verið afgreidd. Þá byggir kærandi á því að eldri lög hafi ekki komið í veg fyrir að útlendingur í sömu stöðu og maki hennar ætti rétt til fjölskyldusameiningar. Hafi hann átt réttinn fyrir gildistöku nýrra laga og verði sá réttur ekki af honum tekinn.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við útlending sem dvelst hér á landi, sbr. 69. og 70. gr. laga um útlendinga.

Í 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skilyrði dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laganna getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að maki kæranda hafi dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 4. mgr. 71. gr. laga um útlendinga, en af upptalningu í 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga er ljóst að dvalarleyfi á grundvelli 71. gr. myndar ekki rétt til fjölskyldusameiningar. Að þessu virtu verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Vegna athugasemdar í kæru um skilyrði dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar samkvæmt eldri lögum um útlendinga nr. 96/2002, tekur kærunefnd fram að kærandi gekk í hjónaband eftir gildistöku laga nr. 80/2016 og sótti um umrætt leyfi 20. febrúar 2017. Fæst því ekki séð að kærandi hafi átt rétt sem hafi verið tekinn af honum við gildistöku hinna nýju laga.

Samkvæmt upplýsingum sem kærunefnd hefur aflað mun maki kæranda uppfylla tímaskilyrði vegna ótímabundins dvalarleyfis í september. Kærunefnd bendir á að verði maka kæranda veitt ótímabundið dvalarleyfi skv. 58. gr. laga um útlendinga geti kærandi lagt fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar að nýju.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                         Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta