Hoppa yfir valmynd
12. júní 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Minna atvinnuleysi í maí en spár gerðu ráð fyrir

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra á fjarfundi með norrænum vinnumálaráðherrum. - mynd

Alls voru um 39.000 einstaklingar skráðir án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í maí, þar af voru um 17.900 skráðir án atvinnu í almenna bótakerfinu og um 21.500 vegna minnkaðs starfshlutfalls samhliða atvinnuleysisbótum. Skráð atvinnuleysi í maí var samtals 13,0% eða 7,4% í almenna bótakerfinu og 5,6% vegna minnkaðs starfshlutfalls. Þetta er minna heildaratvinnuleysi en Vinnumálastofnun hafði spáð þar sem hraðari fækkun hefur orðið meðal þeirra sem fá greiddar atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli en gert hafði verið ráð fyrir. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, greindi norrænum vinnumálaráðherrum frá stöðu mála hér á landi á fjarfundi í morgun.

Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að skráð atvinnuleysi lækki enn frekar í júní og fari í um 7,3% í almenna kerfinu og um 3,9% vegna minnkaðs starfshlutfalls. Gerir stofnunin því ráð fyrir að skráð heildaratvinnuleysi í júní verði um 11,2%.

Skráð atvinnuleysi minnkaði á landinu öllu milli mánaðanna apríl og maí 2020, en var þó enn mest á Suðurnesjum í maí eða 19,6%. Þá var skráð atvinnuleysi 13,5% á höfuðborgarsvæðinu í maí og 12,3% á Suðurlandi á sama tíma.

Skráð atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara nálgast 40%, auk þess sem einstaklingar sem starfað hafa innan greina sem tengjast ferðaþjónustu eru um 29% allra sem skráð hafa sig án atvinnu hjá Vinnumálastofnun. Næst fjölmennasti hópurinn eru einstaklingar sem starfað hafa í iðnaði, byggingariðnaði, landbúnaði og sjávarútvegi og eru þeir um 23% allra sem eru án atvinnu.

Í lok maí voru um 16.200 einstaklingar skráðir án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í almenna bótakerfinu og um 17.200 einstaklingar í minnkuðu starfshlutfalli. Þeim fækkar enn jafnt og þétt sem nýta sér úrræðið um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli en í byrjun júní 2020 var um að ræða u.þ.b. 14.600 einstaklinga.

Þá hefur fjöldi þeirra sem fær greiddar atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli farið minnkandi undanfarnar vikur. Alls er fjöldi umsækjenda nú um 14.600 einstaklingar en til samanburðar greiddi Vinnumálastofnun tæplega 34.000 einstaklingum atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli fyrir apríl 2020.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Það er ánægjulegt að sjá atvinnuleysi minnka hraðar en spár gerðu ráð fyrir og það bendir til þess að hlutabótaleiðin hafi virkað vel. Hún var sett á til þess að verja ráðningarsamband fólks og fyrirtækja og koma í veg fyrir uppsagnir í mesta rótinu. Nú þurfum við sem samfélag að halda áfram að bæta í, sækja fram af krafti og skapa hér fleiri ný störf á næstu misserum.”

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta