Rætt um þróun öryggismála og vaxandi varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna
Árlegt samráð Íslands og Bandaríkjanna um öryggis- og varnarmál fór fram í Washington föstudaginn 21. apríl. Öryggishorfur í kjölfar árásarstríðs Rússlands gegn Úkraínu, ásamt auknum varnarviðbúnaði Atlanthafsbandalagsins og varnarsamvinna ríkjanna voru meðal helstu umræðuefna fundarins.
Rætt var um aukið eftirlit og viðbúnað á Norður-Atlantshafi og samstarf Íslands og Bandaríkjanna í tengslum við kafabátaeftirlit og varnir. Samvinna ríkjanna hefur vaxið á síðustu árum á grundvelli varnarsamningsins og á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Á fundinum var einnig rætt um mikilvægi þess að standa vörð um alþjóðakerfið og tryggja að borin sé virðing fyrir alþjóðalögum. Samskiptin við Kína, norðurslóðir, netöryggi og mannréttindi voru einnig á dagskrá fundarins.
Anna Jóhannsdóttir, staðgengill ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu, fór fyrir sendinefnd Íslands en auk utanríkisráðuneytisins og sendiráðsins í Washington tóku fulltrúar forsætisráðuneytisins, Landhelgisgæslu Íslands og ríkislögreglustjóra þátt í samráðinu. Fulltrúar Bandaríkjastjórnar voru frá utanríkisráðuneyti, varnarmálaráðuneytinu, bandarísku strandgæslunni og sendiráðinu í Reykjavík.