Úrskurðað um ferðaþjónustu fyrir fatlaða íbúa Sólheima
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur kveðið upp tvo úrskurði í málum er varða ferðaþjónustu fatlaðra íbúa Sólheima í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Í öðru málinu var kært vegna breytinga sveitarfélagsins á reglum um ferðaþjónustu á þann veg að þrengja þjónustusvæðið. Niðurstaða ráðuneytisins var að málefnalegra sjónarmiða hefði ekki verið gætt við þá ákvörðun auk þess sem jafnræðis íbúa væri ekki gætt. Ákvörðun um breytingu var því talin ólögmæt og þar með ógild.
Hitt málið varðaði synjun sveitarfélagsins á umsókn manns um ferðaþjónustu fatlaðra en sveitarfélagið bar fyrir sig að Sólheimum bæri að sjá um þá þjónustu á grundvelli þjónustusamnings við ríkið. Niðurstaða ráðuneytisins var að synjunin væri ólögmæt og þar með ógild. Var einkum á því byggt að það fagráðuneytið sem fer með málefni fatlaðra, félags- og tryggingamálaráðuneytið, hefði þegar gefið út það álit að Sólheimar fengju ekki greiðslur til að standa straum af þessari lögbundnu þjónustu sem sveitarfélaginu bæri að veita.