Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2023 Matvælaráðuneytið

Verndarsvæði og rafrænt eftirlitskerfi m.a. til umfjöllunar á ársfundi Norðuraustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins

Á ársfundi Norðuraustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins (NEAFC) sem haldinn var í London dagana 14.-17. nóvember, voru tekin til umfjöllunar sameiginleg hagsmunamál aðildarríkja ráðsins. Ríkin eru: Bretland, Danmörk (vegna Færeyja og Grænlands), Evrópusambandið, Ísland, Noregur og Rússland og fer ráðið með stjórn fiskveiða á úthafinu í Norðaustur-Atlantshafi.

Á fundinum var samþykkt að gera tillögur um verndarsvæði (OECM) til samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Svæðin verða fyrsta framlag ráðsins til markmiða samningsins um verndun 30% hafsvæða heimsins fyrir 2030.

Einnig voru samþykktar verndunar- og stjórnunarráðstafanir fyrir árið 2024 varðandi fjölda fiskistofna á grundvelli nýjustu ráðgjafar Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Meðal þeirra stofna voru norsk-íslensk síld, makríll, blálanga og ýsa á Rockall Banka. Stjórnunarráðstafanir fyrir brjóskfiska voru framlengdar, þ.m.t. bann við veiðum á beinhákarli, hámeri, djúpsjávarhákörlum, skötum og hámúsum. Þá var í fyrsta skipti í nokkur ár samþykkt tillaga um stjórn karfaveiða í Síldarsmugunni.

Ekki liggur fyrir samkomulag varðandi veiðar úr deilistofnunum síld, kolmunna og makríl. Því nær ákvörðun ársfundarins eingöngu til þess að ríkin skuli setja sér takmarkanir og að öðrum en aðildarríkjum sé óheimilt að veiða úr þessum stofnum á úthafinu.

Að auki samþykkti ráðið að þann 15. janúar 2024 yrði hafinn tveggja ára aðlögunartími að nýju rafrænu eftirlitskerfi eða svokölluðu ERS kerfi. Kerfið er afrakstur margra ára þróunar og mun veita eftirlitsaðilum, svo sem Landhelgisgæslunni, Fiskistofu og systurstofnunum þeirra hjá öðrum NEAFC ríkjum, mun nákvæmari upplýsingar en hingað til. Kerfið mun efla framkvæmd eftirlits en jafnframt hjálpa gögnin sem kerfið safnar til að styrkja vísindalega ráðgjöf og þannig stuðla að bættri vistkerfisbundinni fiskveiðistjórnun og að verndun líffræðilegs fjölbreytileika.

Að lokum samþykkti árfundurinn að hafin verði markviss vinna til að draga úr áhrifum loftlagsbreytinga á vistkerfi sjávar og að gert verði ráð fyrir áhrifum loftslagsbreytinga á fiskistofna og umhverfi hafsins í fiskveiðistjórnun.




Efnisorð

Heimsmarkmiðin

12. Ábyrð neysla og framleiðsla
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin
14. Líf í vatni
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta