Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Stýrði fundi norrænna menningarmálaráðherra

Mynd: Norræna ráðherranefndin í menningarmálum - mynd

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra stýrði fundi norrænna menningarráðherra en fundurinn er hluti af 75. þingi Norðurlandaráðs sem fer fram í Ósló. Ísland fer með formennsku í Norðurlandasamstarfinu.

Norðurlöndin eiga í nánu samstarfi á sviði menningarmála en á fundinum fóru ráðherrarnir yfir þau verkefni og áskoranir sem þau standa frammi fyrir í málaflokknum. Þar var meðal annars rætt um áhrif örra tæknibreytinga á menningu, fjölmiðla og tungumál Norðurlandanna.

Þá fór menningar- og viðskiptaráðherra yfir formennskuverkefni Íslands en þar ber helst að nefna mótun sameiginlegrar norrænnar stefnu um máltækni sem getur stuðlað að framgangi norrænu tungumálanna í stafrænum heimi, svo þau geti verið aðgengileg í samskiptum við tæki og í allri upplýsingavinnu.

Önnur verkefni sem hrint hefur verið í framkvæmd í formennskutíð Íslands eru norrænt þjóðbúningaþing í Reykholti, vestnorræn menningarhátíð í Washington DC, áhersla á tónlistarmenn frá norðurslóðum á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves og norrænn ungmennamánuður í nóvember.

„Menning er eitt það helsta sem sameinar Norðurlöndin og það er því mikilvægt að halda fast í þetta rótgróna samstarf ríkjanna. Löndin eru að vinna að ýmsum metnaðarfullum verkefnum í menningarmálum. Ísland hefur margt fram að færa á þessum vettvangi en á undanförnum árum höfum við stigið stór skref í að efla umgjörð menningarmála á Íslandi,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Ráðherra var einnig viðstödd afhendingu verðlauna Norðurlandaráðs í Óperuhúsinu í Ósló sem veitt eru í tengslum við 75. Þing Norðurlandaráðsins. Þar hlaut íslenski rithöfundurinn Rán Flygenring barna- og unglingabókaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókina Eldgos. Verðlaunin eru veitt í nokkrum flokkum en á síðasta ári hlaut íslenska kvikmyndin Dýrið í leikstjórn Valdimars Jóhannssonar kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.

 

Sjá einnig: Tilnefningar Íslands til verðlauna Norðurlandaráðs 2023


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta