Guðmundur Þórðarson ráðinn í stöðu samningamanns
Guðmundur Þórðarson hefur verið ráðinn í stöðu samningamanns í fiskveiðisamningum á skrifstofu sjávarútvegs í matvælaráðuneytinu.
Guðmundur hefur yfirgripsmikla reynslu af íslenskum og alþjóðlegum sjávarútvegi. Hann býr einnig að mikilli þekkingu á hafrannsóknum og gagnasöfnun sem hefur nýst í störfum hans við ráðgjöf og stefnumörkun. Guðmundur hefur unnið sem sérfræðingur og sviðsstjóri botnsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun og sem sérfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
Guðmundur hefur einnig stýrt vinnunefndum á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins og sótt fundi á vegum Sameinuðu þjóðanna um botnveiðar.
Guðmundur lauk doktorsprófi í fiskifræði frá Imperial College í Lundúnum árið 2005. Hann lauk meistaranámi í vistfræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og BSc prófi í líffræði frá sama skóla árið 1997 og hefur birt fjölda ritrýndra greina um lífríki sjávar.