Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Samstarf um stofnun og rekstur Bergsins Headspace - lágþröskuldaþjónustu fyrir ungt fólk

Á grundvelli tillagna frá stýrihópi stjórnarráðsins í málefnum barna hafa félags- og barnamálaráðherra, heilbrigðisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, dómsmálaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ákveðið að taka þátt í samstarfi um stofnun og rekstur þverfaglegs móttöku- og stuðningsúrræðis fyrir ungt fólk. Um er að ræða tilraunaverkefni til tveggja ára og munu ráðherrarnir verja 30 milljónum króna á ári til verkefnisins þ.m.t. í formi stöðugilda. Einnig er gert ráð fyrir að leitað verði eftir stuðningi meðal fyrirtækja og annarra aðila sem bera samfélagslega ábyrgð. Tilraunaverkefnið fellur að áherslum stjórnvalda sem samhliða munu leggja aukna áherslu á forvarnir, fyrirbyggjandi aðgerðir og snemmtæka íhlutun í heildarendurskoðun í þjónustu við börn þvert á ráðuneyti.

Úrræðið, sem hefur verið í burðarliðnum um nokkurt skeið, hefur gengið undir nafninu Bergið Headspace og er stofnað af Sigurþóru Bergsdóttur og Dr. Sigrúnu Sigurðardóttir, lektor við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri með stuðningi fleiri aðila. Bergið Headspace er þverfaglegt móttöku- og stuðningsúrræði fyrir ungt fólk undir 25 ára sem býður upp á einstaklings- og áfallamiðaða þjónustu. Fyrirmyndir Headspace má finna í Ástralíu og Danmörku þar sem svipuð úrræði hafa gefið góða raun. Markmiðið er að auka og gera skilvirkari þjónustu við börn og ungmenni og reyna að tryggja að þau fái aðstoð sem fyrst. Lögð er áhersla á að einfalda ferlið og skapa vettvang þar sem börn og ungmenni geta haft samband við aðila sem veitir stuðning og ráðgjöf út frá þörfum hvers og eins og beinir málum þeirra í réttan farveg. Þá verður sérstaklega horft til tæknilausna og fjarþjónustu.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, telur mikilvægt að börn geti fengið stuðning og hjálp án þess að vera með skilgreindan vanda. "Til að hægt sé að hvetja börn og ungt fólk til að leita sér hjálpar þá verðum við að sjá til þess að það sé auðvelt og einfalt að gera það og að það sé hægt áður en vandinn verður alvarlegur. Bergið Headspace verður vonandi dýrmætur hlekkur í því að tryggja slíka hjálp og þá í nánu samstarfi við skóla, heilsugæslu og aðra aðila í nærumhverfi barna sem er lykilatriði."

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir mikilvægt að ungt fólk eigi kost á því að leita sér aðstoðar hindranalaust þegar þörf er á. "Við vitum að snemmtæk íhlutun getur skipt sköpum fyrir eintaklinga og líðan þeirra til lengri tíma. Ég fagna þessu tilraunaverkefni og bind vonir við að það muni auka skilvirkni í þjónustu við ungt fólk."

Á sama tíma og unnið er að uppbyggingu þessa úrræðis mun fara fram, í samræmi við tillögur stýrihóps í málefnum barna, rannsókn á líðan barna og ungmenna á Íslandi. Kannaðar verði mögulegar ástæður þess að þau upplifa vanlíðan og kvíða, þjónustuúrræði kortlögð sem og nýting þeirra og árangur. Markmiðið er að innan árs liggi fyrir heildarmynd af kerfinu og tillögur um umbætur.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta