Hoppa yfir valmynd
22. september 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp ráðherra á málþingi um málefni fatlaðra

Góðir gestir.

Ég er þakklátur fyrir þetta málþing sem hér er haldið þar sem efnt er til umræðu um tækifærin sem felast í flutningi málefna fólks með fötlun frá ríki til sveitarfélaga. Hér verður horft til framtíðar og sjónum beint að stjórnsýslu, hugmyndafræði og þjónustu með áherslu á úrbætur. Tækifærin eru margvísleg, okkar hlutverk er að koma auga á þau og nýta þau til hins ýtrasta.

Við stöndum frammi fyrir mörgum stórum og vandasömum verkefnum nú um stundir og flutningur þessa málaflokks til sveitarfélaganna er eitt þeirra. Miklu skiptir að við leysum það vel af hendi og til þess að svo megi verða þurfum við að takast á við verkefnið sameiginlega, af krafti, heiðarleika og bjartsýni. Ríki og sveitarfélög, hagsmunasamtök fólks með fötlun, stéttarfélög, stjórnmálamenn og embættismenn þurfa að vinna saman með skýra sýn, vilja og einurð til að fylgja málinu alla leið.

Málefnaleg gagnrýni er ávallt af hinu góða og það er mikilvægt að kunna að nýta sér hana. Allar ábendingar um það sem betur má fara ber að taka alvarlega, skoða og meta og taka afstöðu til aðgerða í framhaldi af því. Úrtöluraddir eru annars eðlis. Oftast skila þær engu, eða það sem verra er, þær ala á óvissu og tortryggni - rífa niður í stað þess að byggja upp.

Ríkisendurskoðun skilaði nýlega skýrslu um þjónustu við fatlaða þar sem farið er yfir skipulag málaflokksins, þjónustuna og fyrirhugaðan flutning hennar til sveitarfélaganna. Skýrsla Ríkisendurskoðunar er málefnaleg og þar eru margar gagnlegar ábendingar um aðgerðir til úrbóta. Ráðuneytið hefur farið yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar með hliðsjón af þeim ábendingum sem þar koma fram og skilað henni greinargerð um þau verkefni sem unnið er að í ráðuneytinu og af hálfu verkefnisstjórnar um flutning málaflokksins til sveitarfélaganna og miða að því að færa mál til betri vegar.

Umræðan um flutning málefna fólks með fötlun til sveitarfélaganna er orðin vel þroskuð. Málið á sér langan aðdraganda, það hefur fengið mikla skoðun og undirbúningurinn hefur verið unninn í nánu samstarfi ríkis, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka. Fyrir liggja drög að samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um tilfærsluna þar sem skilgreindir eru þeir þjónustuþættir sem sveitarfélög taka fjárhagslega og faglega ábyrgð á að framkvæma. Lýst er markmiðum með yfirfærslunni, sett fram áætlun um nauðsynlegar lagabreytingar og fjallað ítarlega um myndun þjónustusvæða og lágmarksíbúafjölda svæða til að tryggja faglegt og fjárhagslegt öryggi þjónustunnar og jafnræði með þjónustuþegum.

Í samkomulagsdrögunum er einnig fjallað um fjárhagsramma tilfærslunnar og jöfnunaraðgerðir, gerð grein fyrir aðgerðum til að tryggja rétt fólks með fötlun til þjónustu og skilgreint nýtt samstarfsverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð. Fjallað er um mat á biðlistum og innleiðingu á nýju þjónustumati sem er grundvöllur jöfnunarkerfis milli þeirra sem veita þjónustuna. Loks er umfjöllun um eftirlit með þjónustunni og faglegt og fjárhagslegt endurmat á árangri tilfærslunnar.

Það er ekkert launungarmál að það þarf að bæta fyrirkomulag eftirlits með þjónustu við fólk með fötlun. Með sameiningu félags- og heilbrigðismálaráðuneyta í eitt velferðarráðuneyti skapast nýir möguleikar í þessum efnum og er stefnt að því að byggja upp sameinað eftirlit með allri velferðarþjónustu. Fyrirkomulag réttindagæslu fólks með fötlun er einnig til skoðunar, eins og Lára Björnsdóttir kemur væntanlega inn á hér á eftir, og eins má nefna að í drögum að samkomulagi ríkis og sveitarfélaga hefur verið skilgreint nýtt samstarfsverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð. Þá er sterkur vilji til þess að lögfesta sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun.

Það er skýr stefna stjórnvalda að efla sveitarstjórnarstigið með auknum verkefnum. Ég tel ótvírætt að þessi stefna sé mikilvæg fyrir þróun byggðar í landinu. Innra skipulag sveitarfélaganna styrkist, fagleg geta þeirra eykst og færni þeirra til að fást við flókin verkefni verður meiri í þágu íbúanna. Ég sé fyrir mér að byggðir verði upp öflugir þjónustukjarnar um allt land þar sem íbúar sveitarfélaganna geta fengið samþætta velferðarþjónustu, upplýsingar og ráðgjöf á einum stað.

Góðir gestir.

Það eru áhugaverðir tímar framundan. Við þurfum að spila vel úr því sem við höfum og hafa hugfast að allar breytingar sem við ráðumst í til að endurskipuleggja stjórnsýslu, verklag og málaflokka eiga alltaf að þjóna því meginmarkmiði að tryggja almenningi skilvirkari, betri og aðgengilegri þjónustu. Ég er sannfærður um að þetta muni okkur takast með flutningi þjónustu við fólk með fötlun til sveitarfélaganna. Í breytingum felast margvísleg tækifæri sem við þurfum að vera vakandi fyrir og nýta til góðs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta