Félagsmálaráðherra heimsækir vinnustaði á Vesturlandi
Félagsmálaráðherra hefur frá því hann hóf störf lagt ríka áherslu á góð tengsl við þær stofnanir sem starfa á vegum ráðuneytisins. Heimsóknir ráðherra á hinar ýmsu stofnanir ráðuneytisins hafa verið liður í þessari viðleitni. Í gær heimsótti ráðherra Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi sem staðsett er Borgarnesi. Í för með ráðherra voru ráðuneytisstjóri, aðstoðarmaður ráðherra, auk skrifstofustjóra fjölskylduskrifstofu ráðuneytisins. Framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofunnar ásamt lykilstarfsfólki kynnti megináherslur í starfsemi skrifstofunnar. Fram kom í máli framkvæmdastjóra að fjölmargt er í deiglunni bæði hvað snýr að þjónustu við börn og fullorðna sem búa við fötlun á Vesturlandi. Svæðisskrifstofan mun í byrjun næsta árs kanna viðhorf notenda til starfsemi skrifstofunnar, auk þess sem skrifstofan mun á grundvelli stefnu félagsmálaráðuneytisins í málefnum fatlaðra barna og fullorðna skoða megináherslur í þjónustu við þennan hóp á Vesturlandi til næstu ára.
Mikil framþróun í búsetumálum mun eiga sér stað á næstu tólf mánuðum á Vesturlandi þar sem gert er ráð fyrir því að keyptar verði tíu nýjar íbúðir fyrir fatlaða í Borgarnesi. Svæðisskrifstofan mun einnig í samvinnu við félagsmálaráðuneytið vinna að aukinni þjónustu við geðfatlaða á Vesturlandi í samræmi við áætlun ráðuneytisins þar að lútandi. Gengið verður frá samningum um þessi kaup nú í nóvember. Einnig er gert ráð fyrir breytingum í atvinnumálum fatlaðra þar sem ráðist verður í útboð ef áætlanir ganga eftir um áramót um stækkun Fjöliðjunnar á Akranesi.
Félagsmálaráðherra hyggst kynna stefnumótun í málefnum fatlaðra barna og fullorðna nú í október. Að lokinni kynningu framkvæmdastjóra og starfsmanna Svæðisskrifstofunnar þakkaði ráðherra kærlega fyrir fróðlegar upplýsingar og umræður um stöðu fatlaðra á Vesturlandi.