Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2007

Fimmtudaginn, 5. júlí 2007

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 2. apríl 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 30. mars 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 20. mars 2007 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Starfa í 32% starfi á skrifstofu yfir vetrarmánuði en fullu starfi á sumrin. Ég er einnig í námi; síðast 9 einingar haustönn 2006 með starfi meðan á meðgöngunni stendur. Og aftur 9 einingar núna í B-framhaldsskóla. Var í meira námi með starfinu áður en vegna meðgöngukvilla þá minna meðan á meðgöngu stendur. Mér finnst brotið á jafnræðisreglunni þegar mér leyfist ekki að vera að hluta til í námi og hluta til í starfi. Staðreyndin er sú að eðlileg hlýtur að teljast að einstaklingur stundi hluta nám samfara starfi og er það mjög vaxandi með tilkomu fjarnáms nú á síðustu árum. Mér finnst brotið á mér þegar aðeins er tekið tillit til hluta þeirra starfa sem ég framkvæmi við ákvörðun fæðingarorlofs. Þá var á umsókninni spurt um starfshlutfall sem er jú 32% en ég ítreka að ég starfa í 100% yfir sumarmánuði þegar ég stunda ekki nám. “

 

Með bréfi, dagsettu 30. apríl 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 22. maí 2007. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi.

Með umsókn, dags. 5. janúar 2007, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í 4 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar, 21. apríl 2007.

Með umsókn kæranda fylgdi vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 30. janúar 2007, námsferilsyfirlit kæranda frá B-framhaldsskóla, staðfesting á skólavist frá B-framhaldsskóla, dags. 9. janúar 2007. Auk þess barst umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, dags. 5. janúar 2007, tvær tilkynningar um fæðingarorlof, dags. 5. janúar og 22. febrúar 2007 og launaseðlar fyrir desember 2006 og janúar 2007 ódagsettir. Þá lágu enn fremur fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar frá skattyfirvöldum og upplýsingar úr þjóðskrá.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 20. apríl 2007, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Var í bréfinu tiltekið að kærandi teldist ekki hafa stundað fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins við viðurkennda menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist 30. apríl 2007 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá 30. apríl 2006 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt námsferlisyfirliti frá B-framhaldsskóla, ódagsett, stundaði kærandi nám við skólann á haustönn 2006. Var kærandi skráður í 15 einingar á haustönn 2006 og lauk 9. Í kæru kemur fram að kærandi sé skráður í 9 einingar á vorönn 2007.

Þegar um er að ræða nám við framhaldsskóla teljast 18 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 13-18 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Kæranda var sent bréf þann 3. apríl 2007 þar sem fram koma að hún ætti rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði sem launamaður þar sem hún hafði verið í 32% starfshlutfalli í sex mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004. Við útreikning launa koma fram að 80% af meðaltalslaunum hennar síðustu tveggja ára fyrir fæðingarár barns voru X krónur, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004. Í 5. mgr. 13. gr. laganna kemur fram að greiðsla til foreldris sem er í 25-49% starfi skuli aldrei vera lægri en X krónur. Kærandi var því afgreiddur með þá upphæð.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 20. mars 2007. Jafnframt telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að kærandi hafi réttilega verið afgreiddur sem launamaður úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður í 25-49% starfshlutfalli.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 4. júní 2007, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Kærandi ól barn 30. apríl 2007. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 30. apríl 2006 fram að fæðingu barns.

Kærandi var við nám í D-framhaldsskóla og B-framhaldsskóla, þar sem 100% nám eru 18 einingar á önn. Við mat á því hvort hún uppfylli skilyrði um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns skal líta til náms hennar og námsárangurs á vor- og haustönn 2006 og vorönn 2007.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi skráð 17 eininga nám á vorönn 2006 og lauk hún 14 einingum en féll í einu fagi sem metið er til þriggja eininga. Á haustönn 2006 var hún skráð í 15 einingar og lauk hún 9 einingum en féll í tveimur fögum sem metin eru til 6 eininga. Samkvæmt því sem fram kemur í kæru var kærandi í 9 eininga námi á vorönn 2007.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið um nám kæranda á haustönn 2006 og vorönn 2007 verður ekki talið að hún uppfylli skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er því staðfest.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta