Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 10/2007

Fimmtudaginn, 5. júlí 2007

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 18. apríl 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 18. apríl 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 16. apríl 2007 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni og fæðingarorlof.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Undirrituð verðandi móðir A hefur stundað fullt nám hjá B-skóla frá 6. september 2006. Skólinn útskrifar ekki nemendur með einingar og er því ekki viðurkenndur af menntamálaráðuneytinu.

Námið í B-skólanum er hinsvegar yfirgripsmikið og gerir kröfur um að nemendur sinni náminu heils hugar. Námslok eru 26. maí 2007 og eiga nemendur þá að hafa útbúið möppu með verkum sínum yfir veturinn og munu í sameiningu halda sýningu með verkum sínum.

Nemendur fyrri ára hafa staðið sig vel að námi loknu á ýmsum sviðum B-fræði og í einhverjum tilfellum fengið námið metið sem einingar í háskóla erlendis.

Á haustönn stundaði undirrituð nám við D-framhaldsskólann samhliða náminu hjá B-skóla og lauk þar 12 einingum.

Undirrituð hefur hvorki verið á vinnumarkaði né á atvinnuleysisbótum frá því að hún hóf nám við skólann. Áður en undirrituð hóf nám við skólann starfaði hún hjá F til dagsins 15. júlí 2006. Möguleiki er að fá skriflega staðfestingu á því sé þess óskað.

A óskar eftir því að námið verði metið eins og um annað viðurkennt nám væri að ræða og fái því fæðingarstyrk námsmanna. Sjái sjóðurinn sér ekki fært um að koma á móts við þær óskir vill undirrituð að tillit verði tekið til aðstæðna hennar og að framlag hennar á vinnumarkaðnum síðustu ár verði a.m.k. metið. Það er að segja fái greitt 80% af launum síðustu tvö tekjuár að frátöldum þeim tíma sem undirrituð hefur stundað nám við B-skólann.

Undirrituð mun vera fyrir utan vinnumarkaðinn fram að fæðingardegi og næstu 3 mánuði eftir. “

 

Með bréfi, dagsettu 20. apríl 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 27. apríl 2007. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi.

Með umsókn, dags. 3. apríl 2007, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í 3 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar, 20. maí 2007.

Með umsókn kæranda fylgdi vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 15. mars 2007, námsferilsyfirlit kæranda frá D-framhaldsskólann, ódagsett, bréf frá kæranda með fyrirsögninni „Vegna umsóknar um fæðingarstyrk námsmanna“, ódagsett, staðfesting á námsvist frá B-skóla, dags. 26. mars 2007, útprentun af heimasíðu B-skóla, dags. 26. mars 2007, og tvö bréf frá B-skóla bæði dagsett 5. apríl 2007. Tölvupóstar frá maka kæranda, dags. 4. og 11. apríl 2007. Þá lágu enn fremur fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar frá skattyfirvöldum.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 16. apríl 2007, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Var í bréfinu tiltekið að kærandi teldist ekki hafa stundað fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins við viðurkennda menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi. Í bréfinu var kæranda einnig synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hann hefði ekki verið í a.m.k. 25% starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 sbr. 1. mgr. 3. gr. og 4. gr. rgl. nr. 1056/2004.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda er 20. maí 2007 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá 20. maí 2006 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt námsferlisyfirliti frá D-framhaldsskólanum, ódagsett, stundaði kærandi nám við skólann á haustönn 2006. Var kærandi skráður í 19 einingar á haustönn 2006 og lauk 12.

Þegar um er að ræða nám við framhaldsskóla teljast 18 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 13 – 18 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Samkvæmt gögnum málsins stundaði kærandi nám við B-skóla frá 6. september 2006 og eru námslok áætluð 26. maí 2007. Í bréfi kæranda „Vegna umsóknar um fæðingarstyrk námsmanna“ kemur fram að skólinn útskrifi ekki nemendur með einingar og sé því ekki viðurkenndur af menntamálaráðuneytinu. Er þetta einnig áréttað af kæranda í kæru til úrskurðarnefndar. Samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu er B-skóli ekki viðurkennd menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, sbr. 1. mgr. 18. gr. rgl. nr. 1056/2004. Engar undanþágur eru frá því skilyrði að greiðsla fæðingarstyrks til námsmanna skuli vera vegna náms við viðurkennda menntastofnun á Íslandi.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags.16. apríl 2007. Kærandi á þess í stað rétt á greiðslu fæðingarstyrks lægri sem foreldri utan vinnumarkaðar.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 7. maí 2007, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni og fæðingarorlof.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til fulls náms. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Samkvæmt gögnum málsins var barnsfæðing áætluð 20. maí 2007. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er miðað við þá dagsetningu tímabilið frá 20. maí 2006 til 20. maí 2007.

Kærandi stundaði nám við D-framhaldsskólann á haustönn 2006. Var hún skráð í 19 eininga nám og lauk þar af tólf einingum. Kærandi var einnig við nám í B-skóla frá 6. september 2006 en námslok þar munu vera áætluð 26. maí 2007. Eins og fram kemur í gögnum málsins þá útskrifar skólinn ekki nemendur með námseiningar og er ekki viðurkenndur af menntamálaráðuneytinu.

Þar sem nám við B-skóla verður ekki talið vera nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi uppfyllir kærandi ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er því staðfest.

Í kæru kemur fram að verði ekki fallist á rétt kæranda til fæðingarstyrks sem foreldris í námi sé þess óskað að tekið verði tilliti til framlags hennar á vinnumarkaði. Skilyrði greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er að foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl. Óumdeilt er að kærandi uppfyllir ekki þetta skilyrði. Framlag á vinnumarkaði á öðrum tíma en sex mánaða tímabilinu fyrir fæðingu barns skapar foreldri ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt því á kærandi ekki rétt á greiðslum og ekki er heimilt samkvæmt lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof að ákvarða henni greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta