Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 156 Örorkulífeyrir

Grein

Miðvikudaginn 17. október 2007

 156/2007

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

  

Ú r s k u r ð u r.

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með bréfi til úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 16. maí 2007 kærir B, hrl. f. h. A kröfu Tryggingastofnunar ríkisins um endurgreiðslu örorkulífeyris og tengdra bóta vegna lögheimilis í Kína.

Þess er aðallega krafist að ákvörðun Tryggingastofnunar um endurkröfu verði hnekkt og viðurkenndur verði réttur kæranda til örorkulífeyris á grundvelli lögheimilis að C  í Reykjavík. 

Til vara er þess krafist að krafa Tryggingastofnunar verði felld niður eða stórlega lækkuð þar sem kærandi hafi verið í góðri trú þegar hann tók við greiðslum frá Tryggingastofnun.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með bréfi Tryggingastofnunar dags. 20. febrúar 2007 var kæranda tilkynnt um stöðvun greiðslna örorkulífeyris og tengdra bóta frá stofnuninni til hans frá og með febrúar 2007.  Ástæðan var að samkvæmt Þjóðskrá hafði lögheimili kæranda verið flutt frá Íslandi til Kína frá 11. janúar 2004.  Jafnframt var kærandi krafinn um ofgreiddar bætur fyrir tímabilið 1. febrúar 2004 til og með 28. febrúar 2007, samtals kr. 3.269.741.

Í rökstuðningi fyrir kæru er að aðallega vísað til bréfs sem sent var Þjóðskrá 28. mars 2007 en þar segir:

,,Til skrifstofu E hefur leitað A, vegna þeirrar ákvörðunar Þjóðskrár að skrá lögheimili A í Kína frá og með 11.01.2004. Hið rétta er að A hefur íbúð á leigu að C, þar sem búslóð hans og aðrar eigur eru. Hann greiðir mánaðarlega leigu til Félagsbústaða fyrir leiguafnotin. Heimili hans er að C í Reykjavík. Hitt er annað mál að A hefur mikið ferðast um heiminn og þá mest undanfarin ár í Asíu. Hann hefur meðal annars dvalið í löndum eins og Víetnam, Suður-Kóreu, Kína og Japan. Þá kveðst hann vera kvæntur konu frá Asíu. Þannig er það röng ályktun þegar því er haldið fram að A hafi flutt heimili sitt frá Íslandi og verið langdvölum í einu landi fremur en öðru. Hann kemur reglulega heim til Íslands og dvelur þá á heimili sínu um lengri eða skemmri tíma í senn. Þá hefur hann ávallt gætt þess að vera aldrei fjarri heimili sínu lengur en 6 mánuði í senn. Þannig er sú einhliða ákvörðun Þjóðskrár að flytja A frá Íslandi, og þá til Kína!?, með öllu óskiljanleg.

Í bréfi TR kemur fram að grunur hafi vaknað um að A væri ekki búsettur hér á landi þegar TR bárust umsóknir um endurgreiðslu á erlendum sjúkrakostnaði. Þessar umsóknir þykja aðeins staðfesta það sem þegar er vitað. A er sjúklingur og þarfnast ýmissa lyfja, eins þegar hann ferðast í útlöndum. Sú aðstaða getur að sjálfsögðu komið upp að íslendingar í útlöndum neyðist til að kaupa lyf þar sem þeir eru staddir hverju sinni. Það getur vart verið skilið á þann veg sem TR gerir að viðkomandi teljist þá bústettur í viðkomandi landi. Þannig háttaði til hjá A, hann varð að fá lyf og gat ekki beðið með þau kaup þar til heim til Íslands væri komið.

Þessi lögheimilisflutningur hefur haft í för með sér margvíslegar íþyngjandi verkanir fyrir A. Hann hefur t.a.m. verið sviptur öllum lífeyrisrétt frá TR og verið krafinn um endurgreiðslu þess lífeyris sem hann hefur notið frá 11.01.2004. Þess er því krafist að A verði í þjóðskrá að nýju skráður ti lögheimilis að C í Reykjavík, eins og vera ber.”

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 29. maí 2007 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar.  Greinargerðin er dags. 31. maí 2007. Þar segir m.a.:

,,Kærð er endurkrafa ofgreiddra bóta til A.

Krafan er tilkomin vegna þess að kærandi er skv. þjóðskrá skráður með lögheimili í Kína og hefur verið síðan 11. janúar 2004.

Í 9. gr. a. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 (atl.), með síðari breytingum, er kveðið á um að þeir teljist tryggðir skv. almannatryggingalögum sem lögheimili hafa hér á landi í skilningi lögheimilislaga nr. 21/1990. Í 4. gr. reglugerðar nr. 463/1999, um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá, sbr. 9. gr. d. og 10. gr. almannatryggingalaga, er ítrekað að réttur til trygginga skv. almannatrygginglögum er bundinn við lögheimili skv. lögheimilislögum og að þeir sem flytji búsetu sína frá Íslandi teljist ekki tryggðir.

Í 9. gr. b. almannatryggingalaga er kveðið á um ákveðnar undanþágur frá þessu skilyrði um lögheimili á Íslandi. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að hann uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til þeirrar undanþágu að svo stöddu.

Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni um innheimtu ofgreiddra bóta til kæranda.”

Greinargerðin var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi dags. 1. júní 2007 og gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum.  Slíkt barst ekki.  Málið var tekið fyrir á fundi úrskurðarnefndar þann 28. júní s.l. og afgreiðslu þess frestað.  Ákveðið var að gefa kæranda kost á að leggja fram ákvörðun Þjóðskrár um lögheimilisflutning ásamt frekari gögnum er kynnu að skipta máli.   Þann 1. ágúst s.l. barst bréf D, hrl. en hún hefur tekið við málinu fyrir hönd kæranda.  Bréfið hefur verið sent Tryggingastofnun til kynningar.  Málið var tekið fyrir á fundi úrskurðarnefndar þann 29. ágúst s.l. og var ákveðið að fresta afgreiðslu málsins og skrifa lögmanni kæranda og benda á ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.  Á fundi úrskurðarnefndar þann 25. september s.l. var ákveðið að fresta afgreiðslu málsins og óska upplýsinga Þjóðskrár um hvort og þá hvenær vænta mætti svars Þjóðskrá við erindi kæranda dags. 28. mars 2007.  Svars var óskað fyrir 8. október en svar hefur ekki borist.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 Mál þetta varðar stöðvun Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslum örorkulífeyris og tengdra bóta til kæranda frá og með mars 2007 og endurkröfu stofnunarinnar á örorkulífeyri og tengdum bótum fyrir tímabilið 1. febrúar 2004 til og með 28. febrúar 2007.

Í rökstuðningi fyrir kæru, tilvísuðu bréfi til Þjóðskrár dags. 28. mars 2007 og athugsemdum af hálfu kæranda segir að hið rétta í málinu sé að kærandi hafi íbúð á leigu að C í Reykjavík þar sem búslóð hans og aðrar eigur séu.  Hann greiði mánaðarlega leigu til Félagsbústaða.  Hitt sé annað mál að hann hafi ferðast mikið um heiminn hin seinustu ár og þá aðalega til Asíu.  Hann sé kvæntur konu frá Asíu og hún búi hér á landi.  Kærandi kveðst aldrei vera lengur en sex mánuði í senn frá heimili sínu.  Gegn mótmælum kæranda sé vegabréf hans ekki haldbær sönnun um hversu lengi hann dvaldi í Kína á árabilinu 2004 til 2007 þar sem þar sé ekki að finna nákvæmt yfirlit yfir hversu lengi hann dvaldi þar í hvert skipti.  Kæranda hafi ekki gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ákvörðun Þjóðskrár sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Ennfremur hafi þeirri meginreglu að hjón skuli eiga sama lögheimili ekki verið gætt.  Loks segir að það stríði gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga að láta ákvörðun Þjóðskrár um lögheimili manns í öðru ríki frá janúar 2004 hafa afturvirk áhrif á afgreiðslu Tryggingastofnunar.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað til þess að samkvæmt Þjóðskrá sé kærandi skráður með lögheimili í Kína og hafi verið síðan 11. janúar 2004.  Þá er vísað til 9. gr. a og 9. gr. b laga um almannatryggingar nr. 117/1993 svo og lögheimilislaga nr. 21/1990.  Einnig er vísað til 4. gr. reglugerðar nr. 463/1999 sbr. 9. gr. d og 10. gr. almannatryggingalaga.  Réttur til trygginga samkvæmt almannatryggingalögum sé bundinn við lögheimili samkvæmt lögheimilislögum og þeir sem flytji búsetu sína frá Íslandi teljist ekki tryggðir.  Kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann uppfylli skilyrði til að veitt sé undanþága frá lögheimilisskilyrði.

Þann 30. maí 2007 tóku gildi lög nr. 100/2007 um almannatryggingar og féllu jafnframt úr gildi lög nr. 117/1993 um almannatryggingar.  Þau ákvæði sem reynir á við úrlausn máls þessa eru efnislega óbreytt. 

Ákvæði um örorkulífeyri eru í 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í II. kafla laga nr. 100/2007, 12.-15. gr., eru ákvæði er varða það hverjir séu tryggðir samkvæmt lögunum.  Í 1. mgr. 12. gr segir að sá sem búsettur er hér á landi teljist tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna nema annað leiði af milliríkjasamningum.  Í 2. mgr.  segir að með búsetu samkvæmt 1. mgr. sé átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga.

Meginreglan er því sú að greiðslur bóta samkvæmt lögum nr. 100/2007 eru bundnar við búsetu hérlendis nema annað leiði af milliríkjasamningum.  Ekki er í gildi samningur milli Íslands og Kína um almannatryggingar.  Samkvæmt ákvörðun Þjóðskrár,  sem er þar til bært stjórnvald, er kærandi skráður með lögheimili í Kína frá 11. janúar 2004.  Samkvæmt ákvörðun Þjóskrár hefur kærandi ekki átt lögheimili á Íslandi frá 2004.  Skilyrði lögheimilis er föst búseta hér á landi en samkvæmt Þjóðskrá hefur kærandi ekki haft fasta búsetu hér í  mörg ár.  Úrskurðarnefndin er bundin af skráningu Þjóðskrár sem er hin opinbera skráning og hefur sem slík aukið vægi.  Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 18. gr. almannnatryggingalaga um lögheimili á Íslandi og uppfyllir því ekki skilyrði til örorkulífeyris og tengdra bóta.  Stöðvun greiðslna örorkulífeyris og tengdra bóta til kæranda frá og með 1. febrúar 2007 er því staðfest. 

Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007  skal Tryggingastofnun hafi hún ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögunum draga hinar ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til.  Einnig á stofnunin endurkröfurétt samkvæmt almennum reglum.  Skilyrði til skuldajafnaðar við framtíðarbætur er af augljósum ástæðum ekki uppfyllt þar sem kærandi hefur tapað rétti sínum til bóta.  Þá er til þess að líta að þegar greiðslur örorkulífeyris og tengdra bóta voru inntar af hendi til kæranda á tímabilinu febrúar 2004 til og með janúar 2007 var hann með skráð lögheimili á Íslandi og uppfyllti því á þeim tíma lögheimilisskilyrði laganna.  Þá má ætla að kærandi hafi verið í góðri trú á þeim tíma sem hann tók við greiðslunum enda með lögheimili á Íslandi.  Þegar þannig háttar eru að mati úrskurðarnefndar áhöld um endurkröfurétt samkvæmt almennum reglum.

Kærandi er öryrki og örorkubótagreiðslur þær sem inntar voru af hendi til hans voru framfærslueyrir hans.  Það að krefja kæranda um greiðslur þriggja ára er verulega íþyngjandi og hvílir á afturvirkri ákvörðun hliðsetts stjórnvalds.  Að mati úrskurðarnefndar hefur meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga ekki verið gætt.  Með vísan til meðalhófsreglu og þess að óvíst er um endurkröfurétt Tryggingastofnunar samkvæmt almennum reglum er endurkrafa felld niður.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Stöðvun Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu örorkulífeyris og tengdra bóta til A frá og með febrúar 2007 er staðfest. Krafa Tryggingastofnunar ríkisins um endurgreiðslu örorkulífeyris og tengdra bóta frá febrúar 2004 til og með janúar 2007 er felld niður.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta