Hoppa yfir valmynd
20. september 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 31/2007

Fimmtudaginn, 20. september 2007

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 18. júlí 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 13. júlí 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 14. júní 2007 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Undirritaður sótti um fæðingarstyrk námsmanna í lok maímánaðar á þessu ári en fékk skv. bréfi þann 14.júní, synjun frá Fæðingarorlofssjóði (sjá fylgiskjöl).

Synjunin var á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000. Þar er bent á að foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns eiga rétt á fæðingarstyrk.

Eg lét ítarlega útlistun á mínum högum fylgja umsókninni í þeirri von að hún yrði metin sérstaklega í ljósi minna aðstæðna. Þessu bréfi fylgja öll gögn sem ég sendi Fæðingarorlofssjóði í lok maí þessa árs (sjá fylgiskjöl). Ég sendi einnig viðbótarskjöl sem ekki voru fyrir hendi við umsóknina, sem sagt staðfestingu á fæðingu barns (30/6/2007), staðfestingu á námsárangri og B skattskýrslu frá árinu 2006.

Mér var tjáð af starfsmanni sjóðsins að þegar farið væri yfir umsóknir þá væri farið bókstaflega eftir lögunum, sem sagt, ef að umsóknin uppfylli ekki skilyrðin nákvæmlega eftir laganna hljóðan, þá væri umsókninni synjað. Ég vil hins vegar benda á að stjórnvöldum er skylt að meta hvert og eitt mál sérstaklega (reglan um skyldubundið mat stjórnvalda). Taka verður tillit til minna skýringa sem eiga sér fulla stoð í fylgiskjölum málsins, það er ekki einungis hægt að líta til laganna og reglugerðarinnar heldur verður að gæta almennra reglna stjórnsýsluréttar við úrlausn málsins.

Í mínu tilfelli þá var það ekki í mínu valdi að taka þetta einnar annar hlé frá námi. Eins og fram kemur í fylgiskjölunum þá var það ekki mín ákvörðun að hefja ekki mastersnám strax að loknu bachelor-námi og þar af leiðandi að vera atvinnulaus í hálft ár. Það var alltaf ætlunin að fara beint í mastersnám að bachelornámi loknu (í júní 2006). Eins og greinilega kemur fram í fylgiskjölunum þá sést að ég sótti um nám í góðri trú um að ég uppfyllti öll skilyrði. Annað kom á daginn, það var engin innistæða fyrir þessum loforðum og eftir sat ég með sárt ennið. Um það leyti voru engir námsmöguleikar í stöðunni þar sem allir umsóknarfrestir voru útrunnir. Ég gat sem betur fer fengið atvinnuleysisbætur frá stéttarfélagi á meðan ég leitaði að vinnu og sótt svo um nám sem ég sannarlega uppfyllti skilyrði fyrir (núverandi nám í D-háskólanum).

Í svona tilfelli, þegar að utanaðkomandi áhrif verða þess valdandi að umsækjandi getur ekki uppfyllt bókstaflegt skilyrði um samfellt nám (a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns) þá er ótækt að horfa eingöngu á orðanna hljóðan í lögunum — það þarf að skoða hvert tilfelli í víðara samhengi. Sérstaklega í ljósi þess að ein önn nær aldrei 6 mánuðum samfleytt: haustönnin í E-landi er frá september til miðbik janúars (4 V2 mánuðir) og vorönnin frá lok janúar til loka júní (5 mánuðir).

Varðandi þetta þá vil ég benda á reglugerð nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sjá V. kafla. Þar stendur varðandi mat á fullu námi á síðustu sex mánuðum, í 2. mgr. 18. gr: „er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.“ Þetta styður það að taka eigi einnar annar nám fullgilt sem sex mánaða samfellt nám. Eg hef sannarlega lokið einni önn, þeirri önn er barnið fæddist.

Í svari sjóðsins er stuðst við lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000.

Ég vil benda á 9. mgr. í 19. gr. þeirra laga:

„Enn fremur er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði.“

Af þessari málsgrein verður greinilega ráðið að leggja eigi nám og starf að jöfnu við túlkun hennar. Þannig hef ég lokið einnar annar námi og verið síðan samfellt í námi (ég er áfram skráður í námið). Vilji löggjafans er greinilega sá að menn í sömu aðstöðu og ég fái fæðingarstyrk námsmanna.

8. mgr. í sömu grein 19 er einnig athyglisverð:

„Heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.“

Eg uppfylli þessi skilyrði á ?? vinnumarkaði, sumarvinna í júlí til ágúst, atvinnulaus frá september til janúar. Þetta eru alls 7 samfelldir mánuðir og svo hefst mastersnámið í janúar 2007.

Ákvæðin í 19. gr. gefa ótvírætt til kynna að stjórnvöld verði að meta hvert og eitt tilvik sérstaklega, enda geti túlkun samkvæmt orðanna hljóðan leitt til mjög óeðlilegrar niðurstöðu.

Ég flutti lögheimili mitt tímabundið á sínum tíma frá Íslandi til E-lands vegna náms. Því miður þá hafa utanaðkomandi atriði orðið þess valdandi að ég þurfti að gera hlé á námsferli mínu, sem annars var vel skipulagt.

Þar sem að ég hef engan rétt á fæðingarorlofi hér í E-landi og fengið synjun frá Fæðingarorlofssjóði á Íslandi, þýðir að þetta tveggja mánaða sumarfrí frá erfiðu mastersnámi fæ ég ekki að njóta í faðmi fjölskyldunnar og nýfædds barns, heldur þarf ég að finna sumarvinnu hér í E-landi til þess að endar nái saman og missa þar af leiðandi að miklu leiti af fyrstu vikum ævi nýfædda barnsins.“

Með bréfi, dagsettu 24. júlí 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 1. ágúst 2007. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 14. júní 2007, var kæranda synjað um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi. Var í bréfinu tiltekið að kærandi teldist ekki hafa stundað fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004 (ffl.), eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að heimilt sé á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Ekki er að sjá að nein undanþáguákvæði ffl. eða reglugerðarinnar geti átt við í tilviki kæranda. Á staðfestingu frá F sveitarfélagi, dags. 11. maí 2007, kemur fram að kærandi hafi verið með lögheimili í E-landi frá 7. október 2000 – 26. júní 2002. Samkvæmt Þjóðskrá flutti kærandi lögheimili sitt þá til Íslands en flutti lögheimili sitt aftur til E-lands 27. janúar 2003. Kærandi hefur verið með lögheimili í E-landi síðan þá. Samkvæmt framangreindu verður ekki séð að undanþága 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 eigi við í tilviki kæranda þar sem hann átti ekki lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Barn kæranda fæddist 30. júní 2007 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá 30. júní 2006 fram að fæðingardegi barnsins. Samkvæmt staðfestingu frá D-háskólanum, dags. 9. maí 2007, stundaði kærandi nám við skólann á vorönn 2007 frá 25. janúar – 29. júní eða alls 5 mánuði. Verður því að telja að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrðið um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. ffl., með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 14. gr. rgl. nr. 1056/2004 eiga foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi rétt á greiðslu fæðingarstyrks að því tilskyldu að foreldrið hafi átt lögheimili á Íslandi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuði þar á undan. Barn kæranda fæddist 30. júní 2007 og þá átti kærandi lögheimili erlendis. Verður því ekki annað séð en að kærandi eigi ekki heldur rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi og greiðslu fæðingarstyrks foreldris utan vinnumarkaðar hafi réttilega verið synjað.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 23. ágúst 2007, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda .

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðar þessarar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur.

Barn kæranda er fætt 30. júní 2007. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. ffl. er því frá 30. júní 2006 fram að fæðingu barns.

Kærandi hafði verið með lögheimili í E-landi frá 27. janúar 2003 og lauk hann bachelornámi frá G-skólanum í júní 2006. Kærandi áætlaði að fara í mastersnám við H-háskólanum en umsókn hans var hafnað. Kærandi var því ekki við nám á haustmisseri 2006. Samkvæmt staðfestingu D-háskóla, dagsettri 9. maí 2007, stundaði kærandi nám við skólann á vormisseri 2007 frá 25. janúar til 29. júní eða u.þ.b. fimm mánuði. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns.

Undanþáguákvæði 8. og 9. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, um fæðingar- og foreldraorlof eiga ekki við í tilviki kæranda þar sem kærandi hafði hvorki verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en nám hófst né heldur hafði hann lokið a.m.k. einnar annar námi og síðan verið samfellt á vinnumarkaði fram að töku fæðingarorlofs. Undanþágur frá skilyrði um fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns eru tæmandi taldar í ffl. og reglugerð nr. 1056/2004. Engin undanþágan tekur til aðstæðna kæranda. Þegar af þeirri ástæðu verður að staðfesta hina kærðu ákvörðun. Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta