Hoppa yfir valmynd
27. september 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 28/2007

Fimmtudaginn, 27. september 2007

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 27. júní 2007 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A dagsett 18. júní 2007.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 22. júní 2007 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Undirrituð kæri hér með úrskurð Fæðingarorlofssjóðs varðandi umsókn um fæðingarstyrk námsmanna.

Undirrituð útskrifaðist úr námi frá B-háskóla í febrúar sl. Þó svo að háskólinn gefi upp að önnin nái einungis frá september-desember gildir annað um útskriftarnema þar sem að til að mynda skiladagur lokaritgerða er ekki fyrr en um miðjan janúar. Eftir að ég skilaði lokaritgerð minni (6 einingar) átti ég svo eftir að ljúka einnar einingar ritgerð og var þeirri ritgerð ekki skilað fyrr en í febrúarbyrjun. Útskrift var svo þann 24. febrúar 2007. Af þessari ástæðu tel ég því að nám mitt hafi varað í sex mánuði. Fyrir námið hafði ég verið í fullu starfi hjá D frá því í nóvember 2005 og eru nám og vinna því samfelld í um 15 mánuði.

Ástæða þess að námið náði aðeins 7 einingum var sú að ég var að útskrifast og er ekki leyfilegt í B-háskóla að útskrifast með fleiri einingar en 90.

Undirritaðri var tjáð að ástæða synjunar væri sú að námið hefði ekki náð að vera fullir 6 mánuðir fyrir fæðingu barns. Að ofan kemur fram að samkvæmt minni vitund varði námið í 6 mánuði og auk þess var ég í fullri vinnu áður en námið hófst að nýju. Vísa ég til neðangreindrar greinar en þar kemur t.a.m. fram að ég hafi getað átt rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður þar sem ég hafi verið í fullu starfi (í 9 mánuði) áður en nám hófst.

„Foreldri sem hefur verið á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 6 mánuði samfellt áður en nám hófst, getur átt rétt á fæðingarstyrk sem námsmaður þó svo námið hafi ekki staðið í fulla sex mánuði fyrir fæðingu barns. Starfshlutfall í hverjum mánuði þarf að vera a.m.k. 25%.“

Þar að auki er talað um að útskriftarnemar geti átt rétt á undanþágu:

„Heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þó foreldri fullnægi ekki skilyrði um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu.“

 

Með bréfi, dagsettu 29. júní 2007, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 16. júlí 2007. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi.

Með umsókn, dags. 31. mars 2007, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í 6 mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar, 29. júlí 2007.

Með umsókn kæranda fylgdi vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, ódagsett. Staðfesting um námsframvindu frá B-háskóla, dags. 14. mars 2007. Tölvupóstur frá D til Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 6. júní 2007. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 22. júní 2007, var henni synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni þar sem hún hefði ekki verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns og að undanþága vegna starfs og náms ætti ekki við. Henni var jafnframt bent á að hún gæti átt rétt á greiðslum sem foreldri utan vinnumarkaðar ef hún skilaði inn E-104 vottorði frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þau gögn hafa ekki borist.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Einstök námskeið teljast ekki til fulls náms. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist þann 18. júlí 2007 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá 18. júlí 2006 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt námsferilsyfirliti frá B-háskóla stundaði kærandi nám við skólann á haustönn 2006. Var kærandi skráður í 7 einingar og lauk þeim öllum. Haustönn við B-háskóla stendur í fjóra mánuði frá september – desember.

Þegar um er að ræða nám við háskóla teljast 15 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 11-15 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Undanþága 20. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, á ekki við í tilviki kæranda. Í ákvæðinu kemur fram að heimilt sé á grundvelli umsóknar að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þó að foreldri fullnægi ekki skilyrði 1. mgr. 18. gr. um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu. Skal foreldrið jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. ffl., með síðari breytingum, og 16. gr., sbr. þó 17. gr., og 18. gr., sbr. þó 19. gr. reglugerðarinnar. Undanþágan á því við þegar foreldri hefur verið í samfelldu fullu námi og foreldrið á eftir minna en 75% af náminu á síðustu önn og er að ljúka prófgráðu. Þá er hægt að taka tillit til þeirrar annar en það á ekki við í tilviki kæranda.

Í 8. mgr. 19. gr. ffl. er að finna undanþágu frá skilyrðinu um samfellt nám. Í ákvæðinu kemur fram að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Á undanþágan því bara við í þeim tilvikum er foreldri er að hefja nám eftir að hafa verið í a.m.k. sex mánaða samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði og námið hefur ekki náð tilskilinni samfellu í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins. Foreldrið þarf engu að síður að uppfylla önnur skilyrði um fullt nám svo og að vera skráð í fullt nám fram að fæðingu barnsins til þess að undanþágan geti átt við. Undanþágan á því ekki við í tilviki kæranda.

Í 9. mgr. 19. gr. ffl. kemur fram að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Þessi undanþága á ekki heldur við í tilviki kæranda þar sem hún lauk ekki fullri önn skv. 1. mgr. og hefur auk þess ekki verið á vinnumarkaði eftir námið.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 22. júní 2007. Kærandi hefur ekki lagt fram fullnægjandi gögn til að eiga rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 23. ágúst 2007, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti dagsettum 5. september 2007, þar segir meðal annars:

„Í bréfi sem undirrituð fékk kom fram að ekki hefði verið skilað inn E-104 vottorði en undirrituð skilaði því inn til stofnunarinnar í maímánuði síðastliðnum. Réttilega kemur fram að undirrituð hefði ekki verið á vinnumarkaði frá því að hún lauk námsgráðu í febrúar sl. en þess má geta að hún var í atvinnuleit í E-landi frá þeim tíma er henni lauk og hélt henni áfram er hún flutti hingað til lands (í maí sl.).“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Kærandi ól barn 18. júlí 2007. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 18. júlí 2006 fram að fæðingu barns. Kærandi var við nám í B-háskóla á haustmisseri 2006, þar sem 100% nám eru 15 einingar á misseri. Samkvæmt yfirliti frá B-háskóla dagsettu 24. febrúar 2007 lauk kærandi 7 einingum á haustmisseri 2006. Hún var hvorki í skóla né á vinnumarkaði á vormisseri 2007. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Samkvæmt 20. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er heimilt á grundvelli umsóknar að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þó að foreldri fullnægi ekki skilyrði 1. mgr. 18. gr. um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu. Skal foreldri þá jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum og 16. gr. sbr. þó 17. gr., og 18. gr., sbr. þó 19. gr. reglugerðarinnar. Þar sem kærandi hafði ekki verið við nám í sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns eru ekki uppfyllt skilyrði um undanþágu samkvæmt 20. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 8. mgr. 19. gr. ffl. er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Undanþáguákvæði þetta á við um foreldri sem er að hefja nám og hefur því ekki verið í samfelldu námi í 6 mánuði. Hins vegar felur ákvæðið ekki í sér undanþágu frá skilyrði um fullt nám. Kærandi uppfyllir ekki skilyrði undanþáguákvæðisins.

Kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þá er hvorki uppfyllt skilyrði undanþáguákvæðis 20. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 né 8. mgr. 19. gr. ffl. Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrk námsmanns er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta