Hoppa yfir valmynd
10. október 2019 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra flutti ávarp á alþjóðaþingi Hringborðs norðurslóða

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ásamt Antti Rinne, forsætisráðherra Finnlands og Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrverandi forseta Íslands - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti ávarp á alþjóðaþingi Hringborðs norðurslóða, Arctic Circle, í Hörpu í dag.

Forsætisráðherra minntist á áherslur Íslands í formennsku í Norðurskautsráðinu sem eru þær að huga sérstaklega að hafinu, fólkinu sem býr á Norðurslóðum, sjálfbærni og grænum lausnum. Forsætisráðherra talaði um niðurstöður nýrrar skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og freðhvolfið (IPCC) þar sem fram kemur að hækkandi hitastig sjávar og bráðnun íss sé að gerast mun hraðar en áður var talið. Hvort tveggja mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir norðurskautssvæðið. Þá minntist hún á mikilvægi þess að hlusta á raddir ungs fólks og að hvarf jökulsins Oks væri skýr birtingarmynd hnattrænnar hlýnunar.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:

„Auðvitað skiptir máli að fólk hugsi allt upp á nýtt, á umhverfisvænni hátt, eins og til dæmis að borða minna kjöt og breyta ferðavenjum sínum. En það eitt og sér dugar ekki til. Stærstu fyrirtæki heims verða að axla ábyrgð vegna þess að það eru þau sem bera ábyrgð á stærstum hluta losunar gróðurhúsalofttegunda. Og það er okkar hlutverk að breyta þessu. Við þurfum að byggja upp græn velferðarsamfélög og græn hagkerfi með framtíð komandi kynslóða að leiðarljósi.“

Forsætisráðherra átti einnig fundi með Kim Kielsen, formanni landsstjórnar Grænlands, Rick Perry, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, og Antti Rinne, forsætisráðherra Finnlands, í tengslum við þingið.

Alþjóðaþing Hringborðs norðurslóða Arctic Circle er haldið árlega og er alþjóðlegur vettvangur stjórnmálamanna, fulltrúa úr atvinnulífinu, sérfræðinga í umhverfismálum, fulltrúa frumbyggja, frumkvöðla og vísindamanna. Þingið er stærsti alþjóðlegi samskiptavettvangurinn í málefnum Norðurslóða og er sótt af um 2000 þátttakendum frá 50 löndum.

 

Ávarp forsætisráðherra á alþjóðaþingi Hringborðs norðurslóða, Arctic Circle

  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra flutti ávarp á alþjóðaþingi Hringborðs norðurslóða - mynd
  • Forsætisráðherra ásamt Viktoríu krónprinsessu Svíþjóðar, á alþjóðaþingi Hringborðs norðurslóða - mynd
  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ásamt Rick Perry, orkumálaráðherra Bandaríkjanna og Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra - mynd
  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ásamt Kim Kielsen, formanni landsstjórnar Grænlands - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
14. Líf í vatni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta