FO-herferð UN Women í þágu kvenna í Síerra Leóne
UN Women á Íslandi hefur hrundið af stað árlegri FO-herferð með spánýjum FO-varningi, sem í ár er svört derhúfa með dökkgráu FO-merki. FO-herferðin árið 2023 verður til stuðnings verkefnum UN Women í Síerra Leóne sem hafa það að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi og styðja við þolendur. Herferðin í ár er studd af utanríkisráðuneytinu og birtu Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Stella Samúelsdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi grein af því tilefni.
Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins ávarpaði samkomuna fyrir hönd utanríkisráðherra og kom inn á það í ræðu sinni að það væri sannarlega viðeigandi fyrir utanríkisráðunheytið að styrkja FO herferðina að þessu sinni í ljósi þess að íslensk stjórnvöld muni opna sendiráð í Freetown í Sierra Leóne síðar á árinu.
UN Women segir í frétt að hugmyndir um kynjahlutverk í Síerra Leóne hafi verið til þess fallnar að útiloka konur frá atvinnu- og stjórnmálaþátttöku og menntun. „Vegna úreltra hugmynda um kyn og kynjahlutverk er kynbundið ofbeldi víðtækt og algengt í landinu. Þessar staðalímyndir hafa þó ekki aðeins neikvæð áhrif á líf kvenna og stúlkna, heldur einnig drengja sem þurfa að gangast við óheilbrigðum væntingum til karlmennsku.
Ofbeldi gegn konum og stúlkum í Síerra Leóne er beitt markvisst og skipulega, m.a. í þeim tilgangi að halda konum undirgefnum og inni á heimilinu. Afleiðingar þessa eru há dánartíðni meðal kvenna, hátt stig ólæsis, mikill fjöldi HIV smita meðal kvenna, sárafátækt og lítil þátttaka kvenna á opinberum vettvangi.“
- 61% kvenna á aldrinum 15-49 ára hafa verið beittar líkamlegu ofbeldi einhvern tímann á ævi sinni.
- 67% stúlkna á aldrinum 15 – 29 ára hafa verið beittar líkamlegu ofbeldi.
- Giftar konur og stúlkur eru líklegastar til að vera beittar ofbeldi (65%).
- Ógiftar konur verða mun síður fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi (51%). Heimilið er því hættulegasti staðurinn fyrir konur og stúlkur í Síerra Leóne.
- 30% stúlkna á aldrinum 20-24 ára höfðu verið giftar fyrir 18 ára aldur.
- 21% stúlkna á aldrinum 15-19 ára höfðu eignast a.m.k. eitt barn.
- 83% kvenna og stúlkna á aldrinum 15-49 ára hafa verið limlestar á kynfærum.
Fokk ofbeldi
UN Women á Íslandi hefur selt FO varning frá árinu 2015 og er herferðin fyrir löngu orðin flaggskip íslensku landsnefndarinnar. Frá árinu 2015 hafa samtals safnast yfir 100 milljónir til verkefna UN Women sem hafa það að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi um allan heim. Með fjármagninu sem safnast í ár verður hægt að styðja við rekstur „One Stop“ miðstöðvar fyrir þolendur kynbundins ofbeldis, styðja við stúlkur sem hafa ekki verið limlestar á kynfærum og efla fræðslu um skaðsemi kynbundins ofbeldis til almennings og yfirvalda.
FO derhúfan er úr 100% pólíesterblöndu og framleidd samkvæmt BSCI og Sedex stöðlum. Snið húfunnar er „unisex“ en auðvelt er að aðlaga mál húfunnar með frönskum rennilás að aftan. Húfan kostar 5.900 krónur og rennur allur ágóði beint til verkefna UN Women í Sierra Leone. Anna Maggý tók allt myndefni herferðarinnar í ár og er þetta í fjórða sinn sem hún vinnur með UN Women á Íslandi að FO-herferð landsnefndarinnar. Fjöldi þekktra einstaklinga sátu fyrir í herferðinni og þakkar UN Women á Íslandi þeim kærlega fyrir sýndan stuðning.