Hringsjá, náms- og starfsendurhæfing 25 ára
Afmæli Hringsjár, 7. október 2012
Gunnar Axel Axelsson flutti ávarp fyrir hönd velferðarráðherra
Virðulega samkoma – góðir gestir.
Hringsjá fagnar 25 ára starfsafmæli og augljóst að afmælisbarnið á marga vini og velunnara sem vilja fagna saman þessum tímamótum. Velferðarráðherra hefði allra helst viljað vera hér sjálfur í dag eins og til stóð. Hann átti þess því miður ekki kost en bað mig að bera ykkur kveðju sína og bestu hamingjuóskir - og ekki síst þakkir fyrir það merka og mikilvæga starf sem fram fer á vegum Hringsjár á sviði náms- og starfsendurhæfingar.
Mikilvægi þessa starfs hefur lengi legið fyrir en þó er örugglega óhætt að segja að á síðustu árum hafi sú vitneskja orðið útbreiddari, æ fleiri augu hafi opnast og skilningur á eðli og þýðingu starfseminnar aukist. Í kjölfar efnahagshrunsins höfum við sem þjóð þurft að læra margt af erfiðri reynslu á eigin skinni. Okkur hefur reynst nauðsynlegt að endurskoða og endurmeta ýmis gildi og gæði í þessu lífi og þótt sá lærdómur hafi ekki verið tekinn út með sældinni er enginn vafi á því að hann hefur verið samfélaginu mikilvægur og að mörgu leyti til góðs.
Mikilvæg tímamót urðu þegar samþykkt voru frá Alþingi í vor lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Lögin endurspegla ákveðna vitundarvakningu sem orðið hefur í þessum málaflokki og eru afdráttarlaus viðurkenning á mikilvægi starfsendurhæfingar. Eitt það mikilvægasta í lögunum er að þar er tryggður réttur allra til starfsendurhæfingar, óháð atvinnuþátttöku. Þá er ekki síður mikilvæg sú hugmyndafræði sem þar er innsigluð og byggist á virkri velferðarstefnu en hún felst í því að í stað þess að leggja megináherslu á að tryggja fólki með skerta starfsgetu fjárhagslega framfærslu og láta þar við sitja, er horft til þess að efla virkni fólks og getu til þátttöku í samfélaginu.
Það er alveg sama hve vel árar, á öllum tímum er fólk sem hefur þörf fyrir þjónustu á borð við þá sem veitt er hjá Hringsjá. Fólk sem vegna veikinda eða slysa, félagslegra erfiðleika eða annarra áfalla þarf náms- eða starfsendurhæfingu sem styður það og eflir til virkrar þátttöku í samfélaginu, atvinnuþátttöku eða frekara náms. Þegar þrengir að á vinnumarkaði og atvinnuleysi eykst verður þessi þörf mun sýnilegri en ella þar sem fleira fólk stendur þá í þessum sporum.
Það eru mikilvæg mannréttindi að geta tekið sem allra virkastan þátt í samfélaginu á sem flestum sviðum. Forsendur fólks til þess eru misgóðar og þær geta breyst eins og áður sagði vegna ýmissa áfalla eða aðstæðna. Það ber líka að hafa í huga að möguleikar fólks til virkrar samfélagsþátttöku ráðast ekki einungis af einstaklingsbundinni getu og færni heldur einnig af því hvort og hversu vel samfélagið er í stakk búið til að mæta fjölbreytileikanum, hversu sveigjanlegt það er og hvernig búið er að fólki almennt. Skortur á stuðningi og nauðsynlegum úrræðum á borð við náms- og starfsendurhæfingu fyrir fólk sem vill og getur nýtt sér hana er alvarlegt mál. Hver einasti einstaklingur er mikilvægur - allir eiga rétt á því að fá notið sín í samfélaginu og að njóta þess sem það hefur upp á að bjóða.
Það er einmitt þessi áhersla á mikilvægi einstaklingsins sem kemur svo skýrt fram í markmiðum Hringsjár, náms- og starfsendurhæfingar; um að Hringsjá sé á hverjum tíma leiðandi í því verkefni að endurhæfa og styðja einstaklinga til sjálfstæðis, virkni og þátttöku í samfélaginu.
Góðir gestir.
Afmælisbarnið Hringsjá hefur vaxið og dafnað í 25 ár, einbeitt og ákveðið í því að vera leiðandi á sínu sviði, að vinna gott starf, að starfa í þágu einstaklinga til að efla, bæta og byggja upp eitt samfélag fyrir alla. Þetta eru svo sannarlega verðug markmið og mikilvægt verkefni.
Ég ítreka kveðjur velferðarráðherra sem vill jafnframt koma á framfæri þakklæti til Hringsjár fyrir gott samstarf og óskum um gæfu og gengi í framtíðinni.