Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Áfram unnið að fullgildingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Innanríkisráðherra kynnti í ríkisstjórn í dag stöðu mála á fullgildingu á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland undirritaði 30. mars 2007. Markmið sáttmálans er að fatlað fólk fái notið mannréttinda sinna til fulls í samfélaginu. Tekin hefur verið saman greinargerð um verkið og tafla yfir reglugerðir sem lögð eru fram til umsagnar. Unnt er að senda umsögn á netfangið [email protected] til loka maímánaðar.

Samþykkt var í ríkisstjórn að þýðingu sáttmálans verði lokið hið fyrsta og að samráðsnefnd stjórnarráðsins um fullgildingu sáttmálans haldi áfram vinnu sinni á grundvelli þeirrar frumgreiningar sem fyrir liggur. Í því felst að undirbúa nauðsynlegar breytingar á regluverki sem lagðar yrðu fyrir Alþingi eigi síðar en á vorþingi 2014. Sérstaklega skal huga að fjármögnun og framkvæmd á grundvelli endurbætts lagaramma. Áfram skal unnið í  nánu samráði við hagsmunasamtök. Þýðing sáttmálans verður bráðlega gerð aðgengileg á vef ráðuneytisins til umsagnar.

Náið samráð við ýmsa aðila

Þann 11. júní 2012 samþykkti Alþingi framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014. Á grundvelli hennar leiðir innanríkisráðuneytið samstarfsnefnd ráðuneyta við að undirbúa fullgildingu sáttmálans. Ráðuneytin áttu að yfirfara löggjöf á sínu málefnasviði og leggja til breytingar á lagaumhverfi í samræmi við sáttmálann. Nú liggur fyrir frumgreining á efnisákvæðum hans og samanburður við núgildandi lagakerfi. Í greinargerð er ennfremur að finna samantekt á niðurstöðum greiningarinnar. Við greininguna hefur innanríkisráðuneytið átt náið samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga sem á fulltrúa í samráðshópi ráðuneytanna. Einnig hefur verið haft samráð við fulltrúa Öryrkjabandalags Íslands, Landssamtakanna Þroskahjálpar og Landsamtakanna Geðhjálpar sem komu á framfæri sínum sjónarmiðum.

Á undanförnum árum hefur verið ráðist í ákveðnar lagabreytingar til að breyta íslensku lagaumhverfi til samræmis við sáttmálann. Af þeim tuttugu og þremur greinum sáttmálans sem kveða á um efnisréttindi fatlaðs fólk sýnir frumgreining að íslenskt regluverk sé í samræmi við þrettán greinar sáttmálans. Einnig má líta svo á að íslenskt lagaumhverfi sé að nokkru leyti í samræmi við fjórar greinar hans. Þar að auki þarf að endurskoða lagaumhverfi með tilliti til sex efnisgreina í heild. Í sumum tilfellum er um að ræða viðkvæma málaflokka og því telur ráðuneytið að undirbúningur allra breytinga þurfi að eiga sér stað með víðtæku samstarfi og samráði við hagsmunaaðila og sérfræðinga.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta