Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2013 Dómsmálaráðuneytið

Nærri 238 þúsund manns á kjörskrá við kosningar til Alþingis í dag

Kosið er til Alþingis í dag og stendur kjörfundur víðast hvar til klukkan 22 í kvöld. Alls eru 237.957 kjósendur á kjörskrá. Atkvæði eru talin á vegum yfirkjörstjórna í hverju kjördæmanna sex og má búast við að úrslit liggi fyrir þegar kemur fram á sunnudagsmorgun.

Alls eru 237.957 á kjörskrá vegna alþingiskosninganna sem fram fara í dag.
Alls eru 237.957 á kjörskrá vegna alþingiskosninganna sem fram fara í dag.

Fulltrúar innanríkisráðuneytisins, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og Hermann Sæmundsson skrifstofustjóri, heimsóttu í dag yfirkjörstjórnir í Reykjavíkurkjördæmi norður og Suðvesturkjördæmi. Innanríkisráðuneytið annast ásamt ýmsum öðrum opinberum aðilum  undirbúning og framkvæmd kosninga og eru helstu samstarfsaðilar utanríkisráðuneytið, landskjörstjórn, yfirkjörstjórnir, sveitarstjórnir, Þjóðskrá Íslands, sýslumenn og kjörstjórnir. Þessir aðilar skipta með sér verkum og vinna að því að heildarframkvæmd kosninga fari fram með skýrum og traustum hætti.

Fulltrúar innanríkisráðuneytisins heimsóttu yfirkjörstjórn Suðvesturkjördæmis í dag.

Jónas Þór Guðmundsson er formaður yfirkjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi og ræddu fulltrúar innanríkisráðuneytisins við hann og nokkra samstarfsmenn hans í yfirkjörstjórninni.

Alls munu um 70 manns starfa við umsjón og talningu í kvöld og nótt og sagði formaðurinn að fjölgað hefði verið nokkuð í hópi talningarfólks. Vegna fjölda framboða væri kjörseðill óvenju stór og því venju fremur umhendis að meðhöndla seðlana við talningu. Aðsetur yfirkjörstjórnarinnar er í íþróttahúsinu við Kaplakrika í Hafnarfirði og þar fer talningin fram.

Sigfús Ægir Árnason, fulltrúi yfirkjörstjórnar, sýnir fulltrúum innanríkisráðuneytisins talningarstaðinn í Reykjavík norður.Formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður er Katrín Theodórsdóttir og sagði hún sömuleiðis nærri 70 manns starfa við talningu atkvæða en undirbúningur og flokkun mun hefjast eftir klukkan 18.

Talningin fer fram í Ráðhúsi Reykjavíkur. Á myndinni hér til hliðar sést hvar verið er að undirbúa tilhögun talningarinnar í salnum þar sem borgarstjórn fundar.

 

Margs konar spurningar geta komið upp á kjördag.Flestir kjósendur eru í Reykjavíkurkjördæmunum, rúmlega 45 þúsund í hvoru fyrir sig en fjölmennastir eru þeir í Suðvesturkjördæmi eða liðlega 63 þúsund. Í Suðurkjördæmi eru rúmlega 33.600 kjósendur, rúmlega 29 þúsund í Norðausturkjördæmi og rúmlega 21 þúsund í Norðvesturkjördæmi.

  • Sjá má ýmsar upplýsingar um kosningarnar á vefnum kosning.is.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta