Ímyndarátak um styrkleika fatlaðs fólks
Vetrarhæfileikarnir 2013 fóru fram í Borgarleikhúsinu í dag með þátttöku hæfileikafólks úr röðum fatlaðs og ófatlaðs fólks. Hæfileikarnir marka upphaf ímyndarátaks á vegum Réttindavaktar velferðarráðuneytisins sem ætlað er að auka vitund almennings um styrkleika fatlaðs fólks.
Réttindavakt ráðuneytisins stendur fyrir átakinu í samstarfi við Geðhjálp, Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands.
Teknar hafa verið upp auglýsingar þar sem fatlaðir einstaklingar sýna styrk sinn og sjónum er beint að þeim hæfileikum sem fólk býr almennt yfir. Auglýsingarnar voru frumsýndar við upphaf Vetrarhæfileikanna en þær verða á næstunni sýndar í sjónvarpi og netmiðlum.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra setti Vetrarhæfileikana með stuttu ávarpi og síðan komu fram hæfileikaríkir einstaklingar, fatlaðir sem ófatlaðir, og léku ýmsar listir. Þriggja manna dómnefnd veitti umsagnir um hvert atriði en hana skipuðu Eygló Harðardóttir, Steinunn Ása Þorvaldsdóttir og Anna Svava Knútsdóttir. Meðal þeirra sem komu fram voru Mamikó Dís Ragnarssdóttir tónlistarkona, Bergvin Oddsson uppistandari,
Steinar Baldursson tónlistarmaður og RWS vegglistahópurinn.
Í lokin veitti Eygló Harðardóttir Kyndilinn sem eru hvatningarverðlaun Réttindavaktar velferðarráðuneytisins ætluð fjölmiðli sem fjallað hefur skarað fram úr í umfjöllun um málefni fatlaðs fólks. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi verðlaun eru veitt og féll Kyndillinn í skaut RÚV að þessu sinni.