Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 51/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. febrúar 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 51/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19110040

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 18. júlí 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. apríl 2019, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Grikklands. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 22. júlí 2019. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 29. júlí 2019. Beiðni kæranda var synjað af kærunefnd þann 22. ágúst 2019.

Þann 19. nóvember 2019 barst kærunefnd endurupptökubeiðni kæranda ásamt greinargerð. Dagana 20., 21., 22., 25. og 28. nóvember og 3. desember 2019 bárust kærunefnd jafnframt umbeðnar upplýsingar frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun um málsmeðferð í máli kæranda. Þann 22. nóvember 2019 var kæranda boðið að koma að andmælum vegna upplýsinga sem þá voru fram komnar og bárust andmæli hans þann sama dag. Þann 5. desember 2019 var kæranda leiðbeint um framlagningu frekari gagna og bárust viðbótargögn frá kæranda þann 9. desember 2019. Þann 20. desember 2019 var kæranda að nýju leiðbeint um framlagningu frekari gagna og bárust viðbótargögn frá kæranda 2. og 3. janúar 2020. Þá var kæranda, þann 21. janúar 2020, að nýju boðið að koma að frekari andmælum vegna upplýsinga sem áður höfðu borist frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun og bárust frá honum svör þann 22. janúar 2020.

Kærunefnd telur að leggja megi þann skilning í beiðni kæranda að óskað sé eftir endurupptöku máls hans á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í beiðni kemur fram að kærandi óski eftir því að nefndin endurupptaki mál hans, felli ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og geri stofnuninni að taka umsókn hans til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

II. Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku er byggt á því að meira en 12 mánuðir séu nú liðnir frá því að umsókn hans um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu málsins séu ekki á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi lagt fram umsókn sína á Íslandi þann 19. nóvember 2018. Kærandi vísar máli sínu til stuðnings til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 580/2017. Þá bárust andmæli kæranda þann 22. desember 2019, þar sem fram kom frekari rökstuðningur.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöld geta þó, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn á grundvelli 40. gr. við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur verið við það miðað í úrskurðum kærunefndar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn fari umsókn ekki í efnismeðferð af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber að einhverju leyti ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Líkt og áður hefur komið fram sótti kærandi um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 19. nóvember 2018. Því eru liðnir rúmlega 12 mánuðir frá því að umsókn kæranda barst fyrst íslenskum stjórnvöldum. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Af upplýsingum sem kærunefnd bárust frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun, dagana 20. nóvember til 3. desember 2019, varðandi fyrirspurnir um tafir á málsmeðferð og flutningi kæranda, má ráða að stofnanirnar líti svo á að þær tafir sem hafi orðið á málinu hafi verið af völdum kæranda. Kemur þannig fram í svari stoðdeildar ríkislögreglustjóra, dags. 20. og 25. nóvember 2019, að þann 16. september sl. hafi þær upplýsingar borist, frá Útlendingastofnun, að kærandi væri horfinn úr úrræði Útlendingastofnunar, í kjölfarið hafi kærandi verið eftirlýstur og af þeim sökum hafi ekki verið farið með kæranda til Grikklands. Að auki er í svari Útlendingastofnunar, dags. 21. nóvember 2019, greint frá því að Útlendingastofnun hafi ekki haft spurnir af kæranda frá 16. september sl. og telji hann bera ábyrgð á þeim töfum sem orðið hafi á málinu. Þann 22. nóvember 2019 var kæranda veitt færi á að koma að andmælum vegna þessara upplýsinga og bárust andmæli kæranda þann sama dag. Þar kom m.a. fram að umsækjendum um alþjóðlega vernd bæri engin skylda til að búa í húsnæði sem Útlendingastofnun útvegaði. Þá var greint frá því að kærandi hafi áður gefið Útlendingastofnun upp símanúmer sitt og starfsmönnum stoðdeildar ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnunar hafi því verið í lófa lagið að hafa samband við hann eða koma skilaboðum til talsmanns hans. Í kjölfarið óskaði kærunefnd m.a. eftir upplýsingum, með tölvupóstum til Útlendingastofnunar og stoðdeildar ríkislögreglustjóra, dags. 25. nóvember 2019, um það hvort reynt hafi verið að ná sambandi við kæranda símleiðis. Þá óskaði kærunefnd eftir því að þau svör sem bærust væru studd gögnum.

Í svari frá stoðdeild ríkislögreglustjóra, dags. 3. desember 2019, kom fram að þegar upplýsingar bárust um að kærandi væri horfinn hafi verið reynt að hringja í hann, en slíkt sé ávallt gert í slíkum tilvikum, þetta símtal hafi þó ekki verið skráð í dagbók lögreglu. Er því ekki unnt að staðfesta símtalið með gögnum, líkt og farið var fram á af hálfu kærunefndar. Af þeim gögnum sem bárust kærunefnd frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra, varðandi framkvæmd úrskurðar kærunefndar og flutning kæranda frá landinu, er unnt að ráða að auk áðurgreinds símtals hafi kærandi verið skráður „horfinn“ hjá stofnununum og eftirlýstur af lögreglu. Ástæða þessarar skráningar hafi verið að kærandi dvaldi ekki í búsetuúrræði Útlendingastofnunar frá tilgreindum tíma og mætti ekki í nafnakall hjá stofnuninni.

Kærunefnd telur að þegar ekki er unnt að framkvæma endanlega ákvörðun um að einstaklingur skuli yfirgefa landið vegna þess að stjórnvöld geta ekki náð til einstaklingsins séu þær tafir sem leiða af því almennt á ábyrgð umsækjanda sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Aftur á móti má af skýringum kæranda ráða að hann sé ósammála því mati Útlendingastofnunar að ekki hefði verið unnt að framkvæma úrskurð nefndarinnar þar sem hann hafi ekki verið „horfinn“. Í því sambandi vísar kærandi m.a. til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd sé ekki skylt að búa í húsnæði á vegum Útlendingastofnar og það að flytjast þaðan feli ekki í sér að umsækjandinn hafi látið sig hverfa. Þá vísar kærandi til þess að þótt fyrir liggi að hann hafi ekki dvalið í búsetuúrræðum á vegum stjórnvalda hafi starfsmönnum Útlendingastofnunar og stoðdeildar ríkislögreglustjóra verið unnt að hafa samband við hann símleiðis ellegar koma skilaboðum til lögmanns hans.

Í svari Útlendingastofnunar, dags. 28. nóvember 2019, kom fram að stofnuninni hafi verið kunnugt um símanúmer kæranda enda hafi stofnunin úthlutað honum númerinu. Þá kom jafnframt fram í svari Útlendingastofnunar, sama dag, að ekki fengist séð að hringt hafi verið í kæranda, í umrætt símanúmer, enda væri það ekki venjan í slíkum tilvikum. Í svörum Útlendingastofnunar, sama dag, kom einnig fram að starfsmenn í búsetuúrræðum þeirra kvæðu sig greina öllum þeim sem þangað komi til dvalar frá því að hefðu þeir í hyggju að dvelja annars staðar, bæri þeim að gera stofnuninni viðvart og gefa upp fyrirhugaðan dvalarstað sinn. Í svari Útlendingastofnunar, dags. 3. desember 2019, kom fram að ekki séu til skriflegar upplýsingar um að framangreindar leiðbeiningar hafi verið veittar en að kærandi hafi fengið þessar upplýsingar munnlega, líkt og aðrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Þegar um svo íþyngjandi afleiðingar er að ræða fyrir kæranda telur kærunefnd að það hefði verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, m.a. í því skyni að fyrirbyggja misskilning og tryggja sönnun, að upplýsa hann með formlegum, og sannanlegum, hætti um skyldur sínar gagnvart Útlendingastofnun og gerir kærunefnd athugasemd við framkvæmd Útlendingastofnunar að þessu leyti. Þá gerir kærunefnd athugasemd við þá framkvæmd stoðdeildar ríkislögreglustjóra að færa ekki í dagbók lögreglu er hringt var í kæranda. Fer kærunefnd fram á að stoðdeild lagfæri það verklag sitt með því að færa jafnóðum til bókar þær aðgerðir sem gripið sé til.

Kærunefnd telur þó að kærandi hafi, með úrskurði kærunefndar, dags. 18. júlí 2019, sem birtur var fyrir kæranda þann 22. júlí 2019, verið upplýstur um að hann hefði ekki tilskilin leyfi til dvalar hér á landi og bæri að yfirgefa landið. Þá vísar kærunefnd jafnframt til þess að þann 29. júlí 2019 óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa ofangreinds úrskurðar. Af greinargerð sem fylgdi beiðni kæranda má ráða að hann hafi haft vitneskju um framangreinda skyldu sína til þess að yfirgefa landið enda er þar m.a. vikið að mikilvægi þess að hann eigi þess kost að vera viðstaddur réttarhöld í máli sínu. Þá sé í úrskurði kærunefndar, dags. 22. ágúst 2019, þar sem beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var hafnað, greint frá því að með ofangreindum úrskurði hafi ákvörðun Útlendingastofnunar, um að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi yrði ekki tekin til efnismeðferðar og að hann yrði endursendur til Grikklands, verið staðfest.

Þá telur kærunefnd jafnframt að horfa verði til þess að kærandi hafi áður sótt um alþjóðlega vernd hér á landi og synjun Útlendingastofnunar um að taka þá umsókn til efnislegrar meðferðar hér á landi verið staðfest af kærunefnd útlendingamála með úrskurði nr. 359/2016 frá 13. október 2016, á grundvelli eldri laga um útlendinga nr. 96/2002. Í þeirri málsmeðferð var kærandi einnig upplýstur um að hann hefði ekki tilskilin leyfi til dvalar hér á landi og bæri að yfirgefa landið og liggur ekki annað fyrir en að hann hafi hlýtt þeim fyrirmælum. Þá óskaði kærandi jafnframt eftir frestun réttaráhrifa á þeim úrskurði kærunefndar og var í greinargerð kæranda, dags. 9. nóvember 2016, vísað til mikilvægis þess að hann fengi heimild til frestunar réttaráhrifa brottvísunar sinnar með skírskotun til þess að hann þurfi að eiga þess kost að vera viðstaddur réttarhöldin og gefa skýrslu í eigin persónu.

Þrátt fyrir að umsækjendum um alþjóðlega vernd sé ekki skylt að dvelja í búsetuúrræðum Útlendingastofnunar, og þess að ekki liggja fyrir skrifleg gögn um að kærandi hafi fengið leiðbeiningar frá stjórnvöldum um að hann skyldi tilkynna um breyttan dvalarstað eða að fjarvera hans í nafnakalli myndi leiða til þess að stofnunin teldi hann „horfinn“, er það mat kærunefndar að líta verði svo á að ekki hafi verið unnt að framkvæma úrskurð kærunefndar. Kærunefnd telur að með því að yfirgefa búsetuúrræði Útlendingastofnunar, án þess að upplýsa stjórnvöld um aðsetur sitt hafi kærandi orðið þess valdur að torsóttara varð fyrir stjórnvöld að framkvæma úrskurð kærunefndar og olli með því töfum á málinu. Þá horfir kærunefnd sérstaklega til þess sem rakið hefur verið um að nefndin telji að hann hafi gert sér fulla grein fyrir því að hann ætti að fara frá landinu, m.a. vegna fyrri málsmeðferðar hans hér á landi, auk þess sem búið var að tilkynna honum um niðurstöðu kærunefndar útlendingamála, þ.m.t. um frávísun hans frá landinu. Kærunefnd telur að kærandi geti ekki öðlast ríkari rétt til efnismeðferðar, en ella, með því að vanrækja þá skyldu sína að yfirgefa landið samhliða því að láta hjá líða að upplýsa stjórnvöld um aðsetur sitt. Þá veitti kærunefnd kæranda, dags. 20. desember 2019, tækifæri til þess að sýna fram á dvöl sína hér á landi, frá því að hann yfirgaf búsetuúrræði Útlendingastofnunar. Kærunefnd telur að svör kæranda og framlögð gögn ekki sýna með fullnægjandi hætti fram á samfellda dvöl hans hér á landi á þeim tíma.

Í ljósi alls ofangreinds er það mat kærunefndar að tafir sem urðu á framkvæmd úrskurðar kærunefndar í máli kæranda séu á ábyrgð kæranda sjálfs. Af því leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga fyrir því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar eru ekki uppfyllt.

Í ljósi þessa verður ekki séð að úrskurður kærunefndar frá 18. júlí 2019 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er það mat kærunefndar í ljósi þess sem hér hefur verið rakið að atvik máls hafi ekki breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt og er kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd því hafnað. 

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The appellants request for re-examination of the case is denied.

 

Árni Helgason                                                         Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta