Biðtími styttist eftir aðgerðum
Sjúklingar bíða nú skemur eftir aðgerðum á sjúkrahúsum en þeir gerðu fyrir ári. Bið eftir hjartaþræðingu hefur styttst hvað mest. Þetta kemur fram í nýjum tölum sem landlæknisembættið hefur tekið saman um biðtíma eftir aðgerðum á sjúkrahúsum og miðast þær við 1. júní sl. Samanburður er gerður á biðtíma eftir aðgerðum í febrúar á þessu ári og júní á liðnu ári. Landlæknisembættið vekur athygli á styttri bið eftir hjartaþræðingum. Nú bíða 184, en á sama tíma í fyrra biðu 235 og hefur þeim fækkað, sem beðið hafa lengur en í þrjá mánuði, úr 119 í 61. Í bráðatilvikum bíða menn ekki. Í samantekt landlæknisembættisins um biðtímann segir meðal annars: “Meðal annarra biðlista sem halda áfram að styttast má nefna listann á háls- nef og eyrnadeild og lista lýtalækningadeildar vegna brjóstaminnkanaraðgerða, en þar er í raun ekki um eiginlegar lýtaaðgerðir að ræða heldur aðgerðir gerðar vegna mikilla álagseinkenna sem konur hafa af mjög stórum brjóstum.
Eins og áður bíður allstór hópur fólks eftir aðgerð vegna skýs á auga. Nýlega gerði heilbrigðisráðherra samning við augnlæknastofur úti í bæ um þessar aðgerðir, en áhrifa þess er varla farið að gæta á listum sjúkrahúsanna enn sem komið er. Fróðlegt verður að sjá þennan lista við næstu mælingu.
Eini biðlistinn sem lengist svo nokkru nemur er vegna gerviliðaaðgerða í hnjám. Fjöldi þessara aðgerða eykst jafnt og þétt og kemur einkum tvennt til, annars vegar að þjóðin þyngist og svo hitt að aðgerðirnar verða sífellt öruggari, sem veldur því að aldursramminn víkkar.”
Þá kemur ma. fram í samantekt landlæknisembættisins að svo mjög hefur dregið úr bið eftir vélindabakflæðis- og þindarslitsaðgerðum, borið saman við það sem áður var, að nú hefur aðeins einn sjúklingur beðið eftir aðgerð lengur en tólf vikur.
Sjá nánar töflur: Bið eftir aðgerðum - júní 2008