Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2008 Heilbrigðisráðuneytið

ESB freistar þess að auka rétt sjúklinga

Í júlíbyrjun samþykkti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tillögu sem miðar að því að auðvelda íbúum Evrópu að sækja læknisþjónustu til annarra landa innan sambandsins, auk orðsendingar um aukið samstarf aðildarríkjanna á þessu sviði.

Þrátt fyrir að nokkrir úrskurðir Evrópudómstólsins staðfesti að sáttmálinn um Evrópusambandið veiti einstaklingum rétt til þess að leita sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki og fá hana greidda í heimalandinu, er enn til staðar almenn óvissa um lagalegar forsendur þess að geta nýtt sér þennan rétt. Með tillögunni vill framkvæmdastjórnin skapa lagaleg skilyrði fyrir þessum rétti.

Framkvæmdastjórnin er með tillögunni að bregðast við ákalli Evrópuþingsins og Ráðherraráðins um að koma með tillögu um hvernig hægt væri að koma á heilbrigðisþjónustu yfir landamæri aðildarríkjanna sem tæki tillit til sérstöðu heilbrigðisgeirans. Ennfremur er tilskipunartillögunni ætlað að verða grundvöllur fyrir því að leysa úr læðingi þá miklu möguleika sem talið er evrópsk samvinna geti skilað í þeirri viðleitni að auka skilvirkni og árangur í heilbrigðiskerfum aðildarríkjanna.

Ávinningur

Verði tilskipunin samþykkt af Ráðherraráðinu og Evrópuþinginu mun hún skapa ramma fyrir heilbrigðisþjónustu yfir landmæri á öllu EES-svæðinu. Framkvæmdastjórnin gerir ráð fyrir margvíslegum ávinningi og hefur hún sérstaklega tilgreint eftirtalda þætti:

  • Sjúklingar munu öðlast rétt til þess að sækja heilbrigðisþjónustu í öðrum löndum Evrópusambandsins og fá hana greidda í heimalandinu að því marki er sambærileg aðgerð kostar þar.
  • Aðildarríkin eru ábyrg fyrir þeirri heilbrigðisþjónustu sem veitt er á landssvæði hvers um sig og verða að sjá til þess að hún uppfylli tilgreindar gæða- og öryggiskröfur.
  • Tilskipunin mun auðvelda samstarf Evrópuríkja á sviði heilbrigðismála. Hún mun stuðla m.a. að myndun tengslaneta og samvinnu um hagnýtingu hátækni í heilbrigðisþjónustunni og meðhöndlun sjaldgæfra sjúkdóma.
  • Sameiginlegar úttektir og mat á heilbrigðistækni munu skila ákveðnum virðisauka fyrir þátttökulöndin. Um er að ræða aðgerðir er draga væntanlega úr skörun og endurtekningum á ýmsum sviðum og stuðla þannig að betri nýtingu tækja og fjármuna.
  • Rafrænni heilbrigðisþjónustu (eHealth) verður gert hærra undir höfði en verið hefur fram til þessa. Nútíma samskipta- og upplýsingatækni mun áreiðanlega skila sér í auknum gæðum, öryggi og afköstum heilbrigðisþjónustunnar.

Mat

Sú meginregla að “leyfa borgurunum að velja þann stað þar sem þeir leita sér lækninga” eins og gert er í tillögu framkvæmdastjórnarinnar, er að mati sérfræðinga bæði rausnarleg og flestum áreiðanlega að skapi. Texti tillögunnar þar sem þessi regla er útfærð er hins vegar flókinn og gefur takmarkaða leiðsögn um framkvæmd hennar. Jafnframt er ljóst að áfram verða vissar takmarkanir fyrir því að sækja heilbrigðisþjónustu yfir landamæri og á það einkum við mjög sérhæfða og dýra sjúkrahúsþjónustu. Er þá gert ráð fyrir að leyfi þurfi fyrirfram fyrir tilgreindum aðgerðum áður en þær eru framkvæmdar utan heimalands viðkomandi sjúklings. Samt sem áður er greinilegt að réttindum sjúklinga er almennt gert hærra undir höfði en verið hefur fram að þessu í ríkjum Evrópusambandsins.

Þess ber að geta að heilbrigðisþjónusta var á sínum tíma undanskilin frá Tilskipun 2006/123/EC um þjónustu á innri markaði ESB. Bæði Ráðherraráðið og Evrópuþingið fólu framkvæmdastjórninni að fjalla um málið og koma með tillögur um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu á innri markaði ESB. Tillaga framkvæmdastjórnarinnar verður nú til umræðu og meðhöndlunar í Ráðherraráðinu og Evrópuþinginu. Fastlega má gera ráð fyrir því að endanleg tilskipun um heilbrigðisþjónustu líti ekki dagsins ljós fyrr en eftir 2-3 ár. Kemur þar einkum til að nokkrir þættir málsins eru umdeildir og á næsta ári verður auk þess kosið til Evrópuþingsins. Það getur orðið til þess að meðferð einstakra mála getur dregist á langinn. Fyrst þegar Ráðherraráðið og Evrópuþingið hafa samþykkt tilskipunina þá hefst umfjöllun um hana á vettvangi EFTA. Þannig að hún tekur vart gildi á öllu Evrópska Efnahagssvæðinu fyrr en eftir 3 - 4 ár.

 

Sjá:

http://ec.europa.eu/health/ph_overview/co_operation/healthcare/docs/COM_en.pdf

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta