Hoppa yfir valmynd
20. mars 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 52/2002

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

 

í málinu nr. 52/2002

 

Eignarhald: Kjallari. Samþykkt íbúðar.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

     Með bréfi, dags. 11. september 2002, mótteknu 19. september 2002, beindu A, B og C, X nr. 14, hér eftir nefnd álitsbeiðendur, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við D og E, Y nr. 5 og F og G, X nr. 14, hér eftir nefnd gagnaðilar.

     Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 30. september 2002. Samþykkt var að gefa gagnaðilum kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

     Greinargerð gagnaðila, dags. 22. nóvember 2002, frekari athugasemdir álitsbeiðenda, mótteknar 10. janúar 2003 og frekari athugasemdir gagnaðila, dags. 5. febrúar 2003, voru lagðar fram á fundi nefndarinnar 26. febrúar 2003. Á fundi nefndarinnar 20. mars var málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

     Um er að ræða fjöleignarhúsið  X nr. 14, sem er fjórar hæðir, eða kjallari, tvær hæðir og ris, alls fjórir eignarhlutar. Byggingarleyfi hússins er frá 1. september 1944. Ágreiningur er um eignarhald á rýmum í kjallara og hagnýtingu séreignar.

 

Kærunefnd telur kröfur álitsbeiðanda vera:

     Að snyrting merkt 0007, gangur merktur 0008, hitakatlar merktir 0010, geymsla merkt 0011, tæknirými merkt 0012 og  kjallarastigi merktur 0013 séu í sameign.

    

     Í álitsbeiðni segir að í eignaskiptayfirlýsingu, sem unnin hafi verið fyrir húsfélagið, séu fjölmörg atriði sem þarfnist athugunar við. Þar á meðal að umtalsverður hluti sameignar allra í kjallara hafi verið ranglega tilgreindur sem séreign fyrstu hæðar. Eignaskiptayfirlýsing þessi hafi hlotið staðfestingu embættis byggingarfulltrúans í Reykjavík og verið undirrituð af gagnaðilum.

     Álitsbeiðendur segjast margoft hafa skorað á þann aðila, sem fenginn var til að gera umrædda eignaskiptayfirlýsingu sem og gagnaðila, að leiðrétta fyrrnefndar rangfærslur.

     Benda álitsbeiðendur á að í þinglýstum skiptasamningi frá 11. ágúst 1970 sé íbúð í kjallara lýst með tæmandi hætti. Einnig sé þar fjallað um nokkur, en alls ekki öll, rými í kjallara sem séu tilgreind séreign gagnaðila. Þau rými sem hér um ræðir séu snyrting merkt 0007, gangur merktur 0008, hitakatlar merktir 0010, geymsla merkt 0011, tæknirými merkt 0012 og kjallarastigi merktur 0103. Segja álitsbeiðendur að hvergi sé minnst á umrædd rými í eignaskiptasamningnum frá 1970 og telja þau þar af leiðandi vera í sameign allra eigenda hússins.

     Í greinargerð hafna gagnaðilar kröfum álitsbeiðenda og krefjast þess að viðurkennt verði að umrædd rými teljist séreign gagnaðila. Benda gagnaðilar á að þegar húsið hafi verið byggt hafi verið ákveðið að engin sameign yrði innan húss. Ástæðan hafi verið sú að húsinu hafi verið ætlað að vera svokallað tveggja fjölskyldna hús, þ.e. fyrsta hæð og kjallari sér og sama hafi gilt um efri hæð og ris. Eina undantekning þessa hafi verið að hálfur geymsluklefi undir útitröppum og hálf kælivél sem staðsett hafi verið í kjallara hússins. Þá hafi verið ákveðið að sameiginlegur inngangur yrði með annarri hæð og risíbúð eftir að byggt hafi verið ofan á húsið og risíbúðin útbúin. Í afsali, dags. 29. september 1983, þegar risíbúðinni hafi verið afsalað í fyrsta skipti, komi fram að eina sameignin sem fylgi íbúðinni sé hlutdeild í stigahúsi með annarri hæð og hlutdeild í leigulóðarréttindum. Allt annað rými í húsinu sé í séreign þar á meðal öll önnur rými í kjallara og stigi frá fyrstu hæð og niður í kjallara.

     Segja gagnaðilar að frá því að húsið var byggt hafi kjallarinn verið í eigu kjallaraíbúðar og fyrstu hæðar, með þeirri undantekningu sem að framan greinir. Hafi eigendur annarrar hæðar og riss hins vegar haft aðgang í gegnum rými fyrstu hæðar, þ.á m. stiga niður í kjallara, að sameiginlegum mælum og inntökum fyrir húsið sem séu í kjallara. Kjallarinn hafi skipst í tvo hluta, austur- og vesturhluta. Í austurhluta hússins sé íbúðin í kjallaranum og í vesturhluta hans séu rými sem fylgi fyrstu hæð.  

     Gagnaðilar benda einnig á að í eignaskiptasamning, dags. 11. ágúst 1970, sé skýrlega kveðið á um allt eignarhald í húsinu, þ.á m. eignarhald í kjallara. Í skiptasamningnum séu rýmin í húsinu tæmandi talin. Hvergi sé tekið fram að önnur rými en þau sem þar séu tilgreind séu til staðar í húsinu. Þá sé hvergi kveðið á um það í samningnum að einhver önnur rými en þau sem þar eru tilgreind, séu í sameign. Ef svo hefði verið hefði eðli málsins samkvæmt verið tekið fram í samningnum að eignarhlutunum fylgdi hlutdeild í sameign. Í 3. gr. samningsins sé einnig sérstaklega tekið fram að hver eigandi kosti viðhald á sínum hluta. Eðli málsins samkvæmt hefði verið tekið fram í samningnum ef eigendurnir hefðu átt að greiða eitthvað saman. Gagnaðilar hafi skrifað undir samninginn.

     Segja gagnaðilar eignaskiptasamninginn hafa verið gerðan vegna þess að þriðja hæðin hafi verið byggð ofan á húsið. Samkvæmt honum skiptist húsið í fjóra eignarhluta, þ.e. kjallara, fyrstu, aðra og þriðju hæð. Samkvæmt skiptasamningnum skiptist kjallarinn í austur- og vesturhluta. Í austurhluta kjallarans sé íbúð. Allur vesturhluti kjallarans tilheyri síðan fyrstu hæð. Í skiptasamningnum sé síðan kveðið á um að önnur hæðin eigi hálfan geymsluklefa undir útitröppum og hálfa kælivél. Verði að líta á það sem tæmandi talningu á þeim rýmum í kjallara sem tilheyri ekki kjallara og fyrstu hæðinni enda sé skýrt kveðið á um skiptingu kjallarans í austur- og vesturhluta. Þá beri einnig að líta til þess að á þeim tíma sem eignaskiptasamningurinn hafi verið gerður hafi eina samþykkta teikningin af kjallaranum verið frá 1. september 1944. Samkvæmt henni hafi rýmin í kjallaranum ekki borið sömu heiti og þau gera í teikningunni sem gerð var á árinu 2001 sem vísað er til í málinu, enda flest óskráð. Með vísan til þess sé ekki um að ræða nein rými í kjallara sem eru í sameign eigenda hússins. Einnig vísa gagnaðilar til yfirlýsingar fyrri eiganda annarrar hæðar sem styðji þessa fullyrðingu.

     Í greinargerð gagnaðila kemur fram að gagnaðilar hafi keypt fyrstu hæðina með afsali, dags. 12. nóvember 1966. Samkvæmt því hafi eignarhlutinn talist 5/12 hluti allrar eignarinnar. Með afsali, dags. 22. júlí 1977, hafi gagnaðilar síðan keypt íbúðina í kjallaranum. Frá árinu 1977 hafi kjallarinn og fyrsta hæðin verið í eigu gagnaðila. Sé því einungis um að ræða skilgreiningaratriði hvort rýmin í kjallaranum tilheyri kjallaraíbúð eða fyrstu hæðinni, þ.e. austur- eða vesturhluta hans, enda sami eigandi þeirra. Hafi rýmin í kjallara sem tilheyra fyrstu hæðinni eingöngu verið notuð af eigendum fyrstu hæðar til íbúðar. Hafi gagnaðilar enn fremur einir séð um allt viðhald og hreingerningar í öllum rýmum kjallarans og á stiga frá fyrstu hæðinni niður í kjallara í rúm 30 ár enda kjallarinn í eigu hans (fyrir utan hálfan geymsluklefa undir útitröppum, ásamt hálfri kælivél sem er í eigu annarrar hæðar) og hafi aðrir eigendur hússins aldrei gert athugasemdir við það fyrr en nú.         

     Hvað varðar snyrtingu merkta 0007 þá sé hún hluti af eign fyrstu hæðar og staðsett við enda gangs merkts 0008. Gagnaðilar segjast hafa endurnýjað snyrtinguna fyrir áratugum síðan, og einn haft aðgang að henni og annast allt viðhald hennar. Samkvæmt eignaskiptasamningi, dags. 11. ágúst 1970, fylgi allur vesturhluti kjallarans fyrstu hæð. Þá verði að líta til þess að þrátt fyrir að snyrtingin sé ekki talin upp með rýmunum sem fylgja fyrstu hæðinni, þá fylgi allur vesturhluti kjallarans fyrstu hæð. Fallist nefndin ekki á það sjónarmið benda gagnaðilar á að báðir helmingarnir í kjallaranum hafa verið í eigu gagnaðila frá árinu 1977 og sé því eingöngu um skilgreiningaratriði að ræða hvort snyrtingin verði talin austan- eða vestanmegin.

     Varðandi gang merkan 0008 sé það sérstaklega tekið fram í eignaskiptasamningi frá 1970 að gangurinn tilheyri 1. hæðinni. Gangurinn nái frá bílskúr nr. 0009 að snyrtingu. Gangurinn skiptist ekki í tvo ganga eins og álitsbeiðendur hafi haldið fram heldur hafi gagnaðilar á sínum tíma sett léttan vegg á milli bílskúrs og geymslu.

     Varðandi rými merkt 0010, 0011 og 0012 segja gagnaðilar þau staðsett í vesturhluta kjallarans en samkvæmt skiptasamningum frá 1970 tilheyri allur vesturhluti kjallarans fyrstu hæðinni. Á þeim tíma sem skiptasamningurinn var gerður hafi ekki verið litið svo á að þessi rými bæru neitt heiti né væru skilgreind neitt sérstaklega, heldur hafi þau verið hluti af rýmunum í kjallara sem tilheyri fyrstu hæðinni þar sem þau væru staðsett í vesturhluta kjallarans sem var allur í eigu 1. hæðarinnar. Hafi því ekki verið ástæða til að nefna þau þessum nöfnum í samningnum.

     Hvað lýtur að kjallarastiga merktum 0013, þá telja gagnaðilar sömu sjónarmið eiga við og að framan hafa verið rakin. Þar sem fyrrnefnd rými í kjallara hafi tilheyrt fyrstu hæðinni hafi ekki verið talin ástæða til að taka það fram í skiptasamningnum að hann fylgdi, enda hafi verið gengið út frá því að hver hæð væri sér með þeim undantekningum einum sem tilgreindar séu í skiptasamningnum. Ef eigendurnir hefðu litið öðruvísi á málið hefði stiginn verið tilgreindur eins og stiginn á milli annarrar og þriðju hæðar og er sérstaklega tilgreindur í samningnum.

     Í greinargerð setja gagnaðilar fram þá kröfu að samþykki annarra eigenda hússins þurfi ekki til að fá íbúð í kjallara samþykkta.

     Segja gagnaðilar ástæðu þess að gerð er ný krafa í málinu, að á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 13. nóvember sl. hafi verið lagt fram bréf álitsbeiðenda þar sem krafist væri að nefndin felldi úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa frá 17. september 2002, um að fella úr gildi byggingarleyfi sem samþykkt var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 4. september 2001 og hafi gagnaðilum verið bent á að snúa sér til kærunefndar fjöleignarhúsamála. Hefur málinu verið slegið á frest hjá skipulags- og byggingarnefnd þar til álit kærunefndar liggur fyrir.

     Segja gagnaðilar málið snúast um það að íbúðin í kjallaranum (þ.e. í austanverðum kjallaranum sem sé sérstakur eignarhluti) hafi upphaflega verið ósamþykkt. Þann 4. september 2001 hafi verið samþykkt á fundi byggingarfulltrúa áður gerð íbúð í kjallara X nr. 14. Hafi íbúðin verið samþykkt athugasemdalaust á fundinum með vísan til þess að það samræmdist ákvæðum laga nr. 73/1997. Ástæðan fyrir því að íbúðin hafi verið ósamþykkt upphaflega, hafi verið sú að þegar húsið hafi verið byggt hafi staðið til að hafa vinnuherbergi þar. Raunin hafi hins vegar verið sú að í íbúðinni hafi verið búið og tengt fyrir eldvél þar árið 1946. Hins vegar hafi ekki verið farið fram á það að íbúðin yrði samþykkt fyrr en árið 2001. Hafi samþykkið verið veitt þar sem það hafi verið talið sannað að eignarhlutinn hafði frá upphafi verið notaður sem íbúð en ekki vinnuherbergi. Einnig benda gagnaðilar á að það komi skýrt fram í eignarheimildum hússins, þ.á m. eignaskiptasamningi, dags. 1. ágúst 1970, að íbúð sé í austanverðum kjallaranum. Segja gagnaðilar að með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 23. september 2002, hafi gagnaðilum síðan verið tilkynnt um að leyfið hefði verið afturkallað þar sem ekki lægi fyrir samþykki meðeigenda. Rök byggingarfulltrúa fyrir afturköllun á áður veittu samþykki sínu fyrir íbúð í kjallara hafi byggst á því að samþykki meðeigenda hafi ekki fylgt með, sbr. ákvæði 12.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, en í ákvæðinu greinir að umsókn um byggingarleyfi skuli fylgja samþykki meðeigenda, sbr. lög um fjöleignarhús. Rót þessarar ákvörðunar byggingarfulltrúa hafi verið bréf álitsbeiðenda, dags. 16. júlí 2002, þar sem þeir lýstu sig ósammála umsögninni.

     Segja gagnaðilar ágreininginn í málinu snúast um það að byggingarfulltrúi telji nú að aðrir eigendur í húsinu þurfi að samþykkja þá formbreytingu að íbúðin sé skráð samþykkt í stað þess að vera skráð ósamþykkt og vísar til ákvæða laga nr. 26/1994. Gagnaðilar telja hins vegar að meðeigendur þurfi ekki að samþykkja þá ráðstöfun.

     Gagnaðilar benda á að ekki þurfi að fá samþykki hjá öðrum eigendum hússins á grundvelli laga nr. 26/1994 enda hafi umsóknin eingöngu lotið að því að fá samþykki fyrir áður gerðri íbúð í kjallara hússins, þ.e. á séreign gagnaðila, en ekki á sameign hússins. Í lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús sé hvergi að finna ákvæði um að meðeigendur þurfi að veita samþykki sitt fyrir því sem hér um ræðir, þ.e. fyrir óbreyttu ástandi, enda lúti ákvörðunin ekki að neinum breytingum og skerðir á engan hátt hagsmuni meðeigendanna heldur að skráningaratriði. Ekki hafi verið um neinar breytingar að ræða hvorki á séreign né sameign hússins, né á notkun eða hagnýtingu eignarhlutans, enda hafi íbúðin verið alveg eins frá upphafi og notuð sem slík og skráður sem sérstakur eignarhluti. Kemur fram í eignaskiptasamningi frá 1970 að í eignarhlutanum sé íbúð.

     Í 27. gr. laga nr. 26/1994 sé fjallað um breytta hagnýtingu séreignar. Telja gagnaðilar að í máli þessu sé ekki um að ræða breytta hagnýtingu heldur breytta skráningu. Ef 27. gr. eigi hins vegar við þá liggi alveg ljóst fyrir að ákvörðunin félli undir 2. mgr. 27. gr. og útheimti því ekki samþykki meðeigenda.

     Í frekari athugasemdum álitsbeiðenda benda þeir á að íbúðir á fyrstu og annarri hæð hússins séu jafn stórar og 31% hússins, hvor um sig. Í eignaskiptasamningi frá 1970 séu gagnaðilar sagðir eigendur 35% hússins. Þannig sé eignarhluti hans í kjallara hússins 4%. Samning þennan hafi gagnaðilar ritað undir og þar með samþykkt að hann ætti 4% í kjallaranum. Að öðru leyti mótmæla álitsbeiðendur fullyrðingum gagnaðila.

     Í frekari athugasemdum gagnaðila segja gagnaðilar það gefa augaleið að hlutfallstölur í eignaskiptasamningi, dags 11. ágúst 1970, séu ekki réttar. Þegar ósamræmi sé milli tölustafa og skrifaðs texta gangi skrifaði textinn framar.

 

III. Forsendur

Eignarhald á kjallara

     Samkvæmt 4. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús telst séreign afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum er lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi og/eða öðrum þinglýstum heimildum um húsið, ásamt því sem honum fylgir sérstaklega hvort heldur er húsrými í húsinu sjálfu, bílskúr á lóð þess eða sameiginlegri lóð margra húsa, lóðarhluti, búnaður eða annað samkvæmt sömu heimildum, ákvæðum laga eða eðli máls. Í 6. gr. laganna kemur síðan fram að í sameign teljist allir þeir hlutar húss sem ekki eru ótvírætt í séreign.

     Í málinu liggur fyrir þinglýst eignaskiptayfirlýsing fyrir X nr. 14, dags. 11. ágúst 1970. Um eignarhald kjallara segir í fyrsta lagi í a-lið 1. tölul. samningsins: „ H er eigandi að 11% allrar eignarinnar, eða nánar tiltekið íbúð í kjallara að austanverðu, sem er tvær stofur og eldhús ásamt baðherbergi geymslu og forstofu.“ Í öðru lagi segir í b-lið 1. tölulið samningsins: „ D er eigandi 35% eignarinnar, eða nánar tiltekið neðri hæð hússins [?] öllum vesturhluta kjallarans, sem er geymsla, þvottahús, gangur og eitt þvottaherbergi, og bifreiðaskúr vestan við húsið. Ennfremur fylgir þessum hluta ½ - hálfur geymsluklefi undir tröppum, ásamt ½ - hálfri kælivél.“ Í þriðja lagi segir um eignarhald í kjallara í c-lið 1. töluliðs samningsins: „ I er eigandi að 31% eignarinnar, eða nánar tiltekið annarri hæð hússins ásamt sameiginlegum innangi með þriðju hæð. Enn fremur tileyrir eiganda efri hæðar ½ - hálfur geymsluklefi undir útitröppum, ásamt ½ - hálfri kælivél.“

     Af gögnum málsins má sjá að kjallari hússins hefur breyst umtalsvert frá upphaflegri teikningu hússins, samþykktri 1. september 1944. Er t.d. ekki gert ráð fyrir snyrtingu þeirri sem deilt er um í málinu á umræddri teikningu og er snyrtingin umtalsvert minni en það herbergi sem gert er ráð fyrir á teikningunni. Sama gildir um geymslu í kjallara. Enn fremur er ekki skilgreint nákvæmlega hvar sá gangur liggur er tilgreindur er í eignaskiptasamningnum. Er því ekki hægt að sjá með óyggjandi hætti hvernig aðstæðum var háttað þegar eignaskiptasamningur hússins var gerður árið 1970.

     Þrátt fyrir þetta er eignarhald kjallarans afmarkað með þeim hætti í eignaskiptayfirlýsingunni, frá 11. ágúst 1970, að glögglega megi sjá skiptingu eignarinnar. Þar er sérstaklega tilgreint að annarri hæð fylgi hálfur geymsluklefi undir útitröppum ásamt hálfri kælivél. Að öðru leyti er ekki minnst á eignarhald annarrar hæðar á kjallara. Um eignarhald fyrstu hæðar segir hins vegar að gagnaðili sé eigandi að öllum vesturhluta kjallarans og þeim rýmum sem þar um ræðir og tilgreind eru nánar. Að mati kærunefndar verður að skilja umræddrar eignakiptayfirlýsingar á þann hátt að eignarhald álitsbeiðenda og eigenda íbúðar í kjallara sé tæmandi talið og að öðru leyti sé kjallarinn í eigu gagnaðila. Styðst þetta enn fremur við yfirlýsingu fyrri eigenda annarrar hæðar varðandi efni eignaskiptasamningsins og einnig afsal af rishæð hússins, dags 29. september 1983. Það er því álit kærunefndar að snyrting merkt 0007, gangur merktur 0008, hitakatlar merktir 0010, geymsla merkt 0011, tæknirými merkt 0012 og kjallarastigi merktur 0013 séu séreign gagnaðila.

 

Samþykki íbúðar í kjallara

     Gildissvið laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús er afmarkað í 5. mgr. 1. gr. laganna, en þar segir að lög þessi gildi um lögskipti eigenda fullgerðra fjöleignarhúsa að lóðum meðtöldum.

     Um breytingu á hagnýtingu séreignar er fjallað í 27. gr. laga nr. 26/1994. Í 1. mgr. 27. gr. laganna er áskilið samþykki allra eigenda hússins til breytinga á hagnýtingu séreignar, frá því sem verið hafi eða ráð hafi verið fyrir gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur eigandi ekki sett sig á móti slíkri breytingu ef sýnt er að hún hefur ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum hans, sbr. 2. mgr. 27. gr.

     Kærunefnd telur álitaefnið fyrst og fremst snúast um það hvort samþykki annarra eigenda fjöleignarhússins samkvæmt lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús sé áskilið við ákvörðun byggingarfulltrúa um að samþykkja íbúð í kjallara, sbr. skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998. Telur kærunefnd að ákvörðun um samþykki íbúðar, sem tekin er á grundvelli laga nr. 73/1997 og reglugerðar nr. 441/1998, varði fyrst og fremst opinbera hagsmuni um að viðkomandi íbúð sé í samræmi við lágmarkskröfur um byggingar og einnig um skráningu fasteigna, en ekki innbyrðis samskipti íbúa fjöleignarhúss nema að hluta til. Með hliðsjón af ákvæðum 5. mgr. 1. gr. laga nr. 26/1994 telur kærunefnd því að samþykki annarra íbúa fjöleignarhússins vegna ákvörðunar byggingarfulltrúa um samþykki íbúðar falli utan gildissviðs laganna, nema breyting á hagnýtingu séreignar sé slíkri ákvörðun byggingarfulltrúa samfara, sem þá þyrfti að meta á grundvelli 27. gr. laga nr. 26/1994.

     Í málinu er ágreiningur um það hvort samþykki annarra eigenda hússins sé áskilið vegna samþykkis byggingaryfirvalda á íbúð gagnaðila í kjallara. Af gögnum málsins má sjá að umrætt rými hefur verið nýtt sem íbúð nánast frá upphafi, en þeirri fullyrðingu gagnaðila er ekki mótmælt af álitsbeiðendum. Enn fremur kemur skýrt fram í eignaskiptasamningi, dags. 11. ágúst 1970, að rýmið teljist íbúð. Telur kærunefnd því sýnt að engar breytingar hafi átt sér stað á hagnýtingu kjallarans og að hann hafi verið nýttur sem íbúð í áratugi. Í ljósi þess sem að framan er rakið er það því álit kærunefndar að samþykki byggingaryfirvalda á íbúðinni falli utan gildissviðs laga nr. 26/1994 og samþykki annarra eigenda sé þar af leiðandi ekki áskilið samkvæmt lögum um fjöleignarhús. Hins vegar telur kærunefnd rétt að taka fram að hún tekur enga afstöðu til þess hvort slíkt samþykki sé áskilið samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 eða byggingarreglugerð nr. 441/1998.

 

IV. Niðurstaða

       Það er álit kærunefndar að gangur snyrting merkt 0007, gangur merktur 0008, hitakatlar merktir 0010, geymsla merkt 0011, tæknirými merkt 0012 og kjallarastigi merktur 0013 séu séreign gagnaðila.

      Það er álit kærunefndar að samþykki annarra eigenda samkvæmt lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús sé ekki áskilið vegna ákvörðunar byggingarfulltrúa að samþykkja íbúð í kjallara.

 

 

Reykjavík, 20. mars 2003

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta