Mál nr. 4/2003
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA
í málinu nr. 4/2003
Ákvörðunartaka: Milliloft í sameiginlegu rými/þvottahús.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með bréfi, dags. 6. janúar 2003, beindi A, X nr. 1, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B og C, X nr. 1, hér eftir nefnd gagnaðilar.
Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 14. janúar 2003. Samþykkt var að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.
Með tölvubréfi dags. 26. febrúar 2003 tilkynnti D f.h. gagnaðila að gagnaðilar myndu ekki koma athugasemdum á framfæri við nefndina. Á fundi nefndarinnar 15. apríl 2003 var málið tekið til úrlausnar.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 1-3, sem er tveggja hæða steinsteypt fjöleignarhús ásamt risi, alls fjórir eignarhlutar. Álitsbeiðandi er eigandi annarar hæðar X nr. 1, en gagnaðilar eigendur fyrstu hæðar X nr. 1. Ágreiningur er um hagnýtingu sameiginlegs þvottahúss.
Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera.
Að geymsla sem komið hefur verið fyrir í sameiginlegu þvottahúsi verði farlægð.
Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðanda hafi borist eignaskiptayfirlýsing fyrir húsið til undirritunar. Segist gagnaðili hins vegar ekki fallast á ákvæði hennar um að í sameignarrými allra/þvottaherbergi hafi verið komið fyrir millilofti sem eign 0101 hafi aðgang að. Um sé að ræða geymslu sem sett hafi verið upp nokkrum vikum áður en álitsbeiðandi hafi flutt inn í eignarhluta sinn. Hafi álitsbeiðanda verið tjáð af gagnaðilum að fyrr eigandi hafi gefið munnlegt samþykki sitt fyrir geymslunni. Bendir álitsbeiðandi hins vegar á að umræddrar geymslu sé ekki getið í kaupsamningi hans.
Telur álitsbeiðandi geymsluna rýra það pláss sem ætlað sé fyrir þvott og að ekki sé hægt að komast í hana án þess að færa til þvott sem hangi framan við hana.
Einnig telur álitsbeiðandi umrædda geymslu rýra verðgildi eignarhluta síns, vegna staðsetningar hennar og stærðar.
Í tölvubréfi gagnaðila taka þeir fram að þrátt fyrir að þeir kjósi að koma ekki athugasemdum á framfæri við nefndina felist ekki í því samþykki á kröfum álitsbeiðanda. Jafnframt óska gagnaðilar eftir því að nefndin taki málið til efnisumfjöllunar.
III. Forsendur
Samkvæmt ákvæðum 6. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, teljast allir þeir hlutar húss, bæði innan og utan, og lóðar í sameign sem ekki eru ótvírætt í séreign. Enn fremur segir í 6. tölul. 8. gr. sömu laga að til sameignar skv. 6. gr. teljist allt húsrými hverju nafni sem það nefnist, sem ekki telst séreign, svo sem gangar, stigar, geymslur, þvottahús og þurrkherbergi auk fleiri rýma. Bygging hins umdeilda millilofts teljist því framkvæmdir við sameign hússins.
Allir hlutaðeigandi eigendur eiga óskoraðan rétt á að taka þátt í öllum ákvörðunum er varða sameignina, bæði innan húss og utan, sbr. 39. gr. laga nr. 26/1994. Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skal taka sameiginlegar ákvarðanir á sameiginlegum fundi eigenda, húsfundi. Sé ákvörðun tekin án samráðs við alla eigendur eða án þess að öllum sé gefinn kostur á að vera með í ákvarðanatöku, getur sá aðili, sem ekki var með í ákvarðanatökunni, krafist þess að framkvæmd verði stöðvuð og neitað að greiða hlutdeild í kostnaði vegna hennar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laganna. Sé annmarki á ákvörðun húsfélags að þessu leyti er húsfélagið rétt að bæta úr eða staðfesta á öðrum fundi, sem skal haldinn svo fljótt sem kostur er, ákvörðun sem annmarki er á að þessu leyti. Sé það gert verður ákvörðun bindandi fyrir viðkomandi eiganda.
Ágreiningur er um milliloft sem gagnaðili hefur reist í sameiginlegu rými/þvottaherbergi undir stiga hússins. Óumdeilt er að ákvörðun um uppsetningu hins umdeilda millilofts var ekki tekin á löglega boðuðum húsfundi. Þegar af þeirri ástæðu er það álit kærunefndar að í ljósi ótvíræðra ákvæða 39. gr. laga nr. 26/1994, hafi gagnaðila verið óheimlit að setja upp milliloft í sameiginlegu rými/þvottahúsi.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að óheimilt hafi verið að setja upp milliloft í sameiginlegu rými/þvottahúsi.
Reykjavík, 15. apríl 2003
Valtýr Sigurðsson
Guðmundur G. Þórarinsson
Karl Axelsson