Hoppa yfir valmynd
8. ágúst 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðstefna um öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu 3. september

Skurðaðgerð undirbúin
Skurðaðgerð undirbúin

How safe are we er yfirskrift ráðstefnu sem Embætti landlæknis, Landspítali og velferðarráðuneytið standa fyrir 3. september næstkomandi í Hörpu. Fjallað verður um öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu í nútíð og framtíð frá ýmsum sjónarhornum. Aðalfyrirlesari er Sir Liam Donaldson, prófessor við Imperial College í Lundúnum. 

Sir Liam Donaldson hefur um langt skeið starfað að málefnum sem varða öryggi sjúklinga. Hann var formaður samtakanna World Alliance for Patient Safety sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin setti á fót árið 2004 og var landlæknir í Englandi árin 1998–2010. Árið 2007 var Sir Donaldson fyrirlesari á málþingi Embættis landlæknis um öryggi sjúklinga. Við það tækifæri undirritaði þáverandi heilbrigðisráðherra samkomulag um þátttöku Íslands í fjölþjóðlegu verkefni um hreinlæti og örugga heilbrigðisþjónustu (Clean Care is Safer Care) sem samtökin World Alliance for Patient Safety stóðu fyrir. Ísland var meðal fimmtíu annarra ríkja sem gerðust aðilar að verkefninu og tókust á hendur ákveðnar skuldbindingar um aðgerðir til að vinna að fækkun sýkinga sem eiga upptök sín í heilbrigðisþjónustu.

Ráðstefnan 3. september í Hörpu hefst með afhendingu ráðstefnugagna kl. 12.00. Að því búnu setur Leifur Bárðarson, settur landlæknir, ráðstefnuna með nokkrum orðum og Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra flytur ávarp. Sir Liam Donaldson, aðalfyrirlesari ráðstefnunnar, heldur tvö erindi. Í því fyrra ræðir hann um hvað felst í öruggri heilbrigðisþjónustu en síðara erindi hans fjallar um þróun heilbrigðisþjónustu að því er lýtur að öryggi sjúklinga í fortíð, nútíð og framtíð. Aðrir fyrirlesarar á ráðstefnunni eru Lára Scheving Thorsteinsson, verkefnisstjóri gæða og öryggis hjá Embætti landlæknis, Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar við Sjúkrahúsið á Akureyri, Anna Birna Jensdóttir, forstjóri hjúkrunarheimilisins Sóltúns í Reykjavík, Eyjólfur Þorsteinsson, stjórnarmaður í Félagi ungra lækna, og Andrés Ragnarsson sem flytur erindi frá sjónarhóli notenda.

Einnig flytja erindi á ráðstefnunni þau Sigurður Guðmundsson, sérfræðingur í lyflækningum og smitsjúkdómum, og Alma D. Möller, yfirlæknir gjörgæslu á Landspítala. Ráðstefnunni lýkur með samantekt dr. Guðmundar Þorgeirssonar, prófessors og forseta Læknadeildar Háskóla Íslands.

Hámarksfjöldi þátttakenda er 180. Ráðstefnan fer fram á ensku. Þátttökugjald er 6.500 krónur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta