Hoppa yfir valmynd
12. ágúst 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðherra heimsótti Vinnumálastofnun

Vinnumálastofnun
Vinnumálastofnun

Eygló Harðardóttir heimsótti Vinnumálastofnun síðastliðinn föstudag og ræddi um starfsemina og helstu verkefnin framundan við forstjóra og annað starfsfólk stofnunarinnar.

Á undanförnum árum hefur Vinnumálastofnun stýrt fjölmörgum stórum verkefnum þar sem markmiðið hefur verið að vinna gegn langtímaáhrifum atvinnuleysis og halda sem flestum í virkni og vinnu. Sérstaklega hefur verið lögð áhersla á virkni ungs fólks og fólks sem á skamma skólagöngu að baki. Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, sagði á fundi með ráðherra að verkefnin hafi skilað góðum árangri og reynst atvinnuleitendum mikilvæg til að viðhalda færni og styrkja stöðu sína til lengri tíma litið á vinnumarkaði. Nú er unnið að því að taka saman skýrslu um árangur vinnumarkaðsaðgerða fyrir ungt fólk frá árinu 2009 sem lögð verður fram á Alþingi í haust.

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Verulega hefur dregið úr atvinnuleysi frá því að það var mest og skráðum atvinnuleitendum hjá Vinnumálastofnun fækkar stöðugt. Gissur segir að þótt atvinnuleysi sé með minnsta móti verði að hafa í huga að um hver mánaðamót missi 100–130 einstaklingar rétt til atvinnuleysisbóta og verði þá að leita til sveitarfélaga þurfi þeir aðstoð vegna framfærslu. Þetta fólk er ekki inni í atvinnuleysistölum Vinnumálastofnunar. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir mikilvægt að huga að stöðu þeirra sem glíma við langtímaatvinnuleysi og læra af erfiðri reynslu síðusta ára.  Fram kom í máli Gissurar að Vinnumálastofnun leggur nú áherslu á samstarf við ýmsa aðila sem komið geta til móts við þennan hóp með starfsendurhæfingu og ýmsum hvatningaraðgerðum.

Vinnumálastofnun fer með yfirstjórn vinnumiðlunar og annast alla umsýslu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Stofnunin rekur átta þjónustuskrifstofur um allt land, auk þriggja útibúa þar sem veitt er öll almenn þjónusta við atvinnuleitendur, séð um skráningu, mat á færni, veitt ráðgjöf og úrræði fyrir atvinnuleitendur auk vinnumiðlunar, og sinnt samvinnu við aðra þjónustuaðila um úrræði og vinnumarkaðsaðgerðir. Vinnumálastofnun heldur meðal annars skrá yfir laus störf í landinu, annast vinnumiðlun, heldur skrá yfir atvinnuleitendur, reiknar út og greiðir atvinnuleysisbætur, skipuleggur vinnumarkaðsúrræði, svo sem námskeið, ráðgjöf, nám fyrir atvinnuleitendur og atvinnutengd vinnumarkaðsúrræði. Stofnunin fylgist með samsetningu vinnuafls, kannar mannaflaþörf og framtíðarhorfur í atvinnugreinum og miðlar upplýsingum um stöðu þessara mála. Auk þessa sér stofnunin um útgáfu atvinnuleyfa og skráningu útlendinga á íslenskum vinnumarkaði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta