Vernduð í raun? Réttindi barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi
Í hádeginu á morgun, þriðjudag, 20. mars, verður ný skýrsla UNICEF um stöðu barna sem sækja um alþjóðlega vernd kynnt í Norræna húsinu á milli 12:00 og 13:15. Um er að ræða opinn fund á vegum UNICEF á Íslandi og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.
Skýrslan, sem ber heitið „Vernduð í raun? Greining á viðbrögðum Norðurlanda við umsóknum barna um alþjóðlega vernd“, greinir stöðu barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Norðurlöndunum, þar á meðal á Íslandi. Skýrslan byggir á viðtölum sem tekin voru við lykilaðila á þessum vettvangi og greiningu á löggjöf ríkjanna. Það voru landsnefndir UNICEF á Norðurlöndunum sem stóðu að rannsókninni og sá Innocenti, rannsóknarmiðstöð UNICEF, um framkvæmd hennar. Skýrslunni fylgja tillögur um umbætur til Norðurlandanna sem heild og til einstakra ríkja.
Hver er tilgangur skýrslunnar?
Norðurlöndin hafa lengi verið talin til fyrirmyndar þegar kemur að móttöku barna sem sækja um alþjóðlega vernd. Hröð fjölgun flóttafólks í Evrópu leiddi hins vegar til breytinga á kerfum ríkjanna og er tilgangur skýrslunnar að leiða í ljós hver staða barnanna er nú og hvernig réttindi barna eru uppfyllt í raun. Í ljós kom að ekkert ríkjanna stenst fyllilega alþjóðlegar og innlendar skuldbindingar um að tryggja réttindi barna í leit að vernd, þar á meðal Ísland.
UNICEF vinnur að því að tryggja réttindi allra barna. Skýrslan helst í hendur við alþjóðlegt ákall UNICEF um aðgerðir til að tryggja öryggi allra barna á flótta og í leit að alþjóðlegri vernd.
Skýrslunni fylgja ítarlegar tillögur um hvað þurfi að bæta í móttöku barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi.
Hvað gerist á viðburðinum?
12:00 – 12:20 Eva Bjarnadóttir, sérfræðingur UNICEF á Íslandi, kynnir helstu niðurstöður skýrslunnar.
12:20 – 12:30 Ísold Uggadóttir, leikstjóri, talar um reynslu sína við gerð myndarinnar Andið eðlilega
12:30 – 13:00 Pallborðsumræður með fulltrúum frá Rauða krossi Íslands, Útlendingastofnun, Barnaverndarstofu og UNICEF.
UNICEF mun síðan afhenda fulltrúa stjórnvalda þessar tillögur og krefjast umbóta.