Hoppa yfir valmynd
5. mars 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 65/2001

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 65/2001

 

Ákvarðanataka: Eignaskiptayfirlýsing.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 20. nóvember 2001, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 27. desember 2001. Samþykkt var að gefa gagnaðilum kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Greinargerð gagnaðila, ódagsett, sem barst kærunefnd 17. janúar 2002, var lögð fram á fundi nefndarinnar í dag 5. mars og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fasteignina X nr. 5. Húsið er tvílyft, skiptist í hæð og ris og eru tvær íbúðir í húsinu, önnur á hæð og hin í risi. Ágreiningur er um gerð eignarskiptayfirlýsingar og skiptingu kostnaðar vegna hennar.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að greiða kostnað til jafns við álitsbeiðanda vegna gerðar eignaskiptayfirlýsingar fyrir fasteignina X nr. 5.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að á vordögum 2001 hafi álitsbeiðandi ákveðið að selja risíbúð sína að X nr. 5. Vegna sölunnar var álitsbeiðandi krafinn um eignaskiptayfirlýsingu sem við nánari eftirgrennslan reyndist ekki vera til. Í álitsbeiðni greinir enn fremur að í kjölfar þessa hafi álitsbeiðandi farið á fund gagnaðila og rætt við hann um gerð eignaskiptayfirlýsingar. Eftir umhugsun hefði gagnaðili svo fallist á málaleitan álitsbeiðanda, enda hefðu þeir haldið að til væru haldbærar teikningar af húsinu. Samkvæmt álitsbeiðni tókst álitsbeiðanda hins vegar ekki að hafa upp á umræddum teikningum og fól hann því verkfræðistofu að annast gerð eignaskiptayfirlýsingar og gerð teikninga fyrir fasteignina X nr. 5.

Í greinargerð sinni mótmælir gagnaðili að honum beri að greiða fyrir gerð umræddrar eignaskiptayfirlýsingar. Annars vegar sökum þess hvernig staðið var að ákvarðatöku um gerð hennar og hins vegar vegna annmarka sem hann telur vera á henni. Gagnaðili telur verulega ágalla á ákvörðunartöku um gerð eignaskiptayfirlýsingarinnar. Gagnaðili heldur því fram að aldrei hafi verið haft samband við hann vegna fyrrnefndrar vinnu við gerð eignaskiptayfirlýsingarinnar eða teikningavinnu og að hann hafi fyrst séð drög af eignaskiptayfirlýsingunni þegar hann var beðinn um að undirrita hana. Gagnaðili bendir einnig á að aldrei hafi verið leitað til hans um skoðun á eign hans. Í bréfi gagnaðila til álitsbeiðanda, dags. 30. október 2001, féllst gagnaðili hins vegar á að hafa undirritað skjal um staðfestingu á eignarmörkum íbúðanna tveggja.

Gagnaðili kveðst reiðubúin að taka þátt í kostnaði við gerð eignaskiptayfirlýsingar sem unnin yrði af öðrum aðilum. Gagnaðili telur ekki vera ágreining um á eignarrétt á húsinu enda sé fasteignin X nr. 5, 1. hæð, þinglýst eign hans og eignarréttur hans sé ótvíræður.

 

III. Forsendur

Af málavöxtum má ráða að aðila greinir á um hvort sameiginleg ákvörðun hafi verið tekin af hálfu húseigenda að X nr. 5 um gerð eignaskiptayfirlýsingar fyrir fasteignina.

Í 4. mgr. 39. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994, kemur fram sú meginregla að sameiginlegar ákvarðanir eigenda fjöleignarhúss skuli teknar á sameiginlegum fundi eigenda, húsfundi. Sé ákvörðun tekin án samráðs við aðra eigendur, eða án þess að þeim sé gefinn kostur á að taka þátt í ákvarðanatöku geti eigandi krafist þess að framkvæmd verði stöðvuð og neitað að greiða hlutdeild í kostnaði vegna hennar, sbr. 2. mgr. 40. gr. fjöleignarhúsalaga. Með hliðsjón af gögnum málsins þykir kærunefnd álitsbeiðandi ekki hafa sýnt fram á, gegn mótmælum gagnaðila, að ákvörðun um að ráðast í gerð eignaskiptayfirlýsingar hafi verið tekin með lögmætum hætti. Þar af leiðandi gafst gagnaðila ekki færi á að gæta hagsmuna sinna við hana. Þar sem ranglega var staðið að ákvarðanatöku um gerð umræddar eignaskiptayfirlýsingar gagnvart gagnaðila að þessu leyti, verður að telja að gagnaðila sé rétt að neita greiðslu kostnaðar við þær.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda um að gagnaðila beri að taka þátt í kostnaði vegna gerðar eignaskiptayfirlýsingar.

 

 

Reykjavík, 5. mars 2002

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta