Nr. 92/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 2. apríl 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 92/2020
í stjórnsýslumáli nr. KNU19100042
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 15. október 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Bangladess (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. september 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 7. mars 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 7. ágúst 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 29. október 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 15. október 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum þann 29. október 2019. Í greinargerð óskaði kærandi eftir því að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa honum kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana sinna.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fæddur og uppalinn í [...] og en hafi búið í höfuðborginni Dhaka fyrir flótta hans frá landinu. Kærandi hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að ástæða flótta hans frá heimaríki sé ótti hans við ofsóknir vegna pólitískra skoðana sinna og telji hann að hann sé í minnihlutahópi í heimaríki vegna þeirra skoðana. Kærandi hafi lýst því að í heimaríki hans hafi hann tekið þátt í mótmælum, undirbúningi kosningabaráttu og öðru starfi í þágu stjórnmálaflokksins [...]. Þá hafi kærandi lýst ofsóknum gegn sér af hálfu [...] sem [...] stjórnmálaflokkur í landinu. Ráðist hafi verið á kærandi árið 2009 þegar hann hafi verið á samkomu á vegum [...] flokksins og beri hann enn þann dag í dag ör á líkama eftir árásina. Kærandi hafi um tíma hætt öllum afskiptum af stjórnmálum en leiðtogar [...] flokksins hafi stöðugt reynt að fá hann til að koma á samkomur flokksins og taka þátt í starfi flokksins. Árið 2018 hafi kærandi mætt á samkomu á vegum flokksins í [...] og hafi menn á vegum [...] ráðist á samkomugesti og hafi tveir verið drepnir. Kærandi hafi þá flúið til höfuðborgarinnar Dhaka þar sem hann hafi verið búsettur. Kærandi hafi síðar heyrt af því að [...] flokkurinn hygðist hefja málarekstur á hendur nokkrum stuðningsmönnum [...] flokksins, þar á meðal kæranda, en hann sé númer fimm á lista yfir þá einstaklinga. Hafi kærandi orðið mjög hræddur um líf sitt og fjölskyldu sinnar. Frændi kæranda hafi tjáð honum að hann eigi á hættu lífstíðarfangelsi. Kærandi telji að sonur forseta Bangladesh hafi verið valdur að því að hann hafi farið á listann þar sem kærandi hafi í starfi sínu fyrir góðgerðarstofnun undir yfirstjórn sonar forsetans orðið vitni að spillingu sonarins. Kærandi hafi einnig greint frá því að hafa átt vini og frænda sem hafi verið teknir af lífi af [...]. Kærandi hafi ekki leitað aðstoðar lögreglu í heimaríki vegna vandamála sinna þar sem lögreglan tilheyri sömu yfirvöldum og hann óttist.
Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður og stöðu mannréttindamála í heimaríki hans og vísar kærandi til alþjóðlegra skýrslna sem hann telji að styðji mál sitt. Meðal annars komi fram í skýrslunum að alvarlegustu mannréttindabrotin í Bangladess séu ólögmæt og handahófskennd manndráp, brottnám á fólki, ólögmætar varðhaldsvistir, handahófskennd og ólögmæt inngrip í einkalíf borgara landsins, ritskoðun og veruleg inngrip stjórnvalda í funda- og félagafrelsi. Þá fremji öryggissveitir ýmiskonar mannréttindabrot í skjóli refsileysis. Þá komi einnig fram í skýrslunum að [...] flokkurinn hafi sölsað undir sig pólitísk völd með áreiti gegn stjórnarandstöðunni. Jafnframt sé spilling alvarlegt vandamál í landinu og sé algengt að opinberir embættismenn gerist sekir um spillingu í skjóli refsileysis.
Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Kærandi byggir kröfu sína um alþjóðlega vernd á því að hann hafi stjórnmálaskoðanir sem séu yfirvöldum í heimaríki ekki þóknanlegar. Kærandi hafi tengsl við stjórnmálaflokkinn [...] sem sé í stjórnarandstöðu. Kærandi hafi tekið þátt í mótmælum gegn yfirvöldum, m.a. á samkomu [...] þar sem stjórnarflokkurinn [...] hafi ráðist gegn meðlimum [...], þ.m.t. kæranda sjálfum. Þá hafi kærandi upplýsingar um að hann sé á lista yfir einstaklinga sem yfirvöld í Bangladess hyggjast beita sér gegn og telur kærandi að hann kunni eiga yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. Í samræmi við 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga telur kærandi að því sé um að ræða löggjöf og aðgerðir stjórnvalda, lögreglu og dómsvalda sem feli í sér mismunun að efni og vegna þess hvernig þær séu framkvæmdar, saksókn og refsingu sem sé óhófleg og mismuni einstaklingum á ómálefnalegum grundvelli. Jafnframt hafi kærandi greint frá því að ljósmynd af honum hafi birst í fjölmiðlum þar sem sjá megi hann taka þátt í aðgerðum gegn yfirvöldum. Þá viti sonur forsetans hver kærandi sé enda hafi kærandi unnið fyrir hann persónulega og orðið vitni að spillingu af hans hálfu. Með vísan til framangreinds telur kærandi að e-liður 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga eigi við í hans máli.
Þá telur kærandi að ljóst sé að aðgerðir þær sem yfirvöld í heimaríki hafi gripið til gegn honum feli í sér ofsóknir samkvæmt skilgreiningu 1. og 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi orðið fyrir alvarlegum líkamsárásum vegna stjórnmálaþátttöku sinnar og beri enn þann dag í dag áverka eftir þær.
Til stuðnings framangreindu er í greinargerð jafnframt vísað til a-c liða 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga hvað varði nánari skilgreiningu á því hverjir geti verið valdir að ofsóknum skv. 37. gr. laganna. Kærandi telur að leggja skuli til grundvallar í málinu að þeir sem hann óttist falli undir ákvæði a-liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga þar sem hann óttist ofsóknir yfirvalda í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana sinna. Kærandi telur að með vísan til alls sem að framan hafi verið rakið, frásagnar hans, framlagðra sönnunargagna og tilvísaðra heimilda að ótti hans við ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana hans sé ástæðuríkur og þ.a.l. geti hann ekki leitað til þeirra eftir vernd. Kærandi telur einnig að ótti hans við ofsóknir í heimaríki sé ástæðuríkur þar sem heimildir um ástand mannréttindamála í Bangladess beri með sér að þarlend yfirvöld beiti sér af mikilli hörku gegn þeim einstaklingum sem þau telji að séu andsnúnir yfirvöldum.
Kærandi telur að með endursendingu hans til Bangladess yrði brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr.68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.
Til vara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir kröfu um viðbótarvernd á því að ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki. Kærandi telur að hann hafi sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir slíkri meðferð og þá bendi heimildir um aðstæður í Bangladess að einstaklingar sem þarlend yfirvöld telji andsnúna sér verði fyrir slíkri meðferð. Þá hafi kærandi greint frá því að hann óttist að yfirvöld í heimaríki muni setja hann í fangelsi, en samkvæmt heimildum séu aðstæður í fangelsum í Bangladess oft og tíðum lífshættulegar.
Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Heimilt sé samkvæmt ákvæðinu að veita útlendingi dvalarleyfi á þeim grundvelli ef hann sé staddur hér á landi og geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra eða almennra aðstæðna viðkomandi í heimaríki. Með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og sérstaklega tekið sem dæmi viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi vísar til þess að andleg heilsa hans sé mjög slæm og geti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir stöðu hans í heimaríki en samkvæmt heimildum sé geðheilbrigðisþjónusta þar í landi og aðgengi að henni ófullnægjandi og standi einstaklingar sem glími við geðræn vandamál frammi fyrir miklum fordómum og mismunun. Kærandi vísar til þess að í máli hans liggi fyrir að hann hafi verið lagður inn á bráðaþjónustu geðsviðs og hann metinn í bráðri sjálfsvígshættu. Kærandi hafi verið í sálfræðimeðferð hér á landi og hafi líðan hans batnað nokkuð eftir að liðið hafi á þá meðferð en versnað eftir að niðurstaða hafi legið fyrir í máli hans hjá Útlendingastofnun. Kærandi telur að ástæða sé til að leggja ítarlegra mat á andlegt ástand hans. Í greinargerð er vísað til þess að starfsmenn Rauða krossins telji að kærandi hljóti að bera greinanlegt tjón vegna áfalla sem hann hafi orðið fyrir en séu ekki nefnd með beinum hætti í þeim gögnum sem liggi fyrir í máli hans. Kærandi telji ljóst að hann hafi þörf fyrir mikla og viðvarandi sálfræðiþjónustu.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað bangladessku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé bangladesskur ríkisborgari.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Bangladesh m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- Annual Human Rights Report on Bangladesh 2018 (Odihikar, 8. ágúst 2019);
- Amnesty International Report 2017/2018: Bangladesh (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
- Bangladesh Health System Review (World Health Organization, 2015);
- Bangladesh Health Sector and public health services (Landinfo, 20. júní 2014);
- Bangladesh - Mänskliga rättigheter, demokrati och rättstatens principer: situationen per den 31 december 2018 (Utrikesdepartimentet, 18. júní 2019);
- Bangladesh Corruption Report (GAN Business Anti-Corruption Portal, maí 2018);• BTI 2018 Country Report – Bangladesh (Bertelsmann Stiftung´s Transformation Index, 2018);
- Country Reports on Human Rights Practices for 2018 – Bangladesh (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
- Country Information Note Bangladesh: Medical and Healthcare issues (UK Home Office, maí 2019);
- Country Policy and Information Note Bangladesh: Background information including actors of protection and, internal relocation (UK Home Office, janúar 2018);
- Country Policy and Information Note Bangladesh: Opposition to the government (UK Home Office, janúar 2018);
- DFAT Country Information Report Bangladesh (Australian Government, Department of Foreign Affairs and Trade, 2. febrúar 2018);
- DFAT Country Information Report Bangladesh - updated (Australian Government, Depart-ment of Foreign Affairs and Trade, 22. ágúst 2019);
- EASO Country of Origin Report – Bangladesh Security Situation (EASO, desember 2017);• Human Right in Asia-Pacific; Review of 2019 – Bangladesh (Amnesty International, 30. janúar 2019);
- Freedom in the World 2019 – Bangladesh (Freedom House, 4. febrúar 2019);
- Mental Health Atlas 2017 - Bangladesh Country Profile (World Health Organization, 2018);
- Overview of corruption and anti-corruption in Bangladesh Transparency International, 15. febrúar 2019);
- The World Factbook. Europe: Bangladesh (Central Intelligence Agency, 19. júní 2018) og
- World Report 2020 – Bangladesh (Human Rights Watch, 7. febrúar 2020).
Bangladess er stjórnarskrábundið lýðveldi með rúmlega 163 miljónir íbúa. Bangladess varð sjálfstætt ríki árið 1971. Þann 17. september 1974 gerðist Bangladess aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1998. Bangladess fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 2000. Bangladess, sem er aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, hefur ekki enn staðfest flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna frá 1951, sbr. einnig bókun við samninginn frá 31. janúar 1967.
Í ofangreindum gögnum kemur fram að stjórnarskrá Bangladess verndi ýmis mannréttindi, svo sem réttinn til lífs og friðhelgi einkalífsins, félagafrelsis og tjáningarfrelsis. Hins vegar kemur fram í ofangreindum skýrslum, svo sem skýrslu Amnesty International fyrir árið 2018, að stjórnvöld hafi notað ný samþykkt lög, Digital Security Act, til að takmarka tjáningarfrelsi borgaranna og áreita og þagga niður í blaðamönnum, aðgerðarsinnum og öðrum málsvörum mannréttinda. Hafi slíkt atferli stjórnvalda haldið áfram árið 2019 samkvæmt skýrslu Human Rights Watch. Framangreind lög heimili lögreglunni að handtaka einstaklinga sem gagnrýni stjórnvöld á vefnum. Samkvæmt skýrslu Amnesty International fyrir árið 2018 hafi rétturinn til að koma saman á friðsamlegan hátt einnig verið skertur verulega af stjórnvöldum og hafi í mörgum tilvikum verið komið í veg fyrir kosningafundi stjórnarandstæðinga.
Fram kemur í ofangreindum gögnum að allt frá því að Bangladess varð sjálfstætt ríki hafi stjórn landsins skipst á milli tveggja þingflokka, Awami League flokksins og Bangladesh National Party (hér eftir BNP flokkurinn). Hafi stjórn landsins verið í höndum Awami League flokksins frá árinu 2009, undir forystu Sheikh Hasina. Í alþingiskosningum árið 2014 hafi BNP flokkurinn sniðgengið kosningarnar en í kosningunum í desember 2018 hafi flokkurinn tekið þátt og hlotið 14 sæti á þinginu en Awami League hafi tryggt sér yfirgnæfandi meirihluta þingsæta. Í skýrslunum kemur fram að mikil átök hafi verið í aðdraganda kosninganna árið 2018 og í kjölfar þeirra hafi stjórnarandstæðingar haldið því fram að kosningarnar hafi verið ólögmætar. Samkvæmt ofangreindri skýrslu Human Rights Watch hafi stjórnvöld í landinu hunsað ákall Evrópusambandsins um að láta fara fram sjálfstæða rannsókn á ásökunum um kosningasvindl í framangreindum kosningum en Awami League haldi enn um stjórnartaumanna. Í ofangreindri skýrslu ástralskra útlendingamálayfirvalda (DFAT) kemur hins vegar fram að ástandið í Bangladess í kjölfar alþingiskosninganna 2018 hafi verið tiltölulega friðsælt miðað við hvernig það hafi verið í kjölfar kosninganna sem farið hafi fram árið 2014, en átökin þá hafi verið þau ofbeldisfyllstu í sögu landsins.
Ráða má af framangreindum gögnum að spilling sé mikið vandamál í Bangladess, þar á meðal í löggæslu- og réttarkerfinu. Þrátt fyrir að bangladessk lög kveði á um sjálfstætt dómskerfi, réttláta málsmeðferð og að enginn skuli sviptur lífi, eignum eða frelsi án dóms, þá hafi dómskerfið verið gagnrýnt fyrir spillingu. Dómsmál taki afar langan tíma og dómskerfið sé viðkvæmt fyrir þrýstingi frá stjórnvöldum. Fram kemur í ofangreindri skýrslu Amnesty International fyrir árið 2017 að áhyggjur hafi aukist vegna aukinna afskipta stjórnvalda af réttarkerfinu. Samkvæmt skýrslu Freedom House fyrir árið 2018 sæti dómarar pólitískum þrýstingi í störfum sínum og einstaklingar sem séu hliðhollir Awami League séu skipaðir í stöður innan dómsstólanna. Í ofangreindri mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að löggæslumál og lögreglan í Bangladess heyri undir Innanríkisráðuneytið en bangladesski herinn sæki valdheimildir sínar til forsætisráðherra. Þá kemur fram að starfandi séu í landinu tvær leyniþjónustur; The Directorate General of Forces (DGFI) og National Security Intelligence (NSI). Leyniþjónusturnar beri báðar ábyrgð á bæði innanlands- og utanríkismálum.
Samkvæmt skýrslu UK Home Office Country Policy and Information Note Bangladesh: Opposition to the government eigi venjulegir meðlimir og stuðningsmenn stjórnarandstöðuflokkanna almennt ekki á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda eða annarra aðila. Þrátt fyrir að heimildir séu um áreiti og ógnanir af hálfu lögreglu og öryggissveita þá séu þær athafnir ekki nægjanlega alvarlegar í eðli sínu þannig að þær jafngildi ofsóknum. Þá kemur fram í skýrslunni að ofbeldi á pólitískum grunni eigi sér aðallega stað milli stjórnarflokksins Awami League, BNP flokksins og stuðningsmanna Jamaat-e-Islami, einkum eigi átök og ofbeldisverk sér stað í aðdraganda lands- og sveitarstjórnarkosninga í landinu. Þá hafi flest dauðsföll átt sér stað í átökum milli pólitískra baráttumanna flokkanna og hafi fjöldi slasaðra og látinna tilheyrt stúdentavæng aðalflokkanna.
Í ofangreindri skýrslu UK Home Office um heilbrigðismál kemur fram að stjórnarskrá Bangladess kveði á um að stjórnvöld landsins séu ábyrg fyrir því að tryggja að landsmenn hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt skýrslunni séu yfir 600 spítalar í landinu en hins vegar sé verulegur skortur á sérfræðimenntuðu heilbrigðisstarfsfólki. Þá þurfi fólk af landsbyggðinni að nálgast sérþjónustu í stærri borgum landsins. Fari einkareknum heilbrigðisfyrirtækjum fjölgandi á þéttbýlissvæðum en þjónusta þeirra er hins vegar aðeins aðgengileg fyrir þá einstaklinga sem séu fjárhagslega vel stæðir. Í ofangreindri skýrslu ástralskra útlendingamálayfirvalda (DFAT) kemur fram að aðgengi að aðstoð fyrir þá sem þurfa á geðheilbrigðisþjónustu sé af skornum skammti. Samkvæmt framangreindri UK Home Office skýrslu sé háskólaspítali sem sérhæfi sig í geðheilbrigðismálum og rannsóknum á því í Dhaka, í honum sé aðstaða fyrir 200 legusjúklinga og sé þjónustan sem í boði sé gjaldfrjáls eða á hagstæðu verði. Þá geti landsmenn einnig nálgast sálfræðiþjónustu á einkareknum stofum.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi byggir kröfu sína um alþjóðlega vernd á því að hann óttist ofsóknir í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana sinna.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann hafi farið á fjöldafund í borginni [...] í aðdraganda kosninganna árið 2018 og hafi aðilar á vegum [...] ráðist á fundargesti og hafi tveir einstaklingar látist í þeirri árás. Kærandi hafi ekki særst í þessum átökum en flúið til höfuðborgarinnar Dhaka. Í kjölfarið hafi kærandi frétt af því frá fólki í [...] að stjórnvöld hafi sett hann á lista yfir einstaklinga sem þau ætluðu sér að lögsækja og væri kærandi fimmti á þeim lista. Síðar í viðtalinu kvaðst kærandi telja að sonur forseta [...] hafi sett nafn hans á þennan lista. Kærandi telji að sonur forsetans hafi sett hann á listann vegna þess að þeir hafi átt í ágreiningi þegar kærandi hafi starfað undir hans stjórn á augnspítala í sex ár þar sem kærandi hafi neitað að aðstoða hann við að draga að sér fé. Kærandi kvaðst aðspurður vera hræddur við son forsetans, lögreglu og stjórnvöld í heimaríki.
Með fyrirspurn í tölvupósti til talsmanns kæranda þann 17. febrúar 2020 óskaði kærunefnd eftir því að kærandi legði fram gögn um tengsl sín við son forsetans, samstarf þeirra og nafn sonarins. Þá óskaði kærunefnd einnig eftir því að kærandi legði fram upplýsingar um lista stjórnvalda sem hann kvaðst hafa upplýsingar um að vera á og/eða gögn um tilvist þessa lista. Í svari talsmanns kæranda sem barst þann 19. febrúar 2020 var greint frá því að umræddur sonur forsetans heiti [...] og þá voru raktar ástæður þess að sonurinn hafi komið því til leiðar að kærandi yrði settur á lista stjórnvalda. Sama dag sendi kærunefnd fyrirspurn til talsmann kæranda og ítrekaði fyrirspurn sína um það hvort kærandi gæti lagt fram gögn til stuðnings málatilbúnaði sínum. Þann 21. febrúar 2020 barst svar frá talsmanni kæranda og kom fram að kærandi gæti ekki aflað gagna frá heimaríki sínu. Kærunefnd hefur við meðferð málsins ekki fundið upplýsingar eða gögn sem styðja við frásögn kæranda m.a. um þau góðgerðastamtök sem kærandi kveðst hafa unnið hjá í sex ár, um tengsl sonar forsetans við góðgerðasamtök sem rekið hafi augnspítala í Bangladess eða lista stjórnvalda um einstaklinga sem þau hafi í hyggju að saksækja.
Í gögnum málsins liggja fyrir afrit af tveimur umsóknum kæranda um dvalarleyfi hér á landi vegna náms. Annars vegar er um að ræða umsókn vegna náms í [...], dags. 1. ágúst 2017, og hins vegar umsókn vegna náms í [...], dags. 3. maí 2018. Í báðum umsóknunum og fylgiskjölum með þeim má sjá að kærandi kveðst vera ógiftur og barnlaus og vera búsettur í [...] í Bangladess. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun vegna umsóknar hans um alþjóðlega vernd kvaðst kærandi hins vegar eiga eiginkonu og tvö börn og að hann hafi verið búsettur í Dhaka. Með fyrirspurn þann 17. febrúar 2020 óskaði kærunefnd eftir skýringum á þessu misræmi í upplýsingagjöf um fjölskylduhagi og búsetu. Í svari sem barst frá talsmanni kæranda 19. febrúar 2020 kom fram að skýringin á misræminu væri sú að umboðsmaður á vegum föður hans hafi fyllt út umsóknirnar fyrir hann og kærandi hafi einungis undirritað þær. Kærunefnd fellst ekki á framangreinda skýringu kæranda á misræmi í upplýsingagjöf hans til íslenskra stjórnvalda. Þrátt fyrir að lagt yrði til grundvallar að umboðsmaður hafi fyllt út námsmannaleyfisumsóknir hans þá ber kærandi samt sem áður ábyrgð á því að upplýsingar sem veittar voru á umsóknunum væru réttar, en með undirritun sinni á umsóknirnar lýsti kærandi því yfir að upplýsingar sem hann hafi gefið íslenskum stjórnvöldum væru réttar. Það liggur því fyrir að kærandi hafi við umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi gefið íslenskum stjórnvöldum upplýsingar um sig sem stangast á við upplýsingar sem hann hefur áður gefið stjórnvöldum. Megi líta svo á að um sé að ræða þriðju söguna frá kæranda sem hann auk þess hefur ekki getað stutt með haldbærum gögnum. Það er mat kærunefndar að fyrri villandi upplýsingagjöf kæranda til íslenskra stjórnvalda dragi verulega úr trúverðugleika frásagnar hans og að gera verði strangari kröfur til sönnunar á þeirri frásögn sem hann ber núna fyrir sig. Eins og áður sagði hefur kærandi ekki stutt nýjustu frásögn sína með gögnum og kærunefnd hefur ekki fundið við sína rannsókn upplýsingar eða gögn sem renna stoðum undir frásögn kæranda af aðstæðum hans og þeirri hættu sem hann kveðst vera í.
Með vísan til framangreinds, þ.m.t. villandi upplýsingagjafar til íslenskra stjórnvalda, og í ljósi þess að kærandi hefur engin gögn lagt fram til að styðja við málatilbúnað sinn er það mat kærunefndar að frásögn kæranda um að hann sé á lista stjórnvalda í Bangladess yfir einstaklinga sem stjórnvöld vilji lögsækja og að sonur forsetans hafi komið því til leiðar að kærandi yrði settur á þennan lista vegna óuppgerða saka þeirra á milli sé ótrúverðug með öllu og verður ekki lögð til grundvallar við úrlausn málsins.
Kærunefnd telur ekki ástæðu til að draga í efa að kærandi styðji stjórnmálaflokkinn [...] og kunni að hafa tekið þátt í mótmælum eða fjöldasamkomum á vegum flokksins árið 2009 og 2018. Í ofangreindum gögnum kemur fram að stjórnvöld hafi leyst upp samkomur á vegum [...] flokksins, einkum hafi stjórnvöld verið aðgangshörð í aðdraganda [...]. Það verður hins vegar ekki ráðið af ofangreindum skýrslum að óbreyttir borgarar sem séu stuðningsmenn stjórnarandstöðuflokkanna í Bangladess eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum stjórnvalda þar í landi, en það séu einkum háttsettir einstaklingar innan [...] flokksins og opinberir baráttumenn gegn stjórnvöldum sem verði fyrir áreiti og séu undir smásjá stjórnvalda. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að hann sé á einhvern hátt eða af öðrum ástæðum útsettari fyrir áreiti vegna stjórnmálaskoðana en aðrir ríkisborgarar í heimaríki hans í sambærilegri stöðu. Kærunefnd telur gögn málsins að öðru leyti ekki benda til þess að kærandi eigi á hættu ofsóknir af því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.
Kærandi hefur byggt umsókn sína um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á því að andleg heilsa hans sé verulega slæm og að hann þurfi á viðvarandi sálfræðimeðferð að halda sem hann muni ekki fá í heimaríki. Í gögnum málsins eru læknabréf frá geðlæknasviði Landspítalans, dags. 3. október 2019 og og vottorð frá sálfræðingi hjá Domus Mentis, dags. 22. október 2019. Fram kemur m.a. í læknabréfinu að kærandi hafi lagst sjálfviljugur inn á geðdeild og hafi í kjölfarið verið [...]. Hafi kærandi verið undir eftirliti þar í tvo sólarhringa. Við útskrift hafi ekki verið hafin nein lyfjameðferð þar sem líðan hans hafi verið talin stafa af krísu fremur en sjúkdómi. Í vottorði sálfræðingsins kemur fram að kærandi hafi komið í tvö sálfræðiviðtöl síðan hann hafi útskrifast af innlögn á geðdeild. Kæranda líði örlítið betur en enn séu depurðar- og kvíðaeinkenni til staðar. Engin frekari gögn um andlega heilsu kæranda voru lögð fram í málinu þrátt fyrir leiðbeiningar kærunefndar þess efnis. Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar er ljóst að geðheilbrigðisþjónusta hafi mætt afgangi í heimaríki kæranda og að fordómar ríki í garð einstaklinga með geðraskanir. Þrátt fyrir það þá kemur fram í þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar um heimaríki kæranda að íbúum landsins standi geðheilbrigðisþjónusta, svo sem sálfræðiþjónusta, til boða. Samkvæmt gögnum málsins eru andleg vandamál kæranda ekki svo alvarleg að þau geti talist grundvöllur dvalarleyfis af mannúðarástæðum. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að kærandi sæki meðferð hér á landi sem ekki sé læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa.
Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærandi kom hingað til lands 7. mars 2019 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærandi er við ágæta líkamlega heilsu en glímir við kvíða og andlega vanlíðan. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.
Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Bjarnveig Eiríksdóttir Þorbjörg Inga Jónsdóttir