Hoppa yfir valmynd
10. september 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 275/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 275/2020

Fimmtudaginn 10. september 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. júní 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. apríl 2020, um að hafna umsókn hans um greiðslur atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 26. mars 2020. Kærandi hafði áður þegið atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun og í október 2019 hafði hann fullnýtt bótatímabil sitt. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 22. apríl 2020, var umsókn kæranda hafnað á þeirri forsendu að hann hafi fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta, sbr. 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 13. maí 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. júní 2020. Með bréfi, dags. 9. júní 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 2. júlí 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. júlí 2020, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 18. júlí 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. júlí 2020, voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að kærandi sé ósáttur við niðurstöðu Vinnumálastofnunar um að hann hafi fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta með vísan til 29., 30. og 31. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi hafni því og vísar til þess að stofnuninni hafi láðst að skoða ný lög frá 21. mars 2020 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Þar sé skýrt tekið fram að framangreind ákvæði eigi ekki við, sbr. 5. mgr. 1. gr. en þar segi: „Heimilt er að greiða bætur samkvæmt þessu ákvæði þótt launamaður teljist ekki tryggður í skilningi laganna, svo sem vegna náms, sbr. 52. gr., eða skilyrða um ávinnslutímabil, sbr. 15. gr., enda sé skilyrðum ákvæðisins fullnægt.“

Kærandi teljist ekki tryggður í skilningi laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og það sé óumdeilt. Hins vegar sé með lagasetningu frá 21. mars 2020 heimilt að greiða bætur þó að launamaður teljist ekki tryggður. Engar undantekningar varðandi þetta séu í þessum nýju lögum. Vísað sé til 15. gr. laganna er fjalli um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna og að sú grein eigi ekki við. Því eigi 29., 30. og 31. gr. síður við, enda sé í niðurlagi þeirra vísað í III. og IV. kafla laganna sem innihaldi meðal annars 15. gr. og þær eigi ekki við þegar 15. gr. geri það ekki. Þá segi í lok 5. mgr. 1. gr. laganna að greiðslur atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu skerði ekki áunnin réttindi til greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt lögunum. Þarna sé verið að hnykkja á að greiðslur samkvæmt þessum nýju lögum skerði ekki áunnin réttindi og hafi þar af leiðandi engin áhrif á fyrri gjörðir. Greiðslurnar séu því algjörlega óháðar því sem fyrir sé og það sem eftir komi, enda séu lögin sett á tímabundið í kjölfar heimsfaraldurs með það að markmiði að aðstoða fólk sem missi vinnuna vegna hans. Þar sitji allir við sama borð og það sé það sem lögin kveði á um og því með ólíkindum að stofnunin úrskurði með þessum hætti eins og um eðlilegt ástand sé að ræða og líti þar með fram hjá lögunum. Þetta eigi sérstaklega við um starfsemi kæranda í viðburðaþjónustu. Öll verkefni hafi verið slegin af fram á haust og honum bókstaflega verið bannað að starfa lögum samkvæmt í samkomubanni.

Í rökstuðningi Vinnumálastofnunar frá 13. maí 2020 sé þessum lagagreinum enn haldið til streitu. Þrátt fyrir ábendingar um rökstuðning sé sama rökleysan endurtekin. Kærandi hafi einnig bent á að þetta snerist ekki um túlkun á eldri lögunum, það sé alveg vitað og óumdeilt. Málið snúist um túlkun á nýju lögunum sem í þessu tilfelli stofnunin hreinlega enn og aftur líti fram hjá, þrátt fyrir ábendingar kæranda. Þá beri stofnunin fyrir sig að kærandi hafi ekki opna launagreiðendaskrá, þrátt fyrir að lögum samkvæmt sé það í höndum Vinnumálastofnunar og skattsins að miðla öllum upplýsingum er varði úrræðið, sbr. XIV. kafla bráðabirgðaákvæðis frá mars 2020. Kærandi sé ekki með opna launagreiðendaskrá og það ætti að vera nokkuð augljós ástæða fyrir því ef stofnunin hefði sinnt skyldu sinni og kannað málið. Kærandi hafi undanfarin þrjú ár gefið upp tekjur af starfsemi sinni á skattaskýrslu eins og lög Ríkisskattstjóra heimili. Það ætti að segja sig nokkuð sjálft að launagreiðendaskrá sé því ekki opin. Í því samhengi bendir kærandi á lagabreytingu frá árinu 2012, sbr. 3. gr. laga nr. 142/2012. Kærandi krefst þess að fá greiðslur tafarlaust samkvæmt nýjum breytingalögum frá mars 2020.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að upphafleg synjun Vinnumálastofnunar byggist eingöngu á 29., 30. og 31. gr. og því eigi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála eingöngu að taka tillit til þess. Kærandi bendir á ný lög sem hafi breytt eldri lögunum vegna þess að heimsfaraldur steðji að og framangreind lagaákvæði eigi ekki við á meðan þau gildi. Stofnunin haldi því fram að þessi nýju lög eigi eingöngu við um launamenn sem fái greiddar atvinnuleysisbætur á móti minnkuðu starfshlutfalli. Lögfræðingar Vinnumálastofnunar ákveði að lesa ekki lögin því að þar komi fram að sjálfstætt starfandi einstaklingur teljist uppfylla skilyrði f- og g-liða 1. mgr. 18. gr., sbr. einnig 20. og 21. gr., um stöðvun rekstrar, hafi hann tilkynnt skattinum um verulegan samdrátt í rekstri sínum sem leiði til tímabundinnar stöðvunar á rekstri. Hvað varði tilvísun Vinnumálastofnunar til þess að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur eftir hefðbundinni leið og ekki skilað inn vottorði vinnuveitanda bendir kærandi á að ekki hafi annað verið í boði á síðu stofnunarinnar. Kærandi hafi ítrekað reynt það en tölvudeild stofnunarinnar ætti að eiga auðvelt með að fletta því upp til staðfestingar. Kærandi sé sjálfstætt starfandi einstaklingur og því ætti að segja sig sjálft að hann skili ekki inn vottorði frá vinnuveitanda. Vinnumálastofnun haldi því fram að kærandi hafi ekki starfað á innlendum markaði frá árinu 2018. Það sé ekki kæranda að útvega gögn, stofnunin verði að fá þau milliliðalaust frá skattinum. Það sé ekkert um hann hjá launagreiðendaskrá, enda sé hann sjálfstætt starfandi og skili inn á eigin kennitölu eftir reglum Ríkisskattstjóra. Þar fyrir utan breyti engu hvað á undan hafi gengið því að í nýju lögunum sé skýrt ákvæði til viðbótar í kafla II um breytingar á lögum nr. 88/2003 um Ábyrgðarsjóð launa. Kærandi falli undir viðmiðunarflokk B5 eins og fram komi í tölvupósti frá Ríkisskattstjóra frá 27. mars 2020

Kærandi hafi rekið fyrirtæki í um 15 ár og skilað inn samkvæmt því og greitt í Atvinnuleysistryggingasjóð öll þau ár. Síðastliðin fjögur ár hafi hann skilað inn rekstrarskýrslu ásamt fylgiskjali með skattframtali um þennan rekstur á eigin kennitölu. Kærandi hvetji lögfræðinga Vinnumálastofnunar til að skoða lið 2.6 á skattframtali sem heiti „frádráttur“ en þar séu gjöld sem kærandi greiði til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Varla væri kærandi að greiða í þennan sjóð ef hann ætti ekki rétt á að sækja í hann. Ríkisskattstjóri þyrfti þá væntanlega að fella niður þessi gjöld eða þennan lið í skattframtalinu ef svo væri.

Kærandi hafi aldrei áður þegið atvinnuleysisbætur og eigi einfaldlega rétt á að sækja úr þessum sjóði í dag, þrátt fyrir að hafa fullnýtt tímabilið. Það sé heimsfaraldur og því hafi þessi lög verið sett til bjargar þeim sem hafi misst vinnuna sökum þess. Kærandi hafi verið búinn að tilkynna um stöðvun rekstrar til skattsins og hefði varla þurft þess því að samkvæmt sóttvarnalögum sé kæranda hreinlega bannað að starfa. Kærandi velti því fyrir sér hverjir hafi fengið atvinnuleysisbætur en ekki verið tryggðir í skilningi laganna. Hvort einhver hafi verið „tryggðari“ en kærandi eða hvort tekið sé fram „hversu tryggðir“ menn þyrftu að vera. Það sé hvergi tekið fram né sé að finna undantekningar. Jafnræðisreglan gildi því um alla og án skilyrða um ávinnslutímabil eins og komi skýrt fram í lögunum.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga þegar þeir verði atvinnulausir. Í VI. kafla laganna sé fjallað um það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar. Í 29. gr. laganna komi fram að atvinnuleitandi geti í mesta lagi átt rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga í samfellt 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun taki við umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Samkvæmt greiðslusögu kæranda hafi kærandi fullnýtt bótarétt sinn í byrjun október 2019. Kæranda hafi verið birtar upplýsingar um nýttan rétt á tímabilinu í greiðsluseðlum frá Vinnumálastofnun.

Í 30. og 31. gr. laganna sé fjallað um þau tilvik sem leiði til þess að bótatímabil endurnýjast. Annars vegar endurnýjun á tímabili eftir að atvinnuleitandi hafi fullnýtt bótarétt sinn og hins vegar endurnýjun á bótatímabili áður en fyrra tímabili ljúki að fullu.

Þar sem kærandi hafi fullnýtt bótarétt sinn komi ákvæði 31. gr. laganna einungis til álita í máli þessu. Í ákvæðinu sé fjallað um þau tilvik sem nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist áður en fyrra tímabili ljúki að fullu. Samkvæmt ákvæðinu sé það skilyrði fyrir því að nýtt bótatímabil geti hafist að viðkomandi hafi starfað í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann hafi fengið síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Frá því að kærandi hafi þegið atvinnuleysisbætur í október 2019 hafi ekki liðið 24 mánuðir. Þegar af þeirri ástæðu hafi kærandi ekki getað endurnýjað bótatímabil sitt á þeim tíma sem um ræði. Vinnumálastofnun beri því að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

Í beiðni sinni um rökstuðning og í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar vísi kærandi til bráðabirgðaákvæðis XIII með lögum um atvinnuleysistryggingar sem hafi tekið gildi 15. mars síðastliðinn um svokallaða hlutabótaleið. Sérstaklega sé vísað til 5. mgr. ákvæðisins er heimili Vinnumálastofnun að greiða út atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli, jafnvel þó að tiltekin skilyrði væru ekki uppfyllt. Kærandi telji að ákvæðið eigi við í máli sínu og að hann eigi rétt á atvinnuleysisbótum, þrátt fyrir að hann hafi fullnýtt bótatímabil sitt.

Bráðabirgðaákvæði XIII með lögum um atvinnuleysistryggingar eigi einungis við þegar launamenn fái greiddar atvinnuleysisbætur á móti minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda. Það sé skilyrði að fyrra starfshlutfall umsækjanda hafi lækkað um 20 prósentustig hið minnsta og að launamaður haldi að lágmarki 25% starfshlutfalli. Að auki séu atvinnuleysisbætur greiddar út frá meðaltali heildarlauna síðustu þriggja mánaða áður en launamaður hafi misst starf sitt að hluta. Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá mars 2020 uppfylli ekki skilyrði framangreinds ákvæðis. Kærandi hafi ekki verið við störf sem launamaður og honum ekki gert að minnka starfshlutfall sitt. Skilyrði ákvæðisins um að fyrra starfshlutfall umsækjanda hafi lækkað um 20 prósentustig og að hann haldi að lágmarki 25% starfshlutfalli sé því ekki uppfyllt. Engin staðfesting frá launagreiðanda kæranda hafi borist stofnuninni né samkomulag um minnkað starfshlutfall. Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur með hefðbundinni leið en ekkert vottorð vinnuveitanda hafi borist með umsókn. Í tölvupósti frá Ríkisskattstjóra, sem hafi borist stofnuninni þann 27. mars, komi fram að kærandi hafi ekki greitt sér laun, launagreiðendaskrá hans væri lokuð og engin breyting væri á því. Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra verði ekki séð að kærandi hafi starfað á innlendum vinnumarkaði eða reiknað sér endurgjald síðan 2018. Kærandi geti því ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum samhliða minnkuðu starfshlutfalli á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XIII með lögum um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að hafna beri umsókn kæranda, enda hafi hann fullnýtt bótatímabil sitt.

 

 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Í 30. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum og hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í 30 mánuði geti áunnið sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins að nýju að liðnum 24 mánuðum, enda hafi hann starfað á vinnumarkaði í að minnsta kosti sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk og misst starf sitt af gildum ástæðum. Þá kemur fram í 31. gr. laganna að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun með hléum frá september 2016. Í október 2019 hafði kærandi fullnýtt bótatímabil 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 og átti því ekki rétt á frekari greiðslum frá Vinnumálastofnun. Þar sem kærandi hafði ekki, þegar umsókn hans barst Vinnumálastofnun þann 26. mars 2020, starfað í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur hafði hann ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga nr. 54/2006.

Eftir stendur mat á því hvort kærandi uppfylli skilyrði XIII. kafla ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006 þar sem kveðið er á um greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli samkvæmt 17. gr. vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda. Samkvæmt 5. mgr. kaflans er heimilt að greiða bætur samkvæmt ákvæðinu þótt launamaður teljist ekki tryggður í skilningi laganna, svo sem vegna náms, sbr. 52. gr., eða skilyrða um ávinnslutímabil, sbr. 15. gr., enda sé skilyrðum ákvæðisins fullnægt. Samkvæmt orðanna hljóðan á kafli XIII. eingöngu við um launamenn í minnkuðu starfshlutfalli en óumdeilt er að það á ekki við um aðstæður kæranda. Í kafla XIV., sem fjallar um sjálfstætt starfandi einstaklinga, er ekki að finna sambærilegt undanþáguákvæði og er í 5. mgr. XIII. kafla laganna. Því er ljóst kafli XIV. kemur ekki til skoðunar í máli kæranda þar sem ekki er veitt undanþága frá skilyrði laga nr. 54/2006 um bótatímabil.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta beri synjun Vinnumálastofnunar á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. apríl 2020, um að hafna umsókn A um greiðslur atvinnuleysisbóta, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta