Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 177/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 177/2023

Föstudaginn 14. apríl 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. apríl 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. desember 2021, vegna ofgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. desember 2021, var kæranda tilkynnt, með vísan til 2. mgr. 41. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), að hann hefði fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en heimilt væri samkvæmt framangreindum lögum.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. apríl 2023.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að fá endurgreidda þá fjárhæð sem hann hafi greitt Fæðingarorlofssjóði.

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið í fæðingarorlofi í 10 vikur frá júlí fram í september árið 2021 með nýfæddan son sinn. Á meðan á fæðingarorlofi hans hafi staðið hafi kærandi ákveðið að skipta um starf og látið af störfum í lok september 2021, eða á sama tíma og fæðingarorlofinu lauk.

Á síðasta degi septembermánaðar 2021 hafi kærandi fengið sinn síðasta launaseðil hjá vinnuveitanda og þá verið gert upp það orlof sem hann átti inni. Þann 21. desember 2021 hafi Fæðingarorlofssjóður tilkynnt kæranda að honum bæri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 598.357 krónur. Kæranda hafi ekki tekist á fá þetta leiðrétt. 

Kærandi vísar til 1. mgr. 25. gr. ffl. þar sem segi:

Eingöngu skulu greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó er heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja má til breytinga á störfum foreldris.

Kærandi telur sitt tilfelli klárlega falla undir þetta ákvæði þar sem greiðslan, sem hann hafi fengið fyrir ágústmánuð 2021, hafi verið vegna þess að hann hafi verið að skipta um starf á þessu tiltekna tímabili.

Kærandi kveðst vona að þrátt fyrir að kærufrestur sé útrunninn þá geti úrskurðarnefndin tekið málið fyrir.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 21. desember 2021 um endurgreiðslu til Fæðingarorlofssjóðs að fjárhæð 598.357 krónur.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 21. desember 2021, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 1. apríl 2023. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni rúmu ári eftir að honum lauk.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þess að kæra í máli þessu barst rúmlega ári eftir að ákvörðun var tilkynnt kæranda er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta