Hoppa yfir valmynd
16. desember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 21/2014

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 16. desember 2014 var tekið fyrir mál nr. 21/2014:


Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A hefur með kæru, dags. 14. október 2014, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 18. ágúst 2014, þar sem samþykkt var að framlengja fæðingarorlof hennar um 60 daga vegna veikinda barns.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns hennar sem fæddist þann Y. nóvember 2013. Barn kæranda fæddist með klumbufætur og hefur verið meðhöndlað vegna þessa með hefðbundinni gipsmeðferð, farið í hásinalengingu og spelkumeðferð. Eftir meðferðina hefur barnið farið í eftirlit með jöfnu millibili. Kærandi sótti um framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og með bréfi sjóðsins, dags. 18. ágúst 2014, var samþykkt að framlengja fæðingarorlof hennar í 60 daga vegna veikinda/sjúkrahúsdvalar barns.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldrarorlofsmála 20. október 2014. Með bréfi, dags. 24. október 2014, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 10. nóvember 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. nóvember 2014, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst hafa sótt um þrjá mánuði í viðbótarfæðingarorlof vegna fötlunar sonar hennar sem hafi fæðst með klumbufætur en hafi einungis fengið tvo mánuði. Kærandi kveðst vita til þess að foreldrar sem eigi börn með sömu fötlun hafi fengið þrjá mánuði í viðbótarorlof. Því fari kærandi fram á að fá þrjá mánuði í viðbótarfæðingarorlof líkt og foreldrar annarra barna í sömu stöðu.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að barn kæranda hafi fæðst þann Y. nóvember 2013. Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) sé að finna heimildarákvæði til að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að sjö mánuði ef um sé að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefjist nánari umönnunar foreldris. Rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og stofnuninni sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið. Óskað hafi verið umsagnar sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs við matið.

Í athugasemdum með 1. mgr. 17. gr. ffl. megi finna ákveðna leiðbeiningu við matið. Þar komi meðal annars fram að litið verði til þess að ástand barnsins krefjist nánari umönnunar foreldranna umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna án tillits til þess hvort barn liggi í lengri eða skemmri tíma á sjúkrahúsi. Áfram eigi að miða við að barn greinist með alvarlegan sjúkdóm eða alvarlega fötlun og sé þá ekki átt við tilfallandi veikindi barna, svo sem hlaupabólu, eyrnabólgu eða aðra álíka sjúkdóma enda þótt veikindin geti verið þrálát. Af ákvæðinu og athugasemdunum sé ljóst að tímalengd lengingarinnar geti verið breytileg en þó að hámarki sjö mánuðir og fari þá tímalengdin eftir alvarleika sjúkdóms eða fötlunar barns og umönnunar foreldranna umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna. Þannig sé ekki útilokað, hafi foreldrum verið ákvarðaður skemmri tími en sjö mánuðir í lengingu, að til frekari framlengingar kunni að koma síðar gerist þess þörf og berist um það framhaldsvottorð með rökstuðningi þess sérfræðilæknis sem annast hafi barnið. Í framkvæmdinni sé slíkt alls ekki óalgengt.

Eitt læknisvottorð vegna lengingar fæðingarorlofs hafi borist í málinu, dags. 5. ágúst 2014, en einnig liggi fyrir umsögn sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs. Í málinu sé ekki ágreiningur um það hvort foreldrarnir eigi rétt á lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda barns samkvæmt 1. mgr. 17. gr. ffl. heldur í hve langan tíma rétt hafi verið að veita lenginguna á þeim tímapunkti sem það hafi verið gert þann Y. ágúst 2014 þegar barnið hafi verið 9 mánaða gamalt.

Í læknisvottorði B, dags. 5. ágúst 2014, sé greining á veikindum barns Talipes equinovarus Q66.0. Lýsing á sjúkdómi barns sé: „Um er að ræða dreng sem er meðhöndlaður vegna klumbufóta. Hann hlaut hefðbundna gipsmeðferð og var einnig gerð tenotomia á honum í des., þ.e.a.s. hásinarlenging og var hann gipsaður á eftir í þrjár vikur aukalega og eftir það hefur hann verið í spelkumeðferð hefðbundinni fyrst allan sólarhringinn síðan að næturþeli. Kemur í eftirlit með jöfnu millibili á Landspítala. Býr á austurlandi svo í þetta fer talsverður tími eins og hjá öðrum börnum sem hafa verið í samskonar meðferð. Vegna þessarar auknu umönnunar mikils ferðatíma í hvert control og gipsskipti er farið fram á lengingu fæðingarorlofs eins og fordæmi eru fyrir.“

Í umsögn sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs, dags. 7. nóvember 2014, komi m.a. fram að börn með greininguna Talipes equinovarus sem þurfi á meðferð að halda flokkist undir ákvæði 1. mgr. 17. gr. ffl. Tímalengd aukinnar umönnunar geti verið misjöfn þar sem alvarleiki sjúkdóms eða fötlunar geti verið breytilegur og þar með lengd tímabils með aukinni umönnunarþörf og því hafi slík mál ekki endilega verið afgreidd með ákveðnum mánaðarfjölda í lengingu. Oft sé því veittur ákveðinn tími í lengingu fæðingarorlofs strax samkvæmt mati læknis, en síðan sé hægt að sækja um frekari lengingu þegar í ljós komi hvernig meðferðin gangi og hver hin aukna umönnunarþörf sé umfram það sem eðlilegt geti heitið hjá þetta ungum börnum. Síðan segi orðrétt: „Sérfræðilæknar Fæðingarorlofssjóðs leggja einungis mat á þær upplýsingar sem berast úr læknisvottorðum í hverju máli fyrir sig og út frá vottorði B mat ég það svo að drengurinn hafi byrjað í hefðbundinni gipsmeðferð en síðan gerð á honum hásinalenging í desember og svo settur í gipsmeðferð í 3 vikur á eftir. Það kemur reyndar ekki fram hvenær í desember þessi aðgerð var gerð, en ég reiknaði með að hann væri þá laus úr gipsmeðferðinni c.a. um miðjan janúar 2014, þá 2ja mánaða gamall. Mitt mat var að hans aukna umönnunarþörf tengdist gipsmeðferðinni og þéttu eftirliti og komum á göngudeild og okkar niðurstaða var því 2ja mánaða lenging. En eins og áður segir gerist það ekki sjaldan að frekari upplýsingar berast og óskir um frekari lengingu samkvæmt læknisvottorði og hefðum við þá tekið afstöðu til þess ef svo hefði verið.“

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að hæfilegt hafi verið að lengja sameiginlegan rétt foreldrana til fæðingarorlofs samkvæmt 1. mgr. 17. gr. ffl. um tvo mánuði á þeim tíma þegar málið hafi verið afgreitt, sbr. bréf dags. 18. ágúst 2014. Rétt þyki að vekja athygli foreldrana á því að verði um aukna umönnunarþörf að ræða til viðbótar við þá tvo mánuði sem samþykktir hafi verið muni Fæðingarorlofssjóður taka afstöðu til frekari lengingar berist framhaldsvottorð þar um með rökstuðningi þess sérfræðilæknis sem annast hafi barnið.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að framlengja fæðingarorlof kæranda um 60 daga vegna veikinda barns sem fæddist þann Y . nóvember 2013.

Í 1. mgr. 17. gr. ffl. kemur fram að heimilt sé að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að sjö mánuði ef um sé að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefjist nánari umönnunar foreldris. Rökstyðja skuli þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis. Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og stofnuninni sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.

Með 3. gr. laga nr. 143/2012 var ákvæði 17. gr. ffl. breytt en í athugasemdum með ákvæðinu segir að líta verði til þess að ástand barnsins krefjist nánari umönnunar foreldranna umfram það sem eðlilegt sé við umönnun ungbarna án tillits til þess hvort barn liggi í lengri eða skemmri tíma á sjúkrahúsi. Áfram eigi að miða við að barn greinist með alvarlegan sjúkdóm eða alvarlega fötlun og er þá ekki átt við tilfallandi veikindi barna, svo sem hlaupabólu, eyrnabólgu eða aðra álíka sjúkdóma enda þótt veikindin geti verið þrálát.

Samkvæmt gögnum málsins fæddist sonur kæranda með klumbufætur. Í læknisvottorði B, dags. 5. ágúst 2014, er sjúkdómi barnsins lýst á eftirfarandi hátt: „Um er að ræða dreng sem er meðhöndlaður vegna klumbufóta. Hann hlaut hefðbundna gipsmeðferð og var einnig gerð tenotomia á honum í des., þ.e.a.s. hásinarlenging og var hann gipsaður á eftir í þrjár vikur aukalega og eftir það hefur hann verið í spelkumeðferð hefðbundinni fyrst allan sólarhringinn síðan að næturþeli. Kemur í eftirlit með jöfnu millibili á Landspítala. Býr á austurlandi svo í þetta fer talsverður tími eins og hjá öðrum börnum sem hafa verið í samskonar meðferð. Vegna þessarar auknu umönnunar mikils ferðatíma í hvert control og gipsskipti er farið fram á lengingu fæðingarorlofs eins og fordæmi eru fyrir.“

Í umsögn sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs, dags. 7. nóvember 2014, kemur meðal annars fram að börn með greininguna Talipes equinovarus sem þurfi á meðferð að halda flokkist undir ákvæði 1. mgr. 17. gr. ffl. Tímalengd aukinnar umönnunar geti verið misjöfn þar sem alvarleiki sjúkdóms eða fötlunar geti verið breytilegur og þar með lengd tímabils með aukinni umönnunarþörf og því hafi slík mál ekki endilega verið afgreidd með ákveðnum mánaðarfjölda í lengingu. Oft sé því veittur ákveðinn tími í lengingu fæðingarorlofs strax samkvæmt mati læknis, en síðan sé hægt að sækja um frekari lengingu þegar í ljós komi hvernig meðferðin gangi og hver hin aukna umönnunarþörf sé umfram það sem eðlilegt geti heitið hjá þetta ungum börnum. Þá kemur fram að það hafi verið hans mat að hin aukna umönnunarþörf tengdist gipsmeðferðinni og þéttu eftirliti og komum á göngudeild. Barnið hafi verið laust úr gipsmeðferðinni um tveggja mánaða aldur og því hafi verið tekin ákvörðun um að lengja fæðingarorlof kæranda um tvo mánuði.

Með hliðsjón af gögnum málsins tekur úrskurðarnefndin undir sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs um að hæfilegt hafi verið að framlengja fæðingarorlof kæranda um 60 daga vegna veikinda barns hennar. Fæst ekki betur séð en að sú niðurstaða sé í góðu samræmi við framkvæmd í eldri málum. Úrskurðarnefndin telur rétt að benda á að líkt og fram kemur í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs getur kærandi sótt um viðbótarframlengingu verði um aukna umönnunarþörf að ræða vegna veikinda barns hennar umfram það sem hefur verið samþykkt.

 

Með vísan til framangreinds verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. ágúst 2014, um að framlengja fæðingarorlof A, um 60 daga vegna veikinda barns er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta