Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 1/2015

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 1/2015

 

Aðild að Húseigendafélaginu.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 5. janúar 2015, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, en greinargerð barst ekki.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 26. febrúar 2015.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls 20 eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar í húsi nr. 86. Ágreiningur er um aðild gagnaðila að Húseigendafélaginu.

Kærunefnd telur kröfur álitsbeiðanda vera:

I.  Að viðurkennt verði að húsfundur geti ekki bundið eigendur til aðildar að félagi enda hafi eigendur ekki gefið eftir rétt sinn til félagafrelsis samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

II. Að viðurkennt verði að álitsbeiðanda beri ekki að greiða reikninga vegna aðildar að Húseigendafélaginu.

Í álitsbeiðni kemur fram að frá upphafi hafi tvö húsfélög og tvær stjórnir verið starfandi í húsinu, eða til ársins 2010 þegar eigendur í húsi nr. 84 hafi ákveðið að stofna þriðja húsfélagið og fá á það kennitölu. Eini tilgangur þess sýnist hafa verið sá að koma fjárskuldbindingum, sem eigendur að öðru húsinu hafi stofnað til, einnig yfir á eigendur hins hússins.

Um forsögu málsins segir að á umdeildum húsfundi, sem hafi verið stjórnað af hálfu lögmanns Húseigendafélagsins þann 21. september 2010, hafi meðal annars verið rætt um að taka yfirdráttarheimild í banka til að standa straum af umþrættum framkvæmdum. Án þess að eigendur í húsi nr. 86 hafi haft um það nokkra vitneskju, eða ljáð því samþykki sitt, hafi verið tekin yfirdráttarheimild í nafni hins sameiginlega húsfélags, sem hafi þá nýlega verið stofnað. Þessu hafi eigendur í húsi nr. 86 mótmælt.

Álitsbeiðandi telur rétt að hafa til hliðsjónar 259. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, í þessu sambandi, enda þótt kærunefnd kunni að telja lögin sér óviðkomandi. Þá segir að málið snerti ekki einungis almenn hegningarlög og gallaða ákvörðunartöku, þar sem átta af 20 eigendum hafi tekið ákvörðun, heldur snúi það að algjörum grundvallaratriðum mannréttinda, félagafrelsi, sem lúti ákvæðum 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (hér eftir MSE) hvíli sú skylda á aðildarríkjum Evrópuráðsins, og innleitt hafa MSE, að tryggja rétt til félagafrelsis. Í 2. mgr. 11. gr. sé fjallað um mögulegar takmarkanir á þessum rétti. Almenna reglan sé sú að engar takmarkanir skuli lagðar á rétt til félagafrelsis nema takmarkanir verði réttlættar með vísan til lagafyrirmæla (prescribed by law) og séu nauðsynlegar í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða öryggis almennings, til að hindra upplausn eða glæpi, vegna verndar heilsu eða siðgæðis eða vegna verndar réttar og frelsis annarra. Þá sé sérstaklega kveðið á um takmarkanir á rétti til félagafrelsis þegar um sé að ræða aðgerðir herafla, lögreglu eða stjórnvalda ríkisins.

Ekki verði séð að nein framangreindra undantekninga á rétti til félagafrelsis séu uppfyllt í tilviki aðildar að Húseigendafélaginu. Í fyrsta lagi sé aðildin ekki lögboðin. Um sé að ræða frjáls félagasamtök. Í öðru lagi krefjist hvorki þjóðaröryggi né öryggi almennings þess að fólk sé bundið í Húseigendafélaginu og greiði þangað árgjald. Í þriðja lagi verði ekki séð að Húseigendafélagið gegni þeim tilgangi að hindra upplausn eða glæpi, að það verndi heilsu eða siðgæði, eða standi vörð um rétt allra félagsmanna sem þar kunni að vera (ýmist sjálfviljugir eða nauðugir). Ljóst sé af dómafordæmum MSE að félagafrelsi undir 11. gr. MSE nái bæði til „jákvæðs félagafrelsis“ og „neikvæðs félagafrelsis“ (þess réttar að verða ekki neyddur til aðildar að félagi. Til áréttingar megi vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 144/2014). Vera kunni að kærunefnd telji sér stjórnarskrá Íslands og MSE einnig óviðkomandi. En því sé að þessum atriðum vikið hér að gagnaðili hafi krafið eigendur í húsi nr. 86 um hlutdeild í árgjaldi til Húseigendafélagsins, enda þótt fyrir liggi að þeir síðarnefndu hafi aldrei gefið samþykki sitt fyrir veru í því félagi eða að greiða þangað félagsgjöld. En eins og mörg önnur mannréttindi þá sé félagafrelsi hluti af persónuréttindum hvers og eins.

Einnig segir að jafnvel þótt ákvörðun gagnaðila sé lögmæt sem slík, að ganga í annað félag (fundur rétt boðaður, nægur fyrirvari, næg þátttaka o.s.frv.), þá verði ekki séð að einstaklingur (einn eða fleiri) sem andsnúinn sé aðild að félagi hafi með samþykki húsfélagsins þar með afsalað sér (eða framselt) hluta sinna mannréttinda, þ.e. sínu persónubundna félagafrelsi. Spurningin snúist því um hvort yfirleitt fáist staðist að félag geti skuldbundið einstaklinga með þessum hætti, enda mannréttindi ekki fyrirbæri sem geti gengið kaupum og sölum, allra síst viðkomandi einstaklingum forspurðum.

Þá segir að innheimtu sem hér hafi verið lýst megi jafna til innheimtu í krafti nauðungaraðildar að félagi (sérstaklega sé reynt að innheimta þær með atbeina dómstóla) enda ljóst að raunverulegt félagafrelsi sé lítils virði ef hægt væri samt sem áður að skylda fólk til þátttöku í árgjaldi félags, þegar enginn vilji standi til aðildar.

Að lokum vísar álitsbeiðandi til 1. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, og segir að ágreiningsefnið snúi að því sem áður sé rakið, hvort aðild, sem skilgreina megi sem nauðungaraðild, að Húseigendafélaginu fáist staðist skv. 2. mgr. 74. gr. íslensku stjórnarskrárinnar og 11. gr. MSE, óháð því hvort ákvörðun sé löglega tekin um inngöngu í félag eða ekki. Ljóst megi vera að enda þótt ekki sé fjallað beint um Húseigendafélagið í fjöleignarhúsalögunum þá sé um allsterka tengingu að ræða, auk þess sem almenn lög lúti stjórnarskrá og MSE, enda hafi og tíðkast að Húseigendafélagið tilnefni einn nefndarmann í kærunefnd.

 

III. Forsendur

Ágreiningur í máli þessu snýst um inngöngu gagnaðila í Húseigendafélagið. Álitsbeiðandi telur að húsfundur geti ekki tekið ákvörðun um aðild að Húseigendafélaginu enda hafi eigendur ekki gefið eftir rétt sinn til félagafrelsis samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kröfugerð álitsbeiðanda snýr þannig ekki að lögmæti tiltekinnar ákvörðunar á grundvelli laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.

Hlutverk kærunefndar er markað í 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, þar sem segir í 1. mgr. að greini eigendur fjöleignarhúsa á um réttindi sín og skyldur samkvæmt lögum þessum geti þeir, einn eða fleiri, leitað til kærunefndar og óskað eftir álitsgerð um ágreiningsefnið. Það ágreiningsefni sem álitsbeiðandi hefur borið undir kærunefnd fellur ekki undir réttindi og skyldur eigenda samkvæmt lögum um fjöleignarhús heldur snýr það að því hvort innganga í Húseigendafélagið standist ákvæði stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu en ekki er deilt um lögmæti ákvörðunar húsfundar gagnaðila þegar ákvörðun um inngöngu var tekin. Slíkur ágreiningur fellur utan við valdsvið kærunefndar. Þegar af þeirri ástæðu er kröfu álitsbeiðanda vísað frá kærunefnd. Bent skal á að um er að ræða ágreiningsefni sem fellur undir dómstóla.

Álitsbeiðandi hefur einnig óskað viðurkenningar á því að honum beri ekki að greiða reikninga vegna aðildar að Húseigendafélaginu. Af álitsbeiðni verður ráðið að sú krafa sé í beinu sambandi við fyrri kröfu álitsbeiðanda þar sem rökstuðningur álitsbeiðanda byggir á því að aðild að Húseigendafélaginu standist hvorki stjórnarskrá né mannréttindasáttmála Evrópu. Þegar af þeirri ástæðu er þessari kröfu álitsbeiðanda einnig vísað frá.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að vísa beri kröfum álitsbeiðanda frá. 

 

Reykjavík, 26. febrúar 2015

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta