Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 20/2012 - endurupptaka

Úrskurður

 

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 17. febrúar 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 20/2012.

1. Málsatvik og kæruefni

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kvað upp úrskurð í máli  A, 25. janúar 2013. Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hún hafi verið við vinnu hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, fyrir tímabilið frá 1. maí til 19. nóvember 2011 að fjárhæð samtals 1.005.774 kr. þegar hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði C hdl. hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða f.h. kæranda með erindi, dags. 6. febrúar 2012. Kærandi krafðist þess að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi.

Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda, með erindi dags. 24. nóvember 2011, að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að hún hefði verið í vinnu hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar.

Kærandi skilaði inn skýringum til Vinnumálastofnunar 28. nóvember 2011 þar sem fram kom að B væri fyrirtæki eiginmanns hennar og svaraði hún einstaka sinnum í símann fyrir hann án þess að um launað starf væri að ræða. Hún væri ekki starfsmaður B. B sé ekki til sem lögaðili og geti því ekki haft starfsfólk. Gera verði þá lágmarkskröfu til Vinnumálastofnunar að meintur vinnuveitandi sé almennt til og geti sem slíkur haft hæfi til greiðslu launa. Netsíðuna B eigi eiginmaður kæranda. Þær tilvísanir sem komi fram í greinargerð Vinnumálastofnunar og tengist framangreindri vefsíðu séu hreinar getgátur, algerlega án nokkurs rökstuðnings. Fullyrðing Vinnumálastofnunar þess efnis að sönnun felist í því að rússneskir ríkisborgarar skuli nota vefsíðu eiginmanns kæranda til tjáskipta og þakki fyrir samskipti sé með ólíkindum. Þá sé sú tilvísun Vinnumálastofnunar að sönnun finnist á meintu broti á lögum þar sem bloggað sé á vefsíðu kæranda að hann sé ,,sál fyrirtækisins“ langt frá öllum raunveruleika. Í öllum tilfellunum séu engin rök eða sönnun fyrir þeirri fullyrðingu Vinnumálastofnunar að kærandi hafi brotið gegn ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar. Það að símanúmer kæranda sé á vefsíðu leiði ekki til þess að hún hafi brotið gegn lögum. Hún hafi ekki yfirráð yfir síðunni heldur eiginmaðurinn. Hún svari endrum og sinnum í síma þegar eiginmaður hennar er utan þjónustusvæðis, en hún starfi ekki hjá fyrirtækinu og fái ekki greidd þar laun.

Kærandi telur að 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi ekki við um hana. Ekki sé grundvöllur fyrir þeim ásökunum sem Vinnumálastofnun hafi lagt fram og úrskurðað um.

Með úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 25. janúar 2013 var ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. desember 2011 þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að hún skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefði starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði staðfest. Enn fremur var staðfest sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að gera kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, samtals að fjárhæð 1.005.774 kr.

Kærandi leitaði til umboðsmanns Alþingis vegna málsins 27. desember 2013. Í bréfi  umboðsmannsins til kæranda, dags. 31. desember 2014, er bent á að hjá umboðsmanninum hafi verið til athugunar mál annars einstaklings þar sem reyni á túlkun og beitingu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða á viðurlagaákvæði 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ákvæði 2. mgr. 39. gr. sömu laga um endurgreiðslu ofgreiddra bóta. Umboðsmaðurinn hafi nú lokið athugun sinni á framangreindu máli þar sem hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að sú afstaða úrskurðarnefndarinnar að viðurlög samkvæmt 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar séu byggð á hlutlægri ábyrgð, þ.e. ábyrgð án sakar, hafi ekki verið í samræmi við lög. Jafnframt hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að rökstuðningur nefndarinnar hvað varði kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta og álagningu 15% álags á þá kröfu hafi ekki verið fullnægjandi og að ekki verði séð að nefndin hafi tekið skýra afstöðu til þess í úrskurðinum hvernig lagaskilyrði 2. mgr. 39. gr. laganna horfðu við í málinu. Í álitinu hafi hann beint þeim tilmælum til nefndarinnar að hún tæki mál hlutaðeigandi einstaklings til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni frá honum þess efnis.

Fram kemur í bréfi umboðsmannsins til kæranda að þar sem efni kvörtunar kæranda varði að einhverju leyti sömu atriði og hann hafi tekið afstöðu til í framangreindu áliti telji hann rétt að kærandi snúi sér á ný til nefndarinnar og óski eftir því við nefndina að mál hennar verði tekið til nýrrar meðferðar með vísan til framangreinds álits áður en það komi eftir atvikum til frekari athugunar hjá umboðsmanninum.

Kærandi óskaði í kjölfarið eftir því, með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. febrúar 2015, að mál hennar yrði tekið aftur fyrir hjá nefndinni í ljósi tilvitnaðs álits umboðsmanns Alþingis og kvæði upp nýjan úrskurð sem byggði á þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í því áliti hans.

1. Niðurstaða

Um heimild til endurupptöku máls er fjallað í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar segir að aðili máls eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Eins og áður hefur komið fram byggðist úrskurður nefndarinnar á því að kærandi hafi brotið gegn 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og skyldi því ekki eiga rétt á bótum í 12 mánuði.

Í því áliti umboðsmanns Alþingis sem krafa um endurupptöku er byggð á var komist að þeirri niðurstöðu að úrskurður nefndarinnar hafi verið byggður á rangri túlkun á 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og úrskurðurinn því ekki reistur á réttum lagagrundvelli. Úrskurðarnefndin er í grundvallaratriðum ósammála þeirri niðurstöðu að um ranga túlkun á 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið að ræða. Þeir sem falla undir ákvæðið eru m.a. þeir sem starfa á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og þeir þiggja bætur. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins skulu þessir aðilar sæta sömu viðurlögum og lýst er í 1. málsl. 60. gr. laganna og skulu þeir því ekki eiga rétt á bótum í 12 mánuði. Að auki ber þeim að endurgreiða þær bætur sem þeir töldust ekki eiga rétt á.

Nefndin telur úrskurð sinn í máli kæranda réttilega hafa verið byggðan á 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistrygginar og að viðurlög kæranda hafi verið réttilega ákvörðuð á grundvelli ákvæðisins.

Með vísan til þess sem að ofan er ritað telur nefndin ekki forsendur fyrir endurupptöku á máli kæranda og er beiðninni því hafnað.


Úrskurðarorð

Kröfu A um endurupptöku úrskurðar í máli hennar fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 25. janúar 2013 þess efnis að hún skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefði starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og endurgreiði ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, samtals að fjárhæð 1.005.774 kr., er hafnað.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Fyrri úrskurður var kveðinn upp 25. janúar 2013


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta