Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 81/2012 - endurupptaka

Úrskurður


Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 17. febrúar 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 81/2012.

1. Málsatvik og kæruefni

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kvað upp úrskurð í máli A, 7. maí 2013. Í þeim úrskurði nefndarinnar kom fram að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann hafi verið að vinna í B í október til desember 2011 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Það var niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að viðbættu 15% álagi að fjárhæð 510.283 kr. skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi kærði ákvörðunin til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 8. maí 2012, og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi.

Vinnumálastofnun sendi kæranda erindi 6. mars 2012 þar sem honum var tilkynnt að við samkeyrslu gagnagrunna stofnunarinnar og ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur á hann í desember vegna vinnu hans hjá B samhliða því að hann hafi þegið atvinnuleysisbætur og án þess að hann hafi tilkynnt það til stofnunarinnar. Óskað var eftir skýringum hjá kæranda og 13. mars 2012 barst bréf frá B þess efnis að uppgjör vegna vinnu kæranda fyrir fyrirtækið á árinu 2011 hafi farið fram í desember. Kærandi hafi fengið laun vegna vinnu í október til og með desember samtals 260.000 kr. sem gert hafi verið upp í desember.

Vinnumálastofnun ákvað í kjölfarið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur til kæranda vegna ótilkynntrar vinnu hans hjá B í október til desember 2011. Niðurstaða stofnunarinnar var sú að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Einnig var honum gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 1. október til 31. desember 2011 að fjárhæð 510.283 kr., með 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun barst 28. mars 2012 bréf frá B þar sem fram kemur að áðursendar upplýsingar hefðu verið rangar sökum mistaka af hálfu B. Vísað var til útprentunar frá ríkisskattstjóra vegna staðgreiðsluársins 2011 þar sem fram komu aðrar launafjárhæðir til handa kæranda en B hafði gert grein fyrir í bréfi sínu, dags. 28. mars 2012.

Mál kæranda var tekið upp að nýju hjá Vinnumálstofnun 12. apríl 2012 og með bréfi, dags. 18. apríl 2012, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun stofnunarinnar að ekki hafi verið séð að fyrri ákvörðun stofnunarinnar frá 21. mars 2012 hefði verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum og var hún því staðfest.

Vinnumálastofnun barst bréf frá ríkisskattstjóra 18. apríl 2012 þar sem fram kemur að B hafi verið tekið af launagreiðendaskrá 25. október 2011 og að við uppgjör ársins 2011 hafi komið í ljós að eftir hafi verið að gera upp laun til kæranda. Því hafi launagreiðendaskrá 2011 verið opnuð að nýju fyrir félagið og launagreiðslur til handa kæranda væru mánaðarlega að fjárhæð 59.000 kr. fyrir október til desember 2011.

Í kjölfarið var mál kæranda tekið fyrir að nýju og var það ákvörðun Vinnumálastofnunar að ekki væri séð að ákvörðun stofnunarinnar frá 21. mars 2012 hafi verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum og var því fyrri ákvörðun staðfest.

Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í bréfi, dags. 31. ágúst 2012. Þar kemur fram að kærandi sé eini eigandi B og rekstur í félaginu hafi verið mjög takmarkaður. Eiginkona kæranda hafi ekki gætt þess við skil til ríkisskattstjóra að laun kæranda væru færð á rétt launatímabil. Þau skil sem skipti hér máli hafi verið gerð 24. febrúar 2012. Við uppgjör B á launum kæranda í desember það ár hafi eiginkona hans fært þau við skil á skilaskyldri staðgreiðslu skatta að fullu sem laun hans að fjárhæð 260.000 kr. fyrir þann mánuð einan. Á þeirri ráðstöfun sé væntanlega helst sú skýring að hún hafi gert það til einföldunar en hið rétta sé að kærandi hafi unnið mjög litla vinnu í þeim mánuði svo og í mánuðunum nóvember og október sama ár og ekki sem nemur launum umfram 59.000 kr. á mánuði í hverjum þessara þriggja mánaða.

Bent er á að ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé afar íþyngjandi og heimildin til að beita ákvæðinu sé reist á því að veittar hafi verið „vísvitandi rangar upplýsingar“. Með öðrum orðum megi ráða af lögskýringargögnum að beita eigi lagaákvæðinu ef veittar hafi verið rangar upplýsingar í sviksamlegum tilgangi og með blekkingum. Ljóst sé að ákvörðun Vinnumálastofnunar sé á þessu byggð. Hið rétta sé að hinar „röngu upplýsingar“ sem eiginkona kæranda veitti við skattskilin og í bréfi, dags. 13. mars 2012, voru rangar en Vinnumálastofnun byggi þrátt fyrir það ákvarðanir sínar á þeim. Hvorki af hálfu eiginkonu kæranda né hans sjálfs hafi nokkuð verið aðhafst í því skyni að hann nyti atvinnuleysisbóta sem hann ætti ekki rétt til. Augljóst sé að ef eitthvað slíkt hafi vakað fyrir kæranda hefði ekki verið staðið á þennan hátt að launaskilum til ríkisskattstjóra. Vinnumálastofnun hafi ekki sýnt fram á að kærandi hafi gefið „vísvitandi rangar upplýsingar“. Þá er vísað til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um að stjórnvald skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Með hinum harkalegu ákvörðunum gangi Vinnumálastofnun svo langt og harkalega fram með viðurlagaákvörðunum sínum að lengra verður ekki gengið samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt er vísað til þess að það liggi fyrir að það hafi verið gerð mistök við umrædd skil á staðgreiðslu skatta og tilgreiningu launa hans í desember 2011. Þau mistök hafi verið leiðrétt og lögð fram gögn því til stuðnings. Vinnumálastofnun hafi ekki kallað eftir neinum frekari gögnum í þessu efni. Hafi stofnuninni því borið að endurupptaka málið á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga og byggja ákvörðun sína á þeim nýju gögnum og upplýsingum. Að öðrum kosti hafi gagnaðila borið að sjá til þess samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga að málið væri nægilega upplýst um að hinar nýju og leiðréttu upplýsingar væru sannarlega rangar og því ekkert á þeim byggjandi.

Með úrskurði atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 7. maí 2013 var ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 22. mars 2012 þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að hann skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði staðfest. Enn fremur var staðfest sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að gera kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, samtals að fjárhæð 510.283 kr.

Kærandi leitaði til umboðsmanns Alþingis vegna málsins 21. febrúar 2014. Í bréfi  umboðsmannsins til kæranda, dags. 31. desember 2014, er bent á að hjá umboðsmanninum hafi verið til athugunar mál annars einstaklings þar sem reyni á túlkun og beitingu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða á viðurlagaákvæði 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ákvæði 2. mgr. 39. gr. sömu laga um endurgreiðslu ofgreiddra bóta. Umboðsmaðurinn hafi nú lokið athugun sinni á framangreindu máli þar sem hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að sú afstaða úrskurðarnefndarinnar að viðurlög samkvæmt 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar séu byggð á hlutlægri ábyrgð, þ.e. ábyrgð án sakar, hafi ekki verið í samræmi við lög. Jafnframt hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að rökstuðningur nefndarinnar hvað varði kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta og álagningu 15% álags á þá kröfu hafi ekki verið fullnægjandi og að ekki verði séð að nefndin hafi tekið skýra afstöðu til þess í úrskurðinum hvernig lagaskilyrði 2. mgr. 39. gr. laganna horfðu við í málinu. Í álitinu hafi hann beint þeim tilmælum til nefndarinnar að hún tæki mál hlutaðeigandi einstaklings til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni frá honum þess efnis.

Fram kemur í bréfi umboðsmannsins til kæranda að þar sem efni kvörtunar kæranda varði að einhverju leyti sömu atriði og hann hafi tekið afstöðu til í framangreindu áliti telji hann rétt að kærandi snúi sér á ný til nefndarinnar og óski eftir því við nefndina að mál hans verði tekið til nýrrar meðferðar með vísan til framangreinds álits áður en það komi, eftir atvikum, til frekari athugunar hjá umboðsmanninum.

Kærandi óskaði í kjölfarið eftir því, með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. janúar 2015, að mál hans yrði tekið til nýrrar meðferðar hjá nefndinni og allar kröfur hans í því máli teknar til greina.

1. Niðurstaða

Um heimild til endurupptöku máls er fjallað í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar segir að aðili máls eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Eins og áður hefur komið fram byggðist úrskurður úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða á því að kærandi hafi brotið gegn 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og skyldi því ekki eiga rétt á bótum í 12 mánuði.

Í því áliti umboðsmanns Alþingis sem krafa um endurupptöku er byggð á var komist að þeirri niðurstöðu að úrskurður nefndarinnar hafi verið byggður á rangri túlkun á 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og úrskurðurinn því ekki reistur á réttum lagagrundvelli. Úrskurðarnefndin er í grundvallaratriðum ósammála þeirri niðurstöðu að um ranga túlkun á 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið að ræða. Þeir sem falla undir ákvæðið eru m.a. þeir sem starfa á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og þeir þiggja bætur. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins skulu þessir aðilar sæta sömu viðurlögum og lýst er í 1. málsl. 60. gr. laganna og skulu þeir því ekki eiga rétt á bótum í 12 mánuði. Að auki ber þeim að endurgreiða þær bætur sem þeir töldust ekki eiga rétt á.

Nefndin telur úrskurð sinn í máli kæranda réttilega hafa verið byggðan á 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistrygginar og að viðurlög kæranda hafi verið réttilega ákvörðuð á grundvelli ákvæðisins.

Með vísan til þess sem að ofan er ritað telur nefndin ekki forsendur fyrir endurupptöku á máli kæranda og er beiðninni því hafnað.

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu A um endurupptöku úrskurðar í máli hans fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 7. maí 2013 þess efnis að hann skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og endurgreiddi ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, samtals að fjárhæð 510.283 kr., er hafnað.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Fyrri úrskurður var kveðinn upp 7. maí 2013


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta