Mannréttindastarf verði kortlagt og stefna mótuð
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun tillögu innanríkisráðherra, velferðarráðherra og utanríkisráðherra að settur verði á fót starfshópur þriggja ráðuneyta sem falið verði tvíþætt hlutverk í mannréttindamálum. Annars vegar að kortleggja mannréttindastarf íslenskrar stjórnsýslu og hins vegar að leggja fyrir ríkisstjórnina stefnu um framtíðarskipan Mannréttindadómstóls Evrópu.
Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum innanríkisráðuneytis, velferðarráðuneytis og utanríkisráðuneytis og skal hann starfa í náinni samvinnu við nefnd um mótun landsáætlunar í mannréttindamálum sem skipuð var í lok síðasta árs. Með þessu er lögð áhersla á að mannréttindamál eigi að verða órjúfanlegur þáttur í stefnumörkun íslenskra stjórnvalda heima og heiman.
Verkefni starfshópsins eru eftirfarandi:
1. Að kortleggja mannréttindastarf íslenskrar stjórnsýslu, jafnt innan landsteinanna sem utan. Kannað verði hvernig kröftum Íslands er varið á erlendri grund og gerðar tillögur um með hvaða hætti íslensk stjórnvöld geta haft afgerandi áhrif á þróun mannréttindamála á heimsvísu.
2. Að móta og leggja fyrir ríkisstjórn stefnu um framtíðarskipan Mannréttindadómstóls Evrópu í samhengi við þær tillögur sem ræddar hafa verið á vettvangi Evrópuráðsins. Stefnan skal taka mið af áliti innlendra sérfræðinga en einnig af afstöðu samstarfsþjóða Íslands, einkum Norðurlandanna. Sérstaklega skal yfirfara hvernig ákvörðunum Mannréttindadómstólsins eigi að fylgja eftir, einkum með tilliti til lagasetningar og sambands þjóðþinga við dómstólinn.
Ráðuneytin komi sér saman um verkefnisstjóra sem stýri þessari vinnu.
Allt frá fyrstu samstarfsdögum hefur núverandi ríkisstjórn lagt ríka áherslu á að gera mannréttindum hærra undir höfði. Í því augnamiði var mannréttindum skipaður sérstakur sess í íslenskri stjórnsýslu, fyrst innan dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og síðan innan nýs innanríkisráðuneytis. Á sama tíma hefur aukin áhersla verið lögð á mannréttindi í utanríkisstefnu Íslands.
Stefnubreytingar þessarar hefur gætt á mörgum sviðum á kjörtímabilinu og innan velflestra ráðuneyta. Gott samstarf hefur verið milli helstu ráðuneyta sem fara með mannréttindamál, ekki síst við fyrirtöku á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á mannréttindaskuldbindingum Íslands, í svokölluðu Universal Periodic Review (UPR). Innanríkisráðuneytið sér um þetta samstarf svo og um mótun landsáætlunar í mannréttindamálum, en öll ráðuneyti eiga aðkomu að henni.
Mikilvægasta aðkoma Íslands að alþjóðlegri umræðu um mannréttindamál er annars vegar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og hins vegar á vettvangi Evrópuráðsins.