Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Frumvarp um sameiningu vistunarmatsnefnda

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Nefndir sem annast mat á þörf fólks fyrir vistun í dvalarrými eða hjúkrunarrými verða sameinaðar, samþykki Alþingi frumvarp þess efnis sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra mælti fyrir á Alþingi í dag. Markmið breytinganna er að auðvelda fólki að sækja um stofnanavistun og einfalda stjórnsýsluna. Frumvarpið felur í sér tillögu að breytingu á lögum um málefni aldraðra og lögum um heilbrigðisþjónustu.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að samkvæmt gildandi lögum þurfi fólk að greina á milli hvort rétt sé að sækja um dvöl á stofnun hjá vistunarmatsnefnd um dvalarrými eða hjúkrunarrými sem geti valdið fólki vandkvæðum. Með því að fela einni nefnd að meta þörf fólks fyrir vistun í dvalar- og hjúkrunarrými í stað tveggja áður skapist heildarsýn yfir þörf fólks fyrir vistun: „Matið getur engu síður verið tvenns konar, félagslegt eða byggst fyrst og fremst á þörf fyrir heilbrigðisþjónustu, en með einni vistunarmatsnefnd verður hvert tilvik skoðað í heild sinni. Þannig fær vistunarmatsnefndin heildarsýn yfir þörf á þjónustu og vistun.“

Í greinargerð segir einnig að fyrirhuguð sameining vistunarmatsnefnda sé í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Verulega hafi dregið úr þörf fólks fyrir dvalarrými þar sem æ fleiri geti búið á heimilum sínum með viðeigandi stuðningi og þjónustu sveitarfélaga og ríkis. Þetta hafi leitt til þess að þegar að fólk getur ekki lengur búið heima með stuðningi þurfi flestir á hjúkrunarrými að halda.

„Með hliðsjón af framansögðu þjónar frumvarp þetta hagsmunum aldraðs fólks, einfaldar stjórnsýsluna og er í samræmi við þær breytingar á vistun aldraðra á stofnun sem átt hafa sér stað að undanförnu“ segir ennfremur í greinargerð.

Ferill málsins á Alþingi



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta