Hoppa yfir valmynd
6. mars 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 499/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 499/2019

Föstudaginn 6. mars 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. nóvember 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. nóvember 2019, um að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 1. febrúar til 31. mars 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 26. nóvember 2019. Með bréfi, dags. 2. desember 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs vegna kærunnar. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst úrskurðarnefndinni 30. desember 2019 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. janúar 2020. Athugasemdir og viðbótargögn bárust frá kæranda 9. janúar 2020 og voru þau send Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. janúar 2020. Með tölvupósti til úrskurðarnefndar 21. janúar 2020 greindi Fæðingarorlofssjóður frá því að í viðbótargögnum frá kæranda kæmu fram upplýsingar sem krefðust frekari rannsóknar af hálfu Fæðingarorlofssjóðs í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tölvupóstur Fæðingarorlofssjóðs var sendur kæranda til kynningar 22. janúar 2020 og sendi hann athugasemdir samdægurs.

II.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. nóvember 2019, um að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 1. febrúar til 31. mars 2019. Undir meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni lagði kærandi fram ný gögn frá vinnuveitanda sínum en Fæðingarorlofssjóður hefur þegar lýst því yfir að þau þarfnist frekari rannsóknar við.

Úrskurðarnefnd velferðarmála tekur fram að endurskoðun æðra setts stjórnvalds á ákvörðunum lægra setts stjórnvalds á grundvelli stjórnsýslukæru tekur til allra þátta ákvörðunarinnar. Það er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til þess hvort lagaskilyrði fyrir ákvörðun séu uppfyllt, hvort rétt atvik hafi verið lögð til grundvallar og hvort forsendur hinnar kærðu ákvörðunar séu lögmætar og málefnalegar. Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir á stjórnsýslustigi og þeim verður ekki skotið til æðra stjórnvalds, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Af þessu leiðir að löggjafinn hefur gert ráð fyrir að þau mál sem lögin taka til og ágreiningur rís um séu tekin til afgreiðslu á tveimur stjórnsýslustigum.

Að því virtu og í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti telur úrskurðarnefndin rétt að Fæðingarorlofssjóður rannsaki mál kæranda frekar á grundvelli þeirra gagna sem hann hefur lagt fram. Þar með er tryggt að kærandi fái fullnægjandi efnislega meðferð á báðum stjórnsýslustigum og getur hann þá eftir atvikum kært niðurstöðu Fæðingarorlofssjóðs að lokinni endurskoðun hans á málinu til úrskurðarnefndarinnar. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar Fæðingarorlofssjóðs.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. nóvember 2019, um að krefja A, um endurgreiðslu á ofgreiddum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 1. febrúar til 31. mars 2019 er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sjóðsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta