Hoppa yfir valmynd
8. desember 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Stefna í málefnum tónlistar 2023-2030

Arnar&Arnar hönnuðu tónlistarstefnuna.  - myndArnar&Arnar

Tónlistarlíf á Íslandi hefur leitt af sér ríkan menningararf sem á sér fastan sess í hjörtum landsmanna. Á degi íslenskrar tónlistar þann 1. desember kom út Stefna í málefnum tónlistar 2023-2030. Tónlistarstefnan var samþykkt sem þingsályktun á Alþingi 3. maí 2023.

Tónlistarstefnan var mótuð af menningar- og viðskiptaráðuneytinu í samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og í góðu samráði við hag- og fagaðila. Um er að ræða fyrstu opinberu stefnu á sviði tónlistar á Íslandi. Með stefnunni eru stigin stór skref í stuðningi við frekari uppbyggingu þessarar mikilvægu listgreinar.

„Með stefnunni eru stigin stór skref í stuðningi við frekari uppbyggingu þessarar mikilvægu listgreinar, sem er okkur svo kær,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Stefnan inniheldur framtíðarsýn og markmið tónlistar til ársins 2030 auk aðgerða sem mótaðar hafa verið sem liður í að ná tilsettum markmiðum. Aðgerðaáætlun stefnunnar verður í tveimur hlutum. Fyrri hluti, sem kynntur er hér, gildir fyrir árin 2023−2026 og síðar verður mótuð aðgerðaáætlun sem gilda mun árin 2027−2030.

Grunnur að tónlistarstefnu var lagður með skýrslu starfshóps um Tónlistarmiðstöð frá árinu 2021. Starfshópurinn skilaði skýrslu vorið 2021 sem fól m.a. í sér drög að tónlistarstefnu og upplegg fyrir nýjan tónlistarsjóð.

Á grunni þeirrar skýrslu var unnið að frekari mótun tónlistarstefnu með aðkomu hagaðila, þar á meðal Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, Ríkisútvarpsins, Íslenskrar tónverkamiðstöðvar, STEFS, Félags íslenskra hljómlistarmanna, Félags íslenskra tónlistarmanna, Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur, Listaháskóla Íslands, Félags tónskálda og textahöfunda, Tónskáldafélagsins, Hörpu og annarra aðila sem tengjast menningu og listum. Litið var til aðferðafræði stefnumótunar á vegum Stjórnarráðsins þar sem mat er gert á núverandi stöðu, framtíðarsýn sett fram og í kjölfarið valin besta leið að henni.

Að stefnunni unnu Jakob Frímann Magnússon, Bragi Valdimar Skúlason, Bryndís Jónatansdóttir, Eiður Arnarsson, Gunnar Hrafnsson, María Rut Reynisdóttir, Valgerður Guðrún Halldórsdóttir, Baldur Þórir Guðmundsson og Sólrún Sumarliðadóttir. Arnar&Arnar sáu um uppsetningu og hönnun. 

Þær skýrslur og rannsóknir sem lágu fyrir um stöðu tónlistarumhverfisins nýttust starfshópi um Tónlistarmiðstöð við að leggja drög að tónlistarstefnu og framtíðarsýn. Í samstarfi við hagaðila voru helstu áskoranir, tækifæri og áherslur greindar og tillögur að aðgerðum mótaðar. Í framhaldinu var unnið frekar með aðgerðatillögurnar, þær kostnaðarmetnar eftir föngum og þær aðgerðir sem þóttu líklegar til að ná fram að ganga á næstu þremur árum valdar á fyrri hluta aðgerðaáætlunarinnar, fyrir árin 2023−2026. Lögð var áhersla á að hver aðgerð hefði tilgreindan ábyrgðaraðila og tímamörk.

Tónlistarmenntun er órjúfanlegur hluti tónlistarumhverfis og því var menntunarhluti stefnunnar unninn í góðu samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið.

Drög að stefnunni voru birt sumarið 2022 í Samráðsgátt stjórnvalda þar sem kallað var eftir umsögnum um innihald, áherslur og aðgerðir, og gafst með því tækifæri til enn breiðara samráðs. Fjöldi ábendinga barst sem tekið var tillit til við lokavinnslu stefnunnar. Sérstaklega bárust margar umsagnir er tengdust menntahluta stefnunnar þar sem kallað var eftir skýrari sýn í málefnum tónlistarmenntunar. Í kjölfarið fór af stað vinna í mennta- og barnamálaráðuneytinu þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að tímabært væri að hefja heildarendurskoðun aðalnámskrár tónlistarskóla.

Stefnunna má lesa hér á vef Stjórnarráðsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta