Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 571/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 18. nóvember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 571/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21100044

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik

Þann 25. mars 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. janúar 2021 um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Grikklands. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 29. mars 2021.

Þann 15. október 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Dagana 21. og 22. október 2021 bárust upplýsingar frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun um málsmeðferð í máli kæranda. Athugasemdir kæranda bárust kærunefnd þann 27. október 2021.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Kærandi vísar til þess að hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 15. október 2020. Hann byggir beiðni um endurupptöku á því að þar sem 12 mánuðir séu nú liðnir frá umsókn hans um alþjóðlega vernd og atvik hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar hafi verið birtur honum vegna þess tíma sem hafi liðið, skuli taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Með vísan til framangreinds er gerð sú krafa að mál hans verði endurupptekið og Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hafi samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum sé þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar séu í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þótt 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 15. október 2020 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti þann 15. október 2021. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í upplýsingum sem kærunefnd bárust frá Útlendingastofnun, dags. 22. október 2021, varðandi fyrirspurn um tafir á málsmeðferð og flutning kæranda, kemur fram að varðandi málsmeðferð kæranda hjá stofnuninni líti hún ekki svo á að kærandi hafi tafið mál sitt. Stofnunin hafi hinsvegar fengið upplýsingar frá stoðdeild ríkislögreglustjóra um að kærandi hafi neitað því að sýna samstarfsvilja í tengslum við framkvæmd flutnings, þ. á m. neitað að undirgangast Covid-19 sýnatöku. Það sé því mat stofnunarinnar að rekja megi tafir á flutningi til viðtökuríkis til athafna eða athafnaleysis kæranda sem hann beri sjálfur ábyrgð á og vegna áskilnaðar stjórnvalda í Grikklandi um framvísun á neikvæðu Covid-19 vottorði eða bólusetningavottorði hafi ekki verið hægt að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn hafi verið liðinn og því geti tafir umsækjanda ekki talist óverulegar. Stofnunin telur því að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. laga um útlendinga fyrir því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar séu ekki uppfyllt

Í upplýsingum sem bárust frá stoðdeild ríkislögreglustjóra, dags. 21. október 2021, kemur fram að í kerfi lögreglu komi fram að rætt hafi verið við kæranda þann 7. maí 2021 og honum tjáð að hann ætti að mæta í bókaða sýnatöku á mánudeginum 10. maí 2021 klukkan 8.30 þar sem til stæði að frávísa honum til Grikklands í þeirri viku. Kærandi hafi verið afar skýr þegar hann hafi sagst hvorki ætla til Grikklands né í hina bókuðu sýnatöku.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 25. október 2021, var kærandi upplýstur um afstöðu Útlendingastofnunar og svar stoðdeildar ríkislögreglustjóra og honum gefin frestur til að koma á framfæri andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum kæranda, dags. 27. október 2021 kemur fram að kærandi telji að gögn frá stoðdeild gefi til kynna að verklag og framkvæmd flutnings kæranda úr landi hafi verið ómarkviss. Gögnin gefi til kynna að einungis hafi verið haft samband við kæranda í eitt skipti með símtali. Í umræddu símtali hafi komið fram að hann ætti bókað í sýnatöku þar sem til stæði að frávísa honum til Grikklands í næstu viku. Kærandi hafi sagst ekki ætla til Grikklands né í sýnatöku. Þetta sé eina skiptið sem haft hafi verið samband við kæranda varðandi flutning til Grikklands. Að öðru leyti hafi ekki verið haft samband við hann síðan í maí, eða í meira en fimm mánuði. Af gögnunum megi ekki afmarka með nákvæmum hætti hvort bókað hafi verið flug fyrir kæranda eða nákvæmlega hvaða dag til stæði að flytja hann til Grikklands. Að mati kæranda hafi hann ekkert gert til að tefja mál sitt og ekki séu forsendur til að halda því fram að hann hafi tafið mál sitt á grundvelli þeirra takmörkuðu upplýsinga sem liggi fyrir. Kærandi vísar til úrskurðar kærunefndar í máli nr. KNU21070020 sem hann telur vera sambærilegt sínu máli. Í því máli hafi kærunefnd komist að því að tafir á afgreiðslu málsins hafi ekki verið á ábyrgð kærandans og því bæri að taka mál hans til efnismeðferðar. Stoðdeild hafi í fyrrgreindu máli einnig haft samband við kæranda varðandi Covid sýnatöku og afstöðu til flutnings til Grikklandi en hann hafi neitað munnlega. Þá kemur fram í athugasemdum kæranda að hann sé ósammála niðurstöðu í úrskurði kærunefndar í máli nr. KNU21090010 þar sem niðurstaða nefndarinnar hafi verið sú að kærandi í málinu hafi tafið mál sitt. Kærandi bendir á að í umræddum úrskurði komi fram að bókaður hafi verið farmiði fyrir kærandann, hann hafi samþykkt að fara til Grikklands á tilteknum degi og hann hafi verið sérstaklega boðaður á tiltekna heilsugæslu í Covid sýnatöku í tengslum við flutninginn en hann hafi svo síðar afboðað komu sína með smáskilaboðum. Að mati kæranda sé ljóst að eina símtalið sem hafi átt sér stað varðandi framkvæmd flutnings í sínu máli verði ekki jafnað við framangreint. Sé því ljóst af gögnum málsins og með vísan til framangreindra úrskurða kærunefndar útlendingamála að kærandi hafi ekki tafið mál sitt og því beri að taka mál hans til efnismeðferðar.

Vegna tilvísunar kæranda til úrskurðar kærunefndar í máli nr. KNU21070020, tekur kærunefnd fram að hún telur málsatvik í máli kæranda ekki sambærileg fyrrgreindum úrskurði. Í fyrrgreindu máli taldi kærunefnd að þau samskipti sem hafi átt sér stað milli kæranda og stoðdeildar hafi einungis snúið að því að kanna almennt afstöðu kæranda til fyrirhugaðs flutnings til Grikklands. Í fyrirliggjandi máli kæranda var honum tjáð að hann ætti að mæta í sýnatöku þann 10. maí 2021 klukkan 8.30 vegna fyrirhugaðs brottflutnings í sömu viku. Kærandi lýsti afstöðu sinni að hann hygðist ekki ætla að fara í umrædda sýnatöku né fara til Grikklands.

Af svari stoðdeildar má sjá að kærandi hafi þann 7. maí 2021 verið boðaður í Covid-19 sýnatöku þann 10. maí 2021 klukkan 8.30 vegna fyrirhugaðs brottflutnings í sömu viku. Kærandi lýsti afstöðu sinni að hann hygðist ekki ætla að fara í Covid-19 sýnatöku né fara til Grikklands. Kærandi mætti því ekki í umrædda sýnatöku. Þannig kom kærandi í veg fyrir flutning sinn úr landi og tafði málsmeðferð í máli sínu.

Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd að tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er ekki uppfyllt.

Í ljósi framangreinds er því ekki fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Endurupptöku á máli hans er þar með hafnað.


Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The appellant‘s request is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sandra Hlíf Ocares                                                    Bjarnveig Eiríksdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta