Hoppa yfir valmynd
6. mars 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ráðherra heimsótti Künstlerhaus Bethanien í Berlín

Styrmir Örn Guðmundsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Anna Júlía Friðbjörnsdóttir - mynd

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, heimsótti liststofnunina Künstlerhaus Bethanien í Berlín fyrr í dag. Íslenskir myndlistarmenn hafa kost á vinnustofudvöl þar en samstarfið hófst árið 2016.

Vinnustofuverkefnið hefur verið mikill fengur fyrir íslenskt myndlistarfólk og menningarlíf hér á landi. Verkefnið er fjármagnað af ráðuneytinu og einkaaðilum en Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar annaðist samningana fyrir Íslands hönd.

Í heimsókninni í dag hitti ráðherra meðal annars Christoph Tannert listrænan stjórnanda og Valeriu Schulte-Fischedick safnstjóra. Ræddi ráðherra einnig við íslensku listamennina Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur og Styrmi Örn Guðmundsson.

„Vinnustofudvöl sem þessi getur verið mikill stökkpallur fyrir listamenn. Það var ánægjulegt að hitta íslensku listamennina í Künstlerhaus Bethanien í dag og heyra um þeirra upplifun af dvölinni og hversu gefandi er að vera í samstarfi við aðra listamenn af fjölbreyttum uppruna,“ sagði ráðherra eftir heimsóknina í liststofnunina í dag.

Fundar með menningarmálaráðherra Þýskalands

Á meðan vinnustofudvöl stendur heldur hver listamaður einkasýningu á vegum Künstlerhaus Bethanien sem er ein virtasta stofnun á þessu sviði í Evrópu. Künstlerhaus Bethanien var stofnuð árið 1974 og er ein rótgrónasta og virtasta stofnun Þýskalands á þessu sviði og vel þekkt alþjóðlega. Að jafnaði starfa um 25 listamenn víðsvegar að úr heiminum við miðstöðina.

„Dvölin veitir listamönnum sem þar dvelja aðgengi að öflugu alþjóðlegu tengslaneti; sýningarstjórum, safnafólki, blaðamönnum og öðrum sem starfa innan geirans. Auk þess heldur stofnunin utan um sýningarhald, útgáfu og ýmsa viðburði,“ segir ráðherra um verkefnið.

Heimsóknin er hluti af ferð ráðherra til Berlínar en hún mun funda með Claudiu Roth, menningarmálaráðherra Þýskalands á morgun ásamt því að sækja ITB ferðasýninguna sem er ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum.

Styrmir Örn Guðmundsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Anna Júlía Friðbjörnsdóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta