Hoppa yfir valmynd
17. mars 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 667/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 667/2020

Miðvikudaginn 17. mars 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. desember 2020, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. desember 2020, á umsókn kæranda um ellilífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn 26. nóvember 2020 sótti kærandi um ellilífeyri frá 25. febrúar 2018. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. desember 2020, var umsókn kæranda um ellilífeyri samþykkt frá 1. desember 2018 með þeim rökum að einungis væri hægt að sækja um greiðslur tvö ár aftur í tímann en á móti kæmi aldurshækkun. Nánar tiltekið voru réttindi kæranda ákvörðuð 104,5%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. desember 2020. Með bréfi, dags. 22. desember 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 30. desember 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. janúar 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er farið fram á að upphafstími töku ellilífeyris verði frá 67 ára aldri kæranda.

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi komið á [...] á C þar sem umboðsmaður hans sé starfsmaður. Kærandi hafi óskað eftir aðstoð hennar við að sækja um ellilífeyri þar sem hún hafi oft aðstoðað hann við ýmis [mál] en kærandi sé ekki tölvufær.

Þar sem kærandi sé í rekstri hafði hann hugsað sér að fá greiddan ellilífeyri einu sinni á ári, þ.e. þegar framtal lægi fyrir. Kærandi hafi fengið þær upplýsingar að hægt væri að sækja um lífeyri tvö ár aftur í tímann. Kærandi hafi orðið 67 ára 25. febrúar 2018 og hafi staðið í þeirri meiningu að sækja þyrfti um lífeyri fyrir áramótin 2020 til að fá greiddan lífeyri tvö ár aftur í tímann, eða frá 67 ára aldri.

Umboðsmaður kæranda hafi aðstoðað hann við að sækja rafrænt um að fá greiðslu ellilífeyris tvö ár aftur í tímann frá 25. febrúar 2018, þ.e. að fá greiðslu fyrir tíu mánuði ársins 2018 og allt árið 2019 þar sem framtöl hafi þá verið afgreidd til álagningar hjá Skattinum og að framvegis yrði honum greitt þegar framtöl lægju fyrir til álagningar. Niðurstaða Tryggingastofnunar hafi borist 2. desember 2020. Hvergi komi fram á heimasíðu stofnunarinnar að þurft hefði að sækja um ellilífeyri, í hans tilfelli 25. febrúar 2020, til að fá greitt frá þeim degi sem hann varð 67 ára. Hann hafi einungis fengið greitt frá þeim degi sem sótt hafi verið um ellilífeyri.

Umboðsmaður kæranda hafi óskað eftir upplýsingum frá Tryggingastofnun um hvar hún gæti lesið sér til um þessi tímamörk á heimasíðu stofnunarinnar. Einnig hafi hún óskað eftir upplýsingum um lög eða reglugerðir varðandi tímamörk á heimasíðunni varðandi afgreiðslu á ellilífeyri þegar óskað væri eftir greiðslum tvö ár aftur í tímann. Kæranda hafi verið bent á að hafa beint samband við lögfræðing stofnunarinnar en engin svör hafi borist.

Þar sem kærandi sé ekki tölvufær og þar að auki komi hvergi fram á heimasíðu Tryggingastofnunar varðandi tímamörk umsóknar sé afgreiðsla umsóknar kæranda kærð. Óskað sé eftir að kærandi fá greitt frá 67 ára afmælisdegi sínum.

Ekki sé hægt að ætlast til að ellilífeyrisþegar geti áttað sig á þessum tímamörkum þegar ekki sé hægt að afla upplýsinga á heimasíðu Tryggingastofnunar. Einnig sé vísað til laga varðandi upplýsingaskyldu, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærður sé upphafstími á greiðslu ellilífeyris til kæranda.

Kærandi hafi sótt um ellilífeyri með umsókn, dags. 26. nóvember 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 2. desember 2020, hafi verið samþykkt að greiða kæranda ellilífeyri tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn hafi borist, eða frá 1. desember 2018.

Samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar öðlast þeir rétt til ellilífeyris sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, að minnsta kosti þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnist með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt sé að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs gegn varanlegri hækkun lífeyrisins, sbr. 3. mgr. 23. gr. Heimildin sé bundin því skilyrði að viðkomandi hafi ekki fengið greiddan ellilífeyri frá almannatryggingum eða skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, sbr. þó 4. mgr.

Samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar sé umsækjanda rétt og skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum. Þá sé skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur og greiðslur.

Í 52. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og að umsóknir skuli vera á þar til gerðum eyðublöðum eða sendar með rafrænum hætti.

Í 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar komi fram að bætur skuli reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi. Þá komi fram í 4. mgr. 53. gr. sömu laga að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn hafi borist.

Kærandi hafi sótt um ellilífeyri með umsókn, dags. 26. nóvember 2020. Í umsókninni hafi komið fram að sótt væri um ellilífeyri frá 25. febrúar 2018.

Í 1. mgr. 52. gr. og 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar komi fram að sækja þurfi um bætur skriflega og að ekki sé heimilt að greiða lengra aftur í tímann en tvö ár. Þá segi í 39. gr. laganna að umsækjanda sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt. Sú skylda sé því lögð á bótaþega að hann leiti eftir rétti sínum. Það hafi kærandi gert með umsókn, dags. 26. nóvember 2020, og hafi verið samþykkt að greiða honum ellilífeyri tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn hafi borist, eða frá 1. desember 2018.

Samkvæmt skýru og afdráttarlausu orðalagi 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar skuli bætur aldrei úrskurðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn, sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta, berast stofnuninni. Með framangreindri afgreiðslu á umsókn kæranda um greiðslu ellilífeyris telji Tryggingastofnun komið eins langt til móts við kröfur hans og leyfilegt sé lögum samkvæmt. Ekki sé til staðar lagaheimild til að verða við þeim kröfum kæranda sem settar séu fram í kæru um greiðslu ellilífeyris lengra aftur í tímann en greitt hafi verið.

Í kæru komi fram nokkrar athugasemdir sem rétt sé að svara.

Í fyrsta lagi komi fram að kærandi hafi einungis fengið greiðslur ellilífeyris frá umsóknardegi. Það sé ekki rétt. Umsókn kæranda hafi verið afgreidd á þann hátt að hann hafi fengið greiðslur frá 1. desember 2018 og hafi þær greiðslur nú þegar verið greiddar út eins og komi fram á meðfylgjandi greiðsluseðli.

Í öðru lagi komi fram að ekki sé að finna neinar upplýsingar um að einungis megi greiða bætur Tryggingastofnunar tvö ár aftur í tímann. Það sé ekki rétt. Þær upplýsingar komi fram á nokkrum stöðum á heimasíðu stofnunarinnar, meðal annars í almennri umfjöllun um ellilífeyri.

Í þriðja lagi komi fram að Tryggingastofnun hafi ekki svarað erindi umboðsmanns kæranda varðandi þetta atriði. Það sé ekki rétt. Stofnunin hafi svarað erindinu en þar sem rangt netfang hafi verið gefið upp, hafi svarið ekki borist umboðsmanni kæranda.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. desember 2020, um upphafstíma greiðslna ellilífeyris til kæranda sem var ákvarðaður 1. desember 2018. Í kæru er þess krafist að upphafstími ellilífeyrisgreiðslna verði ákvarðaður frá 25. febrúar 2018.

Ákvæði um ellilífeyrisgreiðslur er í 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum. Samkvæmt 1. mgr. þeirrar lagagreinar öðlast þeir rétt til töku ellilífeyris sem náð hafa 67 ára aldri að öðrum skilyrðum uppfylltum. Í 2. mgr. sömu greinar segir að heimilt sé að fresta töku ellilífeyris til 80 ára aldurs gegn varanlegri hækkun lífeyrisins, sbr. 3. mgr. 23. gr.

Svohljóðandi er í 1. málsl. 1. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar:

„Sækja skal um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögum þessum.“

Samkvæmt framangreindu eru ellilífeyrisgreiðslur ekki sjálfkrafa greiddar af Tryggingastofnun ríkisins heldur verður að sækja sérstaklega um slíkar greiðslur.

Um upphafstíma greiðslna er fjallað í 53. gr. laga um almannatryggingar. Svohljóðandi eru 1. og 4. mgr. ákvæðisins:

„Réttur til bóta stofnast frá og með þeim degi er umsækjandi telst uppfylla skilyrði til bótanna og skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Bætur falla niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur.

[…]

Bætur skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.“

Af framangreindu ákvæði verður ráðið að ekki sé heimilt að ákvarða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn til að leggja mat á bótarétt og fjárhæð bóta berast Tryggingastofnun ríkisins. Þá skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi.

Kærandi sótti um ellilífeyri með umsókn þann 26. nóvember 2020. Í athugasemdum í umsókn kemur fram að sótt sé um ellilífeyri frá 25. febrúar 2018. Í ákvörðun Tryggingastofnunar voru samþykktar greiðslur ellilífeyris frá 1. desember 2018 með 4,5% hlutfallslegri hækkun til framtíðar. Kærandi fékk því greiddar bætur tvö ár aftur í tímann frá umsókn í samræmi við 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar.

Umboðsmaður kæranda gerir athugasemdir við að Tryggingastofnun hafi ekki sinnt upplýsingagjöf nægjanlega vel þar sem hvergi sé hægt að afla sér upplýsinga um þá reglu að eingöngu sé heimilt að greiða tvö ár aftur í tímann frá umsókn. Úrskurðarnefndin telur að ráða megi af gögnum málsins að umræddar upplýsingar sé að finna á heimasíðu Tryggingastofnunar. Þá eru engar heimildir í lögum til þess að greiða ellilífeyri lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn barst. Hin kærða ákvörðun verður því ekki felld úr gildi með vísan til framangreindrar málsástæðu kæranda. 

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslna ellilífeyris staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslna ellilífeyris til A, er staðfest.

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta