Framlenging á undanþágu frá íbúafjöldamörkum þjónustusvæða fatlaðs fólks
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur að tillögu samráðsnefndar um málefni fatlaðs fólks veitt sveitarfélögunum Hornafirði, Vestmannaeyjabæ, Norðurþingi og Þjónustusvæði Vestfjarða framlengingu á undanþágu frá íbúafjöldamörkum þjónustusvæða.
Við yfirfærslu á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga sem tók gildi 1. janúar 2011 veitti velferðarráðherra umræddum fjórum sveitarfélögum/þjónustusvæðum undanþágu frá lágmarksíbúafjölda þjónustusvæða. Var undanþágan veitt með vísan til heimildar í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 59/1992 og var í gildi til 31. desember 2014.
Samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks bárust, á síðari hluta nýliðins árs, umsóknir frá sveitarfélögunum/þjónustusvæðunum um framlengingu á undanþágunni. Fulltrúar nefndar um endurmat á yfirfærslunni áttu fund með öllum umsækjendum, einnig var óskað eftir umsögn réttindagæslumanna fatlaðs fólk um umsóknirnar. Umsagnir réttindagæslumanna voru jákvæðar. Samráðsnefndin ákvað í kjölfarið að mæla með því við félags- og húsnæðismálaráðherra að undanþágan yrði veitt. Ráðherra tók síðan ákvörðun um framlengingu undanþága til 31. desember 2017 með vísan í 4. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Ráðherra minnti jafnframt á að markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og að taka skuli mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks við framkvæmd þjónustunnar. Ákvörðunin kemur til endurskoðunar þegar ný lög um málefni fatlaðs fólks taka gildi en starfshópur félags- og húsnæðismálaráðherra vinnur nú að heildarendurskoðun löggjafarinnar. Eru ákvæði um lágmarksíbúafjölda og skilyrði fyrir undanþágum meðal þess sem starfshópurinn mun skoða.