Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 52/2013

Þriðjudaginn 21. janúar 2014


A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 12. desember 2013 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 29. nóvember 2013. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður), dags. 21. nóvember 2013, þar sem hann var krafinn um endurgreiðslu hluta útborgaðrar fjárhæðar frá Fæðingarorlofssjóði vegna mánaðanna maí og júlí 2012 ásamt viðbættu álagi.

Með bréfi, dags. 12. desember 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 16. desember 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30. desember 2013, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust

 

I. Málsatvik.

Kærandi var í fæðingarorlofi frá 13. maí 2012 til 15. júlí 2012. Kærandi var endurkrafinn um útborgaða fjárhæð vegna mánaðanna maí og júlí 2012 ásamt 15% álagi. Kærandi kærði þá ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála með kæru, dags. 20. nóvember 2012. Í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis nr. 7022/2012 o.fl. ákvað úrskurðarnefnd að vísa ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs aftur til sjóðsins til nýrrar málsmeðferðar. Þeirri málsmeðferð lauk með greiðsluáskorun Fæðingarorlofssjóðs til kæranda þar sem kærandi er krafinn um endurgreiðslu hluta útborgaðrar fjárhæðar fyrir framangreinda mánuði. Með kæru sinni, dags. 29. nóvember 2013, óskar kærandi eftir því að fjallað verði um efnisatriði hinnar upprunalegu kæru önnur en beinan endurútreikning.

 

II. Sjónarmið kæranda.

Í kæru greinir að kærandi hafi kært mál sitt áður til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, sjá mál nr. 98/2012. Svo hafi virst sem málsástæður kæranda hafi ekki að fullu verið skoðaðar heldur einungis framkvæmdur endurútreikningur sem hann hafi ekki farið fram á. Kærandi krefjist því þess að aðrar málsástæður verði skoðaðar.

Í upphaflegri kæru kæranda, dags. 20. nóvember 2012, greinir að kærandi hafi verið í fæðingarorlofi frá 13. maí 2012 til 15. júlí 2012. Á viðmiðunartímabilinu hafi kærandi verið í námi og vinnu sem hafi gefið lágar tekjur. Undanfarið ár hafi kærandi hins vegar verið með mun hærri laun þar sem hann vinni mikið og hafi lokið námi sínu.

Kærandi hafi hafið fæðingarorlof þann 13. maí 2012 en unnið eins og aðra mánuði fram að þeim degi, þ.e. frá 1.-13. maí. Það sama hafi hann gert í júlí eða unnið eins og aðra mánuði frá því að fæðingarorlofinu lauk og út mánuðinn, þ.e. frá 16.-31. júlí. Tekjur kæranda fyrir fyrri hluta maí og seinni hluta júlí hafi því verið hærri en þær tekjur sem hann hafi haft á viðmiðunartímabilinu. Kærandi hafi ekki vitað að litið væri til heilla almanaksmánaða í stað þess að líta einungis á þá daga sem foreldri er í fæðingarorlofi, enda sé mikil og flókin pappírsvinna að sækja um og fara í fæðingarorlof.

Kærandi bendi á að engin röksemi sé í reglunum og telur óeðlilegt að miðað sé við almanaksmánuði í stað þess að líta einungis til þeirra daga sem foreldri er í fæðingarorlofi. Auk þess sem kærandi telji að það líði of langur tími frá viðmiðunartímabili og þar til barn fæðist þar sem margt geti breyst á þessum tíma. Þá geri kærandi einnig athugasemdir við að litið sé til nýjustu tekna kæranda við útreikning á endurgreiðslukröfu á hendur honum.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs er vísað til greinargerðar sjóðsins í máli 98/2012 að öðru leyti en vegna kröfu um 15% álag. Í 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga 90/2004, sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt ákvæðinu skuli leggja álagið á óháð huglægri afstöðu eða ásetningi foreldris og foreldri verði að færa fyrir því rök að því verði eigi kennt um annmarkann eigi að fella það niður. Fyrir liggi í gögnum málsins sem og í kæru kæranda að ofgreiðslan sé komin til vegna vinnu kæranda í maí og júlí 2012 sem leiði til þess að greiðslur frá vinnuveitanda sem séu hærri en nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltali heildarlauna komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Verður því ekki séð að mati Fæðingarorlofssjóðs að tilefni sé til að fella niður álagið.

Að öðru leyti vísast til greinargerðar Fæðingarorlofssjóðs frá 29. nóvember 2012.

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs frá 29. nóvember 2012 kemur fram að með bréfum Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 20. september og 17. október 2012, hafi athygli hans verið vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir framangreint tímabil. Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK hafi hann fengið laun frá vinnuveitendum sínum á sama tíma og hann þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Með bréfinu hafi verið óskað eftir launaseðlum, tímaskýrslum, útskýringum vinnuveitenda og útskýringum og andmælum kæranda ásamt öðru því sem skýrt gæti málið.

Tölvupóstur hafi borist frá U hf. og bréf frá V hf., dags. 27. september 2012, ásamt launaseðlum frá U hf., T ehf. og V hf. fyrir tímabilið. Auk þess hafi borist vinnuskýrslur frá U hf. Í kjölfarið hafi kæranda verið send greiðsluáskorun vegna tímabilsins, dags. 25. október 2012 ásamt sundurliðun ofgreiðslu, þar sem hann hafi verið krafinn um endurgreiðslu hluta útborgaðrar fjárhæðar fyrir tímabilið ásamt 15% álagi. Litið hafi verið svo á, skv. skrám RSK, fyrirhugaðri töku fæðingarorlofs með barni fæddu 22. júlí 2011 og innsendum gögnum að kærandi hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði, samkvæmt 10. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, f-lið 8. gr. laga nr. 74/2008 og 3. gr. laga nr. 136/2011, sbr. og 2. mgr. 15. gr. a. ffl.

Samkvæmt fortakslausu ákvæði 10. mgr. 13. gr. ffl. skuli greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem séu hærri en nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Eingöngu skuli greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar séu fyrir það tímabil sem foreldri sé í fæðingarorlofi koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þó sé heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris.

Í 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga 90/2004, sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Ekki hafi komið fram nein rök sem gefa tilefni til að fella niður 15% álag á kæranda.

Á viðmiðunartímabili kæranda, skv. 2. mgr. 13. gr. ffl., hafi viðmiðunarlaun hans verið X kr. á mánuði en frá því að viðmiðunartímabili lauk og fram að fæðingu barnsins hafi þau verið komin í X kr. sem miðað hafi verið við. Þannig hafi verið tekið mið af hækkuðum launum kæranda honum til hagsbóta við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu skv. 10. mgr. 13. gr. ffl. Enga heimild sé að finna í ffl. eða í reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, að taka tillit til launabreytinga foreldris eftir fæðingardag barns við mat á hugsanlegri ofgreiðslu.

Í skýringum U hf., dags. 27. september 2012, komi m.a. fram að kærandi hafi ekki verið í vinnu hjá fyrirtækinu í júní vegna fæðingarorlofs. Í skýringum V hf., dags. 27. september 2012, komi m.a. fram að kærandi hafi verið í fæðingarorlofi frá 14. maí til 15. júlí 2012. Síðasti vinnudagur fyrir fæðingarorlof hafi verið föstudagurinn 12. maí 2012 og fyrsti vinnudagur eftir fæðingarorlof þann 16. júlí.  

Við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu hafi verið tekið tillit til launatímabils kæranda skv. tímaskýrslum, launaseðlum og skýringum frá V, dags. 27. september 2012.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá fyrir maí 2012 hafi kærandi þegið X kr. í laun frá sínum vinnuveitendum (V hf. X kr., T ehf. X kr. og U hf. X kr.). Við útreikning á ofgreiðslu kæranda hafi verið miðað við að heildargreiðslur frá hans vinnuveitendum í mánuðinum hefðu verið X kr. og hafi þá verið dregin frá orlofsuppbót frá U hf., X kr. hafi verið dregnar frá greiðslu frá T ehf. vegna vinnu í apríl auk þess sem orlofsuppbót frá V hafi verið dregin frá ásamt því að laun fyrir apríl, að fjárhæð X kr., hafi einnig verið dregin frá, sbr. launaseðlar, vinnuskýrsla og bréf frá V hf., dags. 27. september 2012.  Kærandi hafi því fengið sem svari 135% af meðaltali heildarlauna sinna frá sínum vinnuveitendum í mánuðinum og hefði því ekki mátt þiggja neina greiðslu frá Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir maí 2012 sé því X kr. útborgað.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá, launaseðlum, vinnuskýrslu og bréfi frá V, dags. 27. september 2012, fyrir júlí 2012 komi fram að kærandi hafi þegið X kr. í laun frá sínum vinnuveitendum (V hf. X kr., T ehf. X kr., U hf. X kr. og S 5.845 kr.) sem miðað hafi verið við við útreikning á ofgreiðslu kæranda. Kærandi hafi því fengið sem svari 145% af meðaltali heildarlauna sinna frá sínum vinnuveitendum í mánuðinum og hefði því ekki mátt þiggja neina greiðslu frá Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir júlí 2012 sé því X kr. útborgað.

Við mat á því hvort foreldri hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði, skv. fortakslausu ákvæði 10. mgr. 13. gr. ffl., sé ekki önnur leið fær en að horfa til þess hvort greiðslur frá vinnuveitanda séu hærri en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltali heildarlauna þeirra á viðmiðunartímabili 2. eða 5. mgr. 13. gr. ffl. að teknu tilliti til launabreytinga fram að fæðingu barns, ef um það er að ræða, á greiðslutímabili Fæðingarorlofssjóðs. Við það mat sé alltaf horft á hvern og einn almanaksmánuð.

Ljóst sé að ákvæðið opni ekki á það að foreldri geti valið að vera í fæðingarorlofi hluta dags eða hluta mánaðar og lagt niður vinnu þann tíma en síðan bætt upp það tekjutap sem af því hlýst með frekari vinnu, t.d. yfirvinnu, seinni hluta sama dags eða mánaðar eða með aukavinnu, bónusþóknunum, árangursþóknunum, bakvöktum, sérverkefnum og öðrum slíkum greiðslum vegna þeirrar vinnu sem unnin var innan tímabilsins og það leiði þannig til þess að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði komi í raun til viðbótar við greiðslur frá vinnuveitanda að hluta eða öllu leyti. Með þeim hætti væri enda tilgangi greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, sem sé aðallega ætlað að gera foreldrum kleift að leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi án þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið liggi þar að baki og að allar greiðslur sem eru umfram mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóðnum, ekki náð.

 

III. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um greiðslur vegna mánaðanna maí og júlí 2012 úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns hinn 22. júlí 2011, auk 15% álags.

Í hinni kærðu ákvörðun er á því byggt að kærandi hafi þegið of há laun frá vinnuveitanda sínum í maí og júlí 2012 á sama tíma og hann þáði greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði.

Kærandi byggir á því að að Fæðingarorlofssjóður hafi litið til launa sem kærandi hafi unnið fyrir utan þess tímabils sem hann hafi verið í fæðingarorlofi. Kærandi hafi verið í fæðingarorlofi frá 13. maí til 15. júlí 2012 en Fæðingarorlofssjóður hafi litið til heilla almanaksmánuða við útreikninga sína. Þá byggir kærandi einnig á því að á viðmiðunartímabilinu hafi hann enn verið í námi og vinnu sem hafi gefið af sér litlar tekjur og því gefið viðmiðunartímabilið ekki rétta mynd af tekjum kæranda. Jafnframt gerir kærandi athugasemd við að vera krafinn um 15% álag.

Barn kæranda er eins og fyrr greinir fætt 22. júlí 2011. Viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna kæranda skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. er því tímabilið frá janúar 2010 til desember 2010. Í greiðsluáætlun, dags. 5. júlí 2012, kemur fram að meðaltekjur kæranda á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. voru alls X kr. og greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði miðað við 100% fæðingarorlof væri samkvæmt því X kr. Af útreikningi sem fylgdi hinni kærðu ákvörðun frá 21. nóvember 2013 má hins vegar sjá að litið var til launa kæranda eftir að viðmiðunartímabili lauk og fram að fæðingu barns hans og miðað við X kr. meðallaun við útreikning á endurgreiðslukröfu Fæðingarorlofssjóðs. Er það samkvæmt heimild í 9. mgr. (nú 10. mgr.) 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 og 8. gr. laga nr. 74/2008, til hækkunar á meðaltals heildarlaunum vegna launahækkana eftir lok viðmiðunartímabils en fyrir fæðingu barns. Er það kæranda til hagsbóta.

Með vísan til framangreinds er rétt að mati úrskurðarnefndar að miða endurgreiðslukröfu á hendur kæranda við meðaltals heildarlaun að fjárhæð X kr., líkt og gert er í hinni kærðu ákvörðun, en það er meðaltal heildarlauna kæranda samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK frá því að viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. lauk og fram að fæðingu barns hans. Enga heimild er að finna í ffl. til að taka tillit til ástæðna þess að laun kæranda á viðmiðunartímabili voru lægri en þau hefðu getað verið, svo sem vegna náms eða vinnu sem hafi gefið lágar tekjur, eða taka mið af tekjum kæranda á öðru tímabili en skilgreindu viðmiðunartímabili samkvæmt framangreindu.

Þá byggir kærandi einnig á því að Fæðingarorlofssjóði hafi verið óheimilt að líta til þeirra daga maí- og júlímánaðar sem kærandi hafi ekki verið í fæðingarorlofi. Ákvæði 9. mgr. (nú 10. mgr.) 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 og 8. gr. laga nr. 74/2008, mælir fyrir um að greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Til þess að unnt sé að beita þessari reglu þarf að liggja fyrir hvaða tímabil á að miða við í þessu sambandi, en það er ekki tekið skýrt fram í ffl. Hefur úrskurðarnefndin talið sig þurfa að túlka ákvæðið til samræmis við önnur ákvæði ffl. en önnur ákvæði laganna miða við almanaksmánuði, t.a.m. þegar mánaðarleg greiðsla og starfshlutfall er ákveðið, en nefndin telur þessi atriði nátengd þeim atriðum sem á reynir við túlkun á 10. mgr. 13. gr. og mat á hugsanlegri endurgreiðsluskyldu foreldris. Þá er til þess að líta að í framkvæmd er útilokað að framkvæma lögin þannig að launagreiðslur frá vinnuveitendum komi í raun til frádráttar greiðslum frá fæðingarorlofssjóði, ef ekki er unnt að byggja á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá, en þess í stað byggt á upplýsingum frá viðkomandi um að fæðingarorlof hafi aðeins verið tekið hluta dagsins eða hluta mánaðar.

Að mati nefndarinnar myndi önnur túlkun fara gegn þeim tilgangi ffl. sem reifaður var hér að framan. Lögin heimila þannig ekki að foreldri geti valið að vera í fæðingarorlofi hluta dags eða hluta mánaðar og lagt niður vinnu þann tíma en síðan bætt upp það tekjutap sem af því hlýst með frekari vinnu, til dæmis með yfirvinnu, seinni hluta sama dags eða mánaðar og það leiði þannig til þess að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði komi í raun til viðbótar við greiðslur frá vinnuveitanda að hluta eða öllu leyti. Væri ekki miðað við almanaksmánuð í þessu samhengi gæti foreldri unnið upp það tekjutap sem foreldrið yrði fyrir með því að færa verkefni sín yfir á þann hluta mánaðarins sem það væri ekki í fæðingarorlofi og vinna þannig upp, til dæmis með yfirvinnu, það tekjutap sem það hefði orðið fyrir með því að leggja niður störf, auk þess að fá umrætt tekjutap bætt úr Fæðingarorlofssjóði. Með þeim hætti væri tilgangi greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði ekki náð að mati nefndarinnar, sem sé að gera foreldrum kleift að leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi án þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið liggi þar að baki.

Með vísan til þessara sjónarmiða verður ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að laun sem hann hafði í maí og júlí 2012 hafi ekki áhrif á heimildir hans til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði fyrir viðkomandi mánuði.

Þar sem kærandi þáði greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði á tímabilinu frá maí til júlí 2011 var honum einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu mismuni meðaltals heildarlauna hans eins og þau voru hækkuð skv. 9. mgr. (nú 10. mgr.) 13. gr. ffl. og greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði án þess að greiðslur vinnuveitanda til hans kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Líkt og áður segir er rétt að mati úrskurðarnefndar að miða endurgreiðslukröfu á hendur kæranda við meðaltals heildarlaun að fjárhæð X kr. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði að fjárhæð X kr. í maí 2012 og X kr. í júlí 2012. Var honum því heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda að fjárhæð X kr. í maí 2012 og X. kr. í júlí 2012 án þess að það kæmi til lækkunar á greiðslum úr sjóðnum. Er þessi túlkun í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 7022/2012 o.fl. frá 28. ágúst 2013.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidd laun frá vinnuveitanda sínum í maí 2012 að fjárhæð X kr. og X kr. í júlí 2012. Kærandi þáði þannig hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en honum bar skv. ffl. fyrir umrædda mánuði. Verður niðurstaða Fæðingarorlofssjóðs um skyldu kæranda til endurgreiðslu því staðfest. Ekki verður annað séð en að útreikningar Fæðingarorlofssjóðs hafi verið leiðréttir til samræmis við álit umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 7022/2012 o.fl. frá 28. ágúst 2013 og séu í samræmi við ákvæði ffl.

Þá krefst kærandi þess sérstaklega að 15% álag verði fellt niður. Í 2. mgr. 15. gr. a ffl., sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004 og 5. gr. laga nr. 155/2006, segir að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Þá segir jafnframt að fella skuli niður álagið færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Með umsókn kæranda um fæðingarorlof veitti hann ýmsar upplýsingar vegna fyrirhugaðs orlofs. Í umsókninni er feitletraður og undirstrikaður texti með yfirlýsingu umsækjanda um að hann heimili Vinnumálastofnun að afla gagna úr skattskrám og að hann sé upplýstur um að þessi gögn verði notuð til eftirlits. Þá segir orðrétt „Með undirskrift minni staðfesti ég einnig að láta Fæðingarorlofssjóð vita um allar breytingar sem kunna að hafa áhrif á afgreiðslu umsóknar þessarar og/eða greiðslur samkvæmt henni.“ Í umsókninni gaf kærandi engar upplýsingar um tekjur og ekki er þar tekið fram að breytingar á þeim séu á meðal þess sem tilkynna beri um. Í framhaldi af þessari umsókn var kæranda send greiðsluáætlun þar sem sérstaklega var tiltekið að greiðslur sjóðsins miðist við „hlutfall af meðaltekjum þínum samkvæmt skrám skattyfirvalda á 12 mánaða samfelldu tímabili sem lýkur 6 mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns“ og var því beint til kæranda að yfirfara upplýsingar um tekjur á þessu tímabili sem fylgdu áætluninni. Í smáu letri sem fylgdi kom fram að yrðu „breytingar á lágmarksgreiðslu, skatthlutfalli, persónuafslætti eða öðrum forsendum sem hafa áhrif á greiðslur geta fjárhæðir breyst“. Hvergi var á hinn bóginn minnst á breytingar á tekjum eftir að umræddu tímabili lauk eða að þær gætu skipt máli. Þegar þessi samskipti kæranda og stjórnvaldsins eru skoðuð heildstætt er útilokað að leggja ábyrgðina á því að kærandi upplýsti ekki sjóðinn um breyttar tekjur sínar á kæranda. Verður því hafnað að leggja 15% álag á endurgreiðsluna.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda, A um útborgaða fjárhæð fyrir maí og júlí 2012, að fjárhæð X kr., er staðfest. Hafnað er að leggja 15% álag á endurkröfuna.

 

 

Haukur Guðmundsson

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta